Djúpavogshreppur
A A

Hammondminningar

Hammondminningar
Cittaslow

Hammondminningar

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir skrifaði 22.04.2020 - 09:04

Sólin skín, það er vor í lofti, farfuglarnir streyma til landsins og sumardagurinn fyrsti er á morgun. Að öllu jöfnu værum við Djúpavogsbúar á fullu að undirbúa okkur fyrir Hammondhátíð, viðra sængur og kodda fyrir alla gestina, fylla frystkistuna af góðum mat, redda barnapíum og hita okkur upp með því að hlusta á böndin sem væru að fara að spila fyrir okkur og/eða rifja upp gamla slagara frá fyrri hátíðum. En nú er staðan önnur. Ég held að við öll séum búin að ganga í gegnum tregafulla daga, einhverjir eru reiðir og pirraðir, aðrir sorgmæddir og sumir í afneitun en það er staðreynd að við gleðjumst ekki saman á Hótel Framtíð á Hammondhátíð í ár, undir dillandi tónum frábærra flytjenda.

Það breytir þó ekki því að við getum glaðst, við getum glaðst yfir góða veðrinu, sólinni og farfuglunum. Við getum glaðst yfir tækninni sem gerir okkur kleift að hlusta á tónlist hvar og hvenær sem er. Að sjálfsögðu jafnast það ekki á við að sitja í góðra vina hópi í salnum á Hótelinu eða í Djúpavogskirkju en við erum orðin svo flink í að „finna útúr ástandinu“ að nú ætlum við að blása til Hammondveislu á netinu. Ég hvet okkur öll til að taka þátt, senda Herra Hammond, honum Ólafi Björnssyni góðar kveðjur, með ykkar uppáhalds lagi eða uppáhalds tónlistarmönnum, eða bara bæði. Ólafur hefur, að öðrum ólöstuðum, staðið Hammondvaktina með mikilli prýði, frá því hann tók við keflinu 2013. Ég ríð á vaðið með því að senda Óla lag með einni af hans uppáhaldshljómsveitum sem heitir Ný dönsk og lagið, sem að mínu mati er þeirra besta lag; Hólmfríður Júlíusdóttir. Við ætlum að merkja færslurnar okkar með #hammondoli og sendum Hammondkveðjur út um allt land. Hvet alla sem einhvern tíma hafa komið á Hammondhátíð, hefur alltaf langað til að mæta á Hammondhátíð OG sem eru ákveðnir í að mæta á Hammonhátíð 2021 að vera með. Gleðilegt sumar.

F.h. atvinnu- og menningarmálanefndar,
Halldóra Dröfn