Djúpivogur
A A

Hans Jónatan - frábært útgáfuhóf

Hans Jónatan - frábært útgáfuhóf

Hans Jónatan - frábært útgáfuhóf

skrifaði 13.10.2014 - 17:10

Útgáfu bókarinnar Hans Jónatan - maðurinn sem stal sjálfum sér var fagnað í Löngubúð laugardaginn 11. október. Það þótti við hæfi að hófið væri haldið í húsinu sem Hans Jónatan starfaði í og að fyrstu eintökin af bókinni litu dagsins ljós á staðnum sem stór hluti bókarinnar fer fram á, Djúpavogi.

Dagskráin hófst á því að Kristján Ingimarsson, fulltrúi Djúpavogshrepps flutti stutt ávarp sem lauk á því að hann bauð Gísla Pálsson, höfund bókarinnar velkominn í pontu. Gísli stiklaði á stóru við gerð bókarinnar sem tók hann 7 ár að skrifa en áhugi hans á viðfangsefninu kviknaði í Danmörku árið 2007 þegar hann sá mynd um þrælahald þar í landi. Gísli kom inn á það að Valdimar Leifsson, kvikmyndagerðarmaður, hefur fylgt honum síðustu ár en hann er að vinna að heimildarmynd um gerð og viðfangsefni bókarinnar. Valdimar var að sjálfsögðu viðstaddur í Löngubúð. Myndin mun heita Svartur í sumarhúsum og sýnd var stikla úr henni.

Gísli kynnti inn tónlistaratriði eftir ávarp sitt en það voru þeir Bjarni Frímann Bjarnason og Pétur Björnsson sem spiluðu þrjú lög á harmonikku og fiðlu. Sá síðarnefndi er einmitt afkomandi Hans Jónatans. Fiðlan sem hann spilaði á var í eigu Hans Jónatans sjálfs. Núverandi eigandi fiðlunnar er Ólafur Rúnar Gunnarsson frá Vopnafirði, sem viðstaddur var útgáfuhófið. Afi Ólafs fékk fiðluna í greiðasemi, lét gera hana upp og gaf Gunnari, föður Ólafs fiðluna þegar Gunnar var 12 ára, árið 1925. Fiðlan er yfir 200 ára gömul, smíðuð í Þýskalandi. Fyrsta lagið sem þeir félagar fluttu var eftir Hans Gram, meintan föður Hans Jónatans. Það heitir Death song of a Cherokee Indian, frá árinu 1791.

Anna María Sveinsdóttir, afkomandi Hans Jónatans steig næst í pontu. Anna María, sem búsett er á Stöðvarfirði, hjálpaði Gísla mikið við gerð bókarinnar og gerði hún stuttlega grein fyrir samstarfi þeirra tveggja. Í kjölfarið flutti Kristín Vilhelmína Sigfinnsdóttir, einnig afkomandi Hans Jónatans og búsett á Djúpavogi, eigin þýðingu á ljóðinu Hymn to sleep eftir áðurnefndan Hans Gram.

Að lokum kynnti Alfa Freysdóttir til leiks nýjan bjór, sem heitir eftir Hans Jónatan. Sá er að sjálfsögðu dökkur og rammsterkur, 11.5%. Alfa er hönnuður merkingarinnar á bjórnum.

Mætingin var frábær, húsfyllir og fólk alls staðar að. Að lokinni hefðbundinni dagskrá gæddi fólk sér á glæsilegum veitingum Kvenfélagsins Vöku og að sjálfsögðu fengu allir sem vildu að smakka á Hans Jónatan, bjórnum góða. Bókin rokseldist og verður til sölu áfram í Löngubúð og að sjálfsögðu í bókaverslunum um allt land. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist á allan hátt þennan fallega haustdag á Djúpavogi.

Þess má til gamans geta að einnig verður haldið útgáfuhóf í Bókabúð Máls og menningar að Laugavegi 18, þann 16. október kl. 17:00.

Myndir frá útgáfuhófinu má sjá með því að smella hér.

ÓB