Djúpivogur
A A

Hönnun frá Djúpavogi á Humarhátíð

Hönnun frá Djúpavogi á Humarhátíð

Hönnun frá Djúpavogi á Humarhátíð

skrifaði 01.07.2010 - 15:07

Ágústa Arnardóttur heldur áfram sigurför sinni um  heiminn og næstkomandi föstudagskvöld verður sýning á sérhönnuðum  og handgerðum hágæða tískuvörum frá Arfleifð- Heritage from Iceland.

Arfleifð frumsýndi vörur sínar á Djúpavogi 24. apríl 2010 og nú er komið að því að sýna Hornfirðingum og gestum Humarhátíðarinnar vörurnar á flottri og fjölbreyttri sýningu í Kartöfluskúrnum fyrir ofan hátíðarsvæðið frá                      kl. 22:00-23:00 á föstudagskvöldinu.

Sýningin nefnist  „Íslenska konan“ og hugmyndin bakvið sýninguna er að sýna hversu glæsilegar konur eru óháð aldri, vaxtarlagi, menntun, starfi eða stöðu.  15-20 flottar fyrirsætur sína fjölbreyttar vörur en inn í sýninguna fléttast líka tónlist, ljósmyndir, textar og fleira.

Arfleifð sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á töskum, fylgihlutum og fatnaði úr íslenskum hráefnum; hreindýra- sel- og lambaleðri, þorsk-lax-hlýra- og karfaroði, hreindýrshornum, hrossa tagli, þæfðri ull og fleiru sem náttúran gefur okkur.

Hver hlutur er vandlega hannaðar út frá náttúrlegu lagi hráefnisins, fagurlegu útliti og þægilegu notagildi. Hver hlutur er handgerður af kostgæfni og vandvirkni, sem gerir hvern hlut einstakan.

Ágústa Margrét Arnardóttir er eigandi Arfleifðar og hannar og handgerir allar vörurnar frá hugmynd að fullbúnum hlut.  Hún er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði og hefur verið búsett á Djúpavogi frá árinu 2006. Útskrifaðist sem stúdent af listnámsbraut- hönnunarsviði frá Iðnskólanum í Hafnarfirði 2005 og lærði skó- og fylgihlutahönnun í IED á Ítalíu árið 2006. Ágústa hefur einnig sótt fjölmörg námskeið í tösku- og skartgripagerð. Hún hefur að langmestu leyti þróað sjálf með sér tæknina sem hún notar við meðhöndlun á skinnum sem er allt öðru vísi en að vinna með textíl efni . Skinnin eru „lifandi“ og taka þarf mið af því við framleiðslu á vörum.

Allar vörur eru handgerðar og horfir Ágústa mikið til forfeðra og formæðra okkar sem notuðu þau hráefni sem náttúran gaf þeim, unnu allt í höndunum og komu sér upp tækni til að búa til þá hluti sem þeim vantaði, vildu og þurftu að eiga. Innblásturinn kemur að langmestu frá hráefnunum sjálfum, íslenskri náttúru, íslensku handverki, íslenskum hefðum og menningu.  Okkar íslenska Arfleifð.

Þess má einnig geta að umfjöllun um sýninguna og fyrirtækið Arfleifð birtist í Fréttablaðinu í dag. Hægt er að sjá umfjöllunina með því að smella hér.

Fyrir neðan má sjá myndir úr nýjustu hönnunarlínu Arfleifðar og mynd af fyrirsætuhópnum frá því Ágústa sýndi hönnun sína á Egilsstöðum í byrjun júní.

 

 

BR