Djúpivogur
A A

Hammondhátíð 2010 - Fyrsti í Hammond

Hammondhátíð 2010 - Fyrsti í Hammond

Hammondhátíð 2010 - Fyrsti í Hammond

skrifaði 23.04.2010 - 16:04

Þá er nú Hammondið komið á sinn stað og fimmta hátíðin gengin í garð.

Í upphafi var (fram)orðið, en það átti eftir að verða en meira en orðið var, því tónleikarnir drógust heldur á langinn.

Litlu strákanir í Friðpíku (Peace Pike) eru í raun ekkert litlir lengur, heldur eru þetta nánast fullvaxta karlmenn, en þó mun síður á þverveginn. Piltarnir fluttu frumsamin lög í bland við þekkta slagara og komust nokkuð vel frá því, en þó var ákveðinn losarabragur á allri framgöngu þeirra miðað við það sem menn vita að í þeim býr. Upp úr stendur þó hve ófeimnir þeir eru að vinna með eigið efni og matreiða það á sinn hátt.

Aroni Daða hefur farið mikið fram í söng og brá hann meira að segja fyrir sig ákveðinni tegund af rímnakveðskap sem meðal yngri kynslóðarinnar er kölluð rapp. Arnar Jón plokkaði kassagítarstrengina af mikilli festu og er fingrafimur með afbrigðum, enda með kjúkur langar og mjóar. Kjartan Ágúst hefur sýnt það að hann er fjölhæfur tónlistarmaður og Hammondorganið, sem varð á vegi hans í gærkvöldi, reyndist honum ekki mikil fyrirstaða, heldur strauk hann því blíðlega og tók undir með hljómagangi gítarleikarans.

56 riff's hófu síðan leik sinn og þá varð ekki aftur snúið.

Hljómsveitina skipa þeir Þorleifur Guðjónsson, Garðar Harðarson, Björgvin Gíslason og Ásgeir Óskarsson.

Um snilli þessara "öldunga" þarf ekki að fara mörgum orðum, enda hafa þeir áratuga reynslu að baki og hafa auk þess allir komið áður á Hammondhátíð og flestir oftar en einu sinni. Það er allavega ljóst að þeim hefur ekkert farið aftur síðan síðast.

Með í för var Margrét Guðrúnardóttir (Ásgeirsdóttir Óskarssonar) og kom hún mörgum á óvart, enda ekki þekkt nafn í tónlistarbransanum. Óhætt er að segja að þar fari ein af efnilegri blússöngkonum landsins, auk þess sem hún var ófeimin við Hammondið. Flutti hún lög úr eigin ranni, allt frá fönkskotnum blúslögum til hugljúfustu ballaða, sem sýna að hún er mjög efnilegur lagahöfundur.

Prógrammið í heild var fjölbreytt; blús, rokk og djass og tók Björgvin hvert heimsklassa gítarsólóið á fætur öðru, svo hrikti í stoðum hótelsins. Sólóin hjá Garðari voru öllu lágstemmdari, enda kemst gítarmagnarinn hans ekki í 11 eins og hjá Björgvini, en Garðar hefur svo sannarlega sýnt gestum Hammondhátíðar í gegnum tíðina að hann er einn albesti blúsari landsins. Eitt af því sem gerði efnisval þeirra félaga áhugavert voru instrumental lög. Túlkun Bjögga á Albatross gáfu ekki eftir tilþrifum Peter Green á sínum tíma. Lagið Europa úr smiðju Santana varð einnig stór rós í hnappagat sólóleikarans og þeirra allra.

Þorleifur heldur ennþá haus þrátt fyrir allan hristinginn og fílar sig greinilega alltaf í botn þegar hann kemst í það að vera hluti af góðri hrynsveit. Hann á mikinn heiður skilinn fyrir að koma saman þessu bandi og er ætíð aufúsugestur hér en þó samt ekki gestur hér um slóðir, þar sem hér á hann slotið Hamraborg, sem bæði er há og fögur.

Geiri er sko enginn Goldfinger, eins og nafni hans en læsir engu að síður fingrum sínum utan um kjuðana og breikar af beztu list, ásamt því að vera taktfastur með afbrigðum. Sönghæfileikar hans koma sífellt meira og meira í ljós á Hammondhátíðum og ekki brást hann aðdáendum sínum í þetta sinn.

Tónleikafélag Djúpavogs sló botninn í dagskrá kvöldsins. Því miður gengu þessi átrúnaðargoð okkar heimamanna í gegnum ýmsar hremmingar, svo sem slitinn bassastreng, skvaldur í salnum og þreytu hjá hluta hans, vegna þess hve tónleikarnir drógust á langinn. Í rauninni má líkja því sem gerðist við ákveðinn anga Murphy's lögmálsins sem myndi þá ganga út á það að teknu tilliti til getu hljómsveitarinnar og þekktra staðreynda um framgöngu hennar, þegar bezt lætur, að "það sem ekki á að geta gerst, gerist samt á versta tíma". Minnug frábærrar frammistöðu hópsins í fyrra vitum við að kvöldið í gær var einfaldlega ekki þeirra bezta, en að sama skapi liggur fyrir að þeirra tími mun koma aftur. Svo það sé á hreinu þá gerði hljómsveitin að sjálfsögðu margt gott og prógammið var metnaðarfullt, en það komst því miður ekki nógu vel til skila.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá hér.

Texti:BHG
Myndir: BHG / AS