Djúpivogur
A A

Haustganga grunnskólans

Haustganga grunnskólans

Haustganga grunnskólans

skrifaði 14.09.2011 - 08:09

Í síðustu viku fóru nemendur og starfsfólk í hina árlegu haustgöngu.  Rignt hafði um nóttina og leit ekki allt of vel út með veðrið um morguninn, en síðan birti til og varð hið besta veður á meðan gangan stóð yfr.  Venju samkvæmt skiptum við nemendunum í þrjá hópa.

Yngsta stigið fór upp í Hálsaskóg.  Gengu þeir sem leið lá upp Klifið, inn í Olnboga og þaðan gömlu leiðina inn í Hálsaskóg.  Þar skemmtu nemendur sér við ýmislegt, skoðuðu listaverk leikskólabarnanna, týndu ber, o.mfl.  Myndir frá ferðalaginu þeirra eru hér.

Haustgöngu 5.- 7. bekkjar, ásamt Önnu Láru og Unni, var heitið út á Hvítasand.  Á leiðinni þangað fengu nemendurnir fræðslu um eftirfarandi örnefni:  Brandsvík, Írissker, Vörðurnar, Mönnutanga, Mönnuskot, Fagrahól, Hjaltalínsvík, Íshústjörn, Íshústóft, Fálka-Jónshólma, Fálka-Jónsvík, Manndrápsboða, Svartasker, Skútusund, Mús, Músasund og síðast en ekki síst Hvítasand. 

Í fjörunni á Hvítasandi borðuðu nemendurnir nestið sitt, skoluðu tærnar í köldum sjónum, tíndu bláskeljar, hörpudiska og pínulitlar olnbogaskeljar, kepptust um að kasta steinum sem lengst út á hafið ásamt því að skreyta fjöruna með listaverkum úr skeljum og gróðri.  Á leiðinni aftur upp í skóla var mikið spáð í innsiglinguna að Djúpavogshöfn; Æðarsteinsvita, baujurnar og innsiglingarljósin á Brenniklettum. Einnig voru örnefnin sem voru talin upp hér að ofan rifjuð upp og fest betur í minni.  Myndir eru hér.  UMJ & ALH

Haustganga 8.-10. bekkjar:
Okkur var keyrt inn að Framnesi og við byrjuðum á því að labba frá gamla Eyfreyjunessbænum upp svokallað Eyfreyjunesskletta. Frá Eyfreyjunessklettum gengum við eftir Norðurbrúnum út Ytri-Hálsa, við príluðum niður Valahjalla og gengum út á Rakkabergið og skoðuðum Sjónarsviftir. Gengum eftir gamla veginum út á Djúpavog, gegnum Klessuklif og Olnboga. Síðan lá leiðin út á Miðmorgunsþúfu þar sem öll hersingin klifraði upp á þúfuna og stilti sér upp fyrir hópmyndatöku. Þegar við vorum að leggja af stað út í skóla hittum við Erlu Ingimundardóttur. Við sögðum henni frá ferðalaginu okkar hún skammaði Albert fyrir að tala um Hvítusanda og sagði okkur að hið rétta væri Hvítisandur. Síðan löbbuðum við niður klifið og fórum út í skóla. RSK. Myndir má sjá hér.