Djúpivogur
A A

Hreinkýrin Hengla

Hreinkýrin Hengla

Hreinkýrin Hengla

skrifaði 04.02.2015 - 13:02

Hreindýr eru mjög áberandi hér í Djúpavogshreppi, stofninn er stór og fyrir liggur samkvæmt talningum að hvergi eru dýrin hlutfallslega fleiri en einmitt hér í sveitarfélaginu. Þekkt er að hreindýrin færa sig niður á láglendi þegar herðir að og vetur gengur í garð og sækja dýrin þá gjarnan alveg niður í byggð og hafa m.a. stórir hópar haldið sig hér við þéttbýlið á Djúpavogi á undanförnum árum.

Náttúrustofa Austurlands vaktar hagagöngu hreindýra allan ársins hring og er nú um þessar mundir unnið að sérstakri vöktun hreindýra í Djúpavogshreppi undir stjórn Skarphéðins G. Þórissonar líffræðings og starfsmanns Náttúrustofu Austurlands.
Stefnt er á í þessu skyni að koma fyrir gps. sendum á þremur hreindýrum og þann 18. janúar síðast liðinn komu hreindýraleiðsögumenn hér á svæðinu fyrir sendi á fyrsta dýrinu sem er hreinkýr. Hefur þessi kýr hlotið hið skemmtilega nafn Hengla, en dýrið var merkt í Henglavík og ber heitið samkvæmt því. Hreindýrið sem gengur nú hér um svæðið gefur frá sér reglulegar upplýsingar sem nýtast við rannsóknir á atferli dýranna.

Í þeim tilgangi að kynna þetta verkefni hér á svæðinu þá óskaði undirritaður eftir því við Skarphéðinn G. Þórisson að fá að miðla áfram upplýsingum um þetta skemmtilega og jafnframt fróðlega verkefni og var veitt góðfúslegt leyfi fyrir því.
Að þessu sögðu má sjá hér feril hreinkýrinar Henglu frá því hún fékk gps sendinn þann
18 jan. í Henglavíkinni til dagsins í gær 3 feb. Í dag er Hengla stödd á Búlandsdal í landi Teigarhorns og hefur haldið sig þar á svæðinu síðustu daga.

Nú er bara að vita hvort áhugi er til staðar að við uppfærum fréttir af Henglu og ferðalagi hennar hér um svæðið.  
Ef áhugi reynist meðal lesenda fyrir því að birta reglulegar upplýsingar um ferðir Henglu þá væri fínt ef að lesendur hér smelli á like við síðuna.

Klikkið tvisvar á myndina og stækkið til að sjá feril Henglu betur 

Spruningin er, hvar verður Hengla stödd í næstu viku - verður hún kannski komin á fótboltavöllinn ?

Hreindýramyndir eru úr myndasafni AS

                                                                                                                              Andrés Skúlason