Djúpavogshreppur
A A

Heimasíða til stuðnings heilsársvegi um Öxi

Heimasíða til stuðnings heilsársvegi um Öxi

Heimasíða til stuðnings heilsársvegi um Öxi

skrifaði 13.09.2011 - 14:09

Í gær var efnt til fundar sveitarstjórnar Djúpavogshrepps og bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði á Gistihúsinu á Egilsstöðum í tilefni af opnum á heimasíðu til stuðnings Axarvegi sjá hér http://oxi.is/ 

Unnið hefur verið að gerð þessarar heimasíðu á undanförnum vikum, en vettvangur þessi er fyrst og síðast til þess ætlaður til að koma á framfæri í samanteknu efni og upplýsingum um þetta mikilvæga baráttumál í samgöngum hér á Austurlandi. Allar helstu niðurstöður varðandi hina fyrirhuguðu framkvæmd um Öxi sem eru inn á síðunni eru teknar úr matskýrslum Vegagerðarinnar og eru upplýsingarnar gerðar aðgengilegri fyrir lesendur með því að birta meginmál og niðurstöðu úr einstökum köflum.

Til að gera síðuna enn meira lesenda- og viðmótavænni þá eru samhliða birtar greinar um Öxi að fornu og nýju, myndir og ýmislegt annað efni sem hæfa þykir þessum nýja vettvangi. Efni á heimasíðuna, bæði í formi texta og mynda er vel þegið ef menn hafa slíkt undir höndum og vilja deila með okkur, enda falli það að vettvangi þessum.   Þegar hafa verið birtar á síðunni úrklippur úr gömlum blaðagreinum um fyrstu skref vegagerðar á Öxi, happadrætti vegna framkvæmda og fl. 

Það er sannarlega von þeirra er standa að þessari heimasíðu að hún verði til þess að beina þeim er vilja leita sér réttra upplýsinga um málið inn á vettvang þennan og er þess því að vænta að heimasíðan geti sparað mörgum frekari skrif þar sem nóg er að vísa á linkinn þar sem helstu staðreynda er að leita um málefnið.  

Á fundi sveitarfélagana í gær var einnig lögð fram sérstök ályktun í tilefni dagsins sem hér má sömuleiðis sjá.

AS

Ályktun frá sveitarstjórn Djúpavogshrepps og bæjarráði á Fljótdalshéraði. 12.09.2011 

Sameiginlegur fundur bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og sveitarstjórnar Djúpavogshrepps leggur áherslu á að framkvæmdir vegna jarðgangnagerðar á Austurlandi komi ekki í veg fyrir eðlilegar samgöngubætur á svæðinu. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi þess að framkvæmdir við veg yfir Öxi fari inn á samgönguáætlun og að fjármunum verði ráðstafað til þess verkefnis þannig að framkvæmdum megi ljúka fyrir lok árs 2013. Jafnframt samþykkir fundurinn að vinna áfram að þróun á samstarfi sveitarfélaganna tveggja og er bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs og sveitarstjóra Djúpavogshrepps falið að undirbúa sérstakan fund sveitarstjórnanna þar sem þau mál verði til umfjöllunar.

 

 

 
  Fulltrúar frá sveitarstjórn Djúpavogshrepps og bæjarráði Fljótdalshéraðs á Gistihúsinu á 
  Egilsstöðum í gær.