Djúpivogur
A A

Hátíðarhöld liðinnar viku

Hátíðarhöld liðinnar viku

Hátíðarhöld liðinnar viku

skrifaði 23.06.2015 - 10:06

17. júní

Þjóðhátíðardagur Íslendinga

Mikið var um dýrðir og gaman á Djúpavogi á þjóðhátíðardaginn. Ungmennafélagið Neisti sá um skipulagningu og alla viðburði hátíðarhaldanna.

Helstu fréttir af hátíðinni eru þær að...

 • appelsínugulir unnu hverfakeppnina.
 • Nína og Stebbi voru með best skreytta húsið í ár.
 • Elísa Hasler frá Karlsstöðum var tíguleg fjallkona.
 • Neisti lék fyrsta fótboltaleik sinn í 8 ár á heimavelli við Ungmennafélag Borgfirðinga, sem lyktaði 1-3 fyrir Borgafirðingum.
 • krakkarnir tók þátt í skemmtilegum leikjum á vellinum og undir lokin var sett upp sápurennibraut sem vakti mikla lukku.
 • grillað var á Neistagrillinu.
 • vítaspyrnumeistari Djúpavogs 2015 var Ingunn (kærasta Sigga Más).

 

 19. júní

Kvenréttindadagurinn

Djúpavogshreppur og mörg fyrirtæki í sveitarfélaginu gáfu starfsmönnum sínum frí eftir hádegi til að fagna 100 ára kosningarafmæli kvenna.

Haldin var kvöldvaka í Löngubúð kl. 20:00 til að fagna deginum. Skipulagsnefnd skipuðu: Bergþóra Birgisdóttir, Birta Einarsdóttir og Guðrún Aradóttir. Meðhjálparar voru Hrönn og Erla.

Sýndir voru gamlir og nýir kjólar á allan aldur. Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir kom í upphlut sem hún saumaði sjálf á þessu ári. Þarna var smábarnakjóll af Hrönn, barnakjóll af Dúnu, kjóll af Önnu Sigrúnu sem gengur í 3. ættlið saumaður af Rúnu, jakki af lækninum Þórarni, kjóll sem Álfheiður í Hátúni saumaði og fleira.

Dagskráin var eftirfarandi:

 • Erla Ingimundardóttir flutti erindi um konur í Búlandshreppi. Hún sagði frá Sigurbjörgu Einarsdóttur frá Hlíð.
 • Ásdís Heiðdal las um Nicolínu Weiwadt og Masselinu sem stofnaði kvenfélagið Vöku.
 • Erla sagði frá lífi Erlu Jóhannsdóttur og hennar sorgasögu og til dagsins í dag.
 • Hrönn Jónsdóttir var með fróðlegt erindi um getnaðarvarnir fyrri tíma og las ljóð eftir Böðvar Guðmundsson.
 • Þorbjörg Sandholt las samantekt Hrannar um frumkvöðlakonur á Berufjarðarströnd.
 • Rán Freysdóttir las mjög athyglisverða frásögn um konur allra tíma á Íslandi.
 • Margrét Ásgeirsdóttir spilaði á gítar undir fjöldasöng á milli liða.
 • Íris Birgisdóttir gladdi okkur með söng. Hún söng lag Baggalúts við texta eftir Hrönn Jónsdóttur (Mamma fær að kjósa) og svo tók hún lag Bergþóru Árnadóttur. Óðinn Sævar Gunnlaugsson lék undir hjá henni.
 • Dúna las upp kveðju frá Afli Starfsgreinafélagi og las og talaði um Guðrúnu Ketilsdóttir sem var uppi á 18. öldinni. Alveg ótengd Djúpavogi.
 • Þórunnborg Jónsdóttir sagði frá konum í Geithellnahreppi.
 • Kynning á nýbúum. Katrín Reynisdóttir sagði frá sér og sínum aðstæðum. Hún vinnur hjá Austurbrú.
 • Svo tók við söngur á meðan beðið var eftir heiðurskvinnu.
 • Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir tók til máls og sagði okkur skemmtilega sögu.
 • Heiðursviðurkenning undir stjórn Bergþóru Birgisdóttur:
  Tvær heiðurskonur í sveitafélaginu fengu viðurkenningu fyrir sín störf. Annarsvegar Guðrún Guðjónsdóttir (Rúna í Grænuhlíð) og hinsvegar Ágústa Margrét Arnardóttir. Gripirnir voru steinar sem keyptir voru hjá Auðunni Baldurssyni og Birta gróf á málmplötu. Þetta eru mjög fallegir gripir.

 (Unnið upp úr texta Guðrúnar Aradóttur á fésbókinni: Kvenréttindadagurinn á Djúpavogi)

 

 

20. júní

Menningarvitar á Jónsmessu

Menningardagskráin við Æðarsteinsvita aðfaranótt 21. júní gekk afskaplega vel og var stórskemmtileg. 30 manns hittust þar í alveg hreint unaðslegu veðri og nutu frábærrar dagskrár sem Hrönn Jónsdóttir annaðist. 
Hrönn sagði sögur af fyrrverandi vitaverði Æðarsteinsvita, Stefáni Aðalsteinssyni, og Ingibjörg, núverandi vitavörður, bætti inn í frásögnina. Hrönn fór einnig með ljóð tengt Búlandstindi og sagði þjóðsögur frá svæðinu. Þá lásu skáldin Aron Daði Þórisson og Gísli Hjörvar Baldursson alveg hreint kostuleg frumsamin ljóð sem tengdust vitum. Söngvararnir Baldur Gunnlaugsson og Unnþór Snæbjörnsson sungu og léku á gítar. 
Hugmyndin um að halda menningarviðburði við og í sem flestum vitum landsins á sama tíma, kl. 23:55, 20. júní, er komin frá Hilmari Sigvaldasyni hjá Akranesvitum. Skemmtileg hugmynd sem heppnaðist mjög vel hér hjá okkur.