Djúpivogur
A A

Hammondhátíð 2010 - Þriðji í Hammond

Hammondhátíð 2010 - Þriðji í Hammond

Hammondhátíð 2010 - Þriðji í Hammond

skrifaði 26.04.2010 - 09:04

Það hlýtur að vera erfitt að vera ungur og upprennandi tónlistarmaður og þreyta sína stærstu frumraun fyrir framan fullan sal á Hótel Framtíð, þegar stór hluti gesta er eingöngu kominn til að hlusta á hina rómuðu reggí-hljómsveit, Hjálma. Þegar ofan á bætist að græjurnar sem að menn eru vanir ná ekki að tengjast við magnarakerfið sem menn hljóta að ganga út frá að virki, þá er hætta á að eitthvað fari úr böndunum. Piltarnir í Arachnophobia risu þó strax að nokkru leyti undir þeim væntingum sem við þá voru bundnar og héldu haus þrátt fyrir það bras sem við erum að reyna að lýsa hér að framan. Stærsti gallinn í hljóðblöndun var einfaldlega sá að hið talaða og sungna mál heyrðist allt frá því ekki og yfir í mjög illa. Eftir byrjunarskjálfta komust þeir þó ágætilega í gang og greinilegt að stór hluti salarins var með á nótunum og hvatti þá til dáða. Hljómsveitina skipa þrjú afsprengi úr tónlistarskólanum undir stjórn Svavars, þeir Helgi Týr Tumason, Arnar Jón Guðmundsson og Kjartan Ágúst Jónasson (mynd af honum misfórst og vísum við á myndasafnið frá fyrsta kvöldi). Auk þeirra spilaði með þeim, ýmist á gítar eða bassa félagi þeirra Breki Steinn Mánason. Það dylst engum sem á hlýddi að þarna fara mjög efnilegir tónlistarmenn og framtíðin er svo sannarlega þeirra og ekki einungis á hótelinu á Djúpavogi.

Hjálmar birtust í salardyrum.

Átta vaskir sveinar, þar af þrír blásarar, stigu nú á svið. Allt frá fyrsta bíti var ljóst að hinn heiti salur, eins og Svavar lýsti honum, var kominn til að skemmta sér. Mörg kunnugleg lög hljómsveitarinnar runnu í gegn, hvert af öðru og fljótlega fóru söngvissir menn úti í sal að taka undir, hvattir til þess af Steina söngvara og Samma blásara. Vegna umfjöllunarinnar um annan í Hammond minnum við á að við töldum það kvöld vera hið skemmtilegasta frá upphafi. Því miður fyrir það en sem betur fer fyrir hátíðina þá fór titillinn "skemmtilegasta kvöldið" yfir á kvöldið sem Hjálmar komu á Djúpavog í fyrsta sinn. Það er ekki að ástæðulausu, sem þeir félagar eru vinsælasta hljómsveitin á Íslandi í dag og höfðar hún bæði til hinna ungu sem og þeirra sem enn muna gömlu taktana hjá Victor Silvester og hjómsveit.

Svo það sé á hreinu þá var sett aðsóknarmet laugardagskvöldið 24. apríl 2010. Húsnæði Hótel Framtíðar var sneisafullt - það hefur aldrei gerst áður á hátíðinni þessi fimm ár sem hún hefur verið haldin.

Í fyrra vorum við með væmna samantekt um þátt heimamanna, sem þó átti fullan rétt á sér og á ekki síður vel við í dag. Af þeirri ástæðu þökkum við enn og aftur öllum þeim fjölmörgu heimamönnum sem lögðu hönd á plóg og gerðu Hammondhátíð 2010 að þeim atburði sem hún varð.

Hafi verið talin ástæða til þess strax í fyrra að festa kaup á Hammondorgeli fyrir Hammondbæinn Djúpavog, þá er  svo sannarlega komin pressa á okkur öll núna að taka þátt í því að gera þann draum að veruleika.

Ekki er hægt að láta hjá líða að þakka öllum þeim fyrirtækjum og stofnunum sem styrktu hátíðina með beinum fjárframlögum (sjá heimasíðu Hammondhátíðar). Þá má ekki heldur gleyma öllum þeim sem borguðu sig inn og lögðu þannig sitt af mörkum að efla orðspor hátíðarinnar og gera forsvarsmönnum hennar kleift að leggja úr vör með hátíð númer sex af bjartsýni og kjarki.

Að síðustu þökkum við okkur tveimur fyrir að hafa haldið því til haga sem á hátíðinni gerðist, því það þakka okkur ósköp fáir aðrir. Takk samt.

Myndir frá laugardagskvöldinu má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG / ÓB
Myndir: BHG