Djúpivogur
A A

Húsnæðismál - fréttabréf frá sveitarstjórn - að gefnu tilefni

Húsnæðismál - fréttabréf frá sveitarstjórn - að gefnu tilefni

Húsnæðismál - fréttabréf frá sveitarstjórn - að gefnu tilefni

skrifaði 08.05.2016 - 12:05

Umræða um húsnæðismál og skortur á íbúðarhúsnæði hefur verið ofarlega á baugi hér á Djúpavogi um nokkurt skeið 
og það er full ástæða að taka þau mál alvarlega.  Sveitarstjórn er vel meðvituð um stöðuna og hefur því verið með
húsnæðismálin til skoðunar í sérstökum starfshópi þar sem verið er að leita lausna á mörgum sviðum m.a. er varðar 
nýbyggingar, leigumarkaðinn og nýjar hugmyndir í skipulagi. Í þessum efnum er sérstaklega mikilvægt að huga að 
fjölbreyttum lausnum til framtíðar, ásamt því að reyna að bregðast við því álagi sem þegar er til staðar á 
húsnæðismarkaði.

Flest sveitarfélög í landinu eiga í vanda vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði er varðar nýbyggingar íbúðarhúsa og 
þá ekki síður eru miklir og vaxandi erfiðleikar hjá íbúum á almennum leigumarkaði m.a. vegna skammtímaútleigu 
á íbúðarhúsum til ferðamanna t.d. í gegnum markaðsfyrirtæki á netinu. 

Það má hverjum ljóst vera að hér á Djúpavogi vantar bæði nýbyggingar á íbúðarhúsnæði og þá ekki síður húsnæði 
á almennum leigumarkaði. Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á Djúpavogi er nú orðin viðvarandi allt árið og hún er 
umtalsverð. Óháð vinnu sveitarfélagsins í þessum efnum er full ástæða til að hvetja þá sem eiga þess kost að 
fara í nýbyggingar íbúðarhúsa. Sveitarfélagið vinnur nú að því að móta í hvaða formi ívilnanir frá sveitarfélaginu 
geta hugsanlega komið til varðandi nýbyggingar íbúðarhúsa í þéttbýlinu.  

Sveitarstjórn vill jafnframt leita allra leiða til koma í veg fyrir að íbúðabyggð þróist í átt til þess sem gerst hefur
nú þegar í of mörgum sveitarfélögum, þar sem að hluti skipulagðra íbúðahverfa hafa í raun breyst í
frístundabyggð/sumarhúsabyggð á skammtímaleigumarkaði. Afleiðingarnar af þessum breytingum eru víða að 
koma harkalega niður á þeim sem síst skyldi, fólki sem er sannarlega að leita að húsnæði til að dvelja og starfa 
til lengri tíma, fólki sem tekur þátt í samfélaginu og greiðir skatta og skyldur til þess.  Við þessar aðstæður vill 
sveitarstjórn vinsamlega hvetja þá einnig sem eiga íbúðarhús í þéttbýlinu á Djúpavogi sem ekkert eru nýtt allt árið
um kring að koma þeim í útleigu á almennum markaði í stað þess að láta þau standa tóm allt árið, engum til gagns.     

Nú þegar eru sveitarfélög farin að grípa til aðgerða til að spyrna við fótum svo að koma megi í veg fyrir byggðaröskun 
vegna stöðu á húsnæðismarkaði.  Sveitarstjórnin í Vík í Mýrdal hefur meðal annars tekið skref í átt til þess að verja 
stöðu þeirra sem vilja sannarlega búa á svæðinu. Þessi skref eru á svipuðum nótum og Djúpavoghreppur hefur verið
að huga að á liðnum vikum. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur einnig verið að vinna að breytingum í þessum málum. 
Víða eru nú þegar komin upp stórfelld vandmál og almenn óánægja meðal íbúa vegna útleigu á íbúðarhúsum til 
ferðamanna. Ágallar hafa reynst margir og ólíkir eftir aðstæðum og nægir að nefna að víða eru ekki næg bílastæði í
íbúðahverfum, auk þess hefur  hávaði og annað ónæði sem fylgir umferð gesta á öllum tímum sólarhrings valdið 
óánægju íbúa.  Hafa skal því í huga að í öllum meginatriðum eru íbúðahverfi skipulögð fyrir íbúa.  

Truflandi atvinnustarfsemi er því alls ekki æskileg í íbúðahverfum og það allra síst í Cittaslowbænum Djúpavogi þar
sem lífsgæði íbúana sjálfra eiga að vera sem mest í fyrirrúmi.  Að sama skapi viljum við sýna gestrisni og bjóða 
ferðamenn og aðra gesti velkomna til Djúpavogs til að njóta þeirrar þjónustu sem hér er upp á að bjóða í allri sinni 
mynd og þá er umferðarstýring, skynsamlegar reglur og upplýsingagjöf mikilvægur þáttur til að skapa sem besta 
sátt milli íbúa og þessarar mikilvægu atvinnugreinar sem ferðaþjónustan er, ekki síst hér á svæðinu.    

Varðandi ákvarðanir sem sveitarstjórn í Vík í Mýrdal hefur tekið og hafa verið mikið til umfjöllunar varðandi bann
við skammtímaleigu til gistingar í íbúðarhúsum skal taka fram að breytingar sem þessar þýða breytingar á aðalskipulagi.  
Á næstunni verða að óbreyttu boðaðar breytingar frá sveitarstjórn Djúpavogshrepps á svipuðum nótum og í Vík.
Jafnhliða verði stefnt á að setja ný viðmið er varðar heimagistingu þ.e. er varðar fjölda gesta. Heimagisting er m.a. 
bundin reglum um að þar dvelja gestir inn á heimilum fólks sem er annars eðlis en flokkur um gististaði í flokki II 
samkvæmt reglugerð þar sem heilar íbúðir eru leigðar út í flæðandi ferðamennsku til skemmri tíma.  

Húseigendur í þéttbýli Djúpavogs eru hinsvegar hvattir til að setja frekar íbúðarhúsnæði á almennan húsaleigumarkað 
til fólks sem sannarlega vantar húsnæði og vill hafa aðsetur og starfa á Djúpavogi, eftirspurnin er sannarlega til staðar. 
 Mikilvægt er að samfélagið sé samhent í að takast á við vaxtarverki af því tagi sem hér eru til umfjöllunar. 
Þrátt fyrir margvísleg erfið ytri skilyrði og stöðu sveitarsjóðs um þessar mundir skal að sama skapi fagna sérstaklega 
hve mikil eftirspurn er meðal fólks að flytja til Djúpavogs, það sýnir að við erum á réttri leið með jákvæðan viðsnúning
í íbúaþróun með ungu og kraftmiklu fólki og vöxt í nýjum og fjölbreyttum atvinnugreinum.

                                                  Með upplýstum sumarkveðjum til íbúa
                                                   Sveitarstjórn Djúpavogshrepps

                                                                                                                                                         
Víða er að finna umfjöllun um stöðu húsnæðismála á netinu, sjá hér örlítið sýnishorn til upplýsingar.  

http://www.visir.is/skammtimaleiga-ibudarhusnaedis-ekki-lengur-leyfd-i-vik/article/2016160509594

http://www.visir.is/skammtimaleiga-ibudarhusnaedis-ekki-lengur-leyfd-i-vik/article/2016160509594

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/04/skammtimaleiga_husnaedis_bonnud/

http://www.visir.is/vilja-ekki-folk-i-gamum/article/2016160509494