Djúpivogur
A A

Hammondhátíð 2010 - Annar í Hammond

Hammondhátíð 2010 - Annar í Hammond

Hammondhátíð 2010 - Annar í Hammond

skrifaði 24.04.2010 - 16:04

Það var skipt um landsliðsþjálfara á föstudagskvöldið. Landsliðþjálfari síðustu ára, Halldór Bragason, forfallaðist á síðustu stundu vegna geðvonskunnar í Eyjafjallajökli. Dóri ætlaði að leggja land undir fót (vængi undir sitjanda) frá Austin í Texas til Glasgow, þaðan til Akureyrar - frá Akureyri til Reykjavíkur og frá Reykjavík til Egilsstaða. Þaðan átti að redda honum yfir nýopnaða Öxi, þannig að hann kæmist með hatt sinn og staf á hátíðina eins og auglýst hafði verið.

Þetta ferðaplan gekk einfaldlega ekki upp á endanum og því varð Dóri að sætta sig við að komast ekki á 5 ára festivalið á Djúpavogi, Hammondhátíðina, sem hann á svo mikinn þátt í að hafa komið af stað.

Vegna óvissu um flugsamgöngur hafði verið sett ferðabann á fólkið í 56 riff´s (sjá umfjöllun um fyrsta kvöldið) og voru þau öll reiðubúin að standa vaktina, enda hafði þá þegar komið fram hjá Margréti Guðrúnardóttur að hún gæti alveg hugsað sér að dvelja áfram á Djúpavogi. Nóg um það í bili.

Hornfirðingum vex sífellt fiskur um hrygg, enda þaðan stunduð útgerð í stórum stíl. Hulda Rós og Rökkurbandið héldu á lofti merki tónlistarlífs á Hornafirði með miklum ágætum. Bandið spilaði síðast á Hammondhátíð 2007 og vísum við til umfjöllunar heimasíðunnar um þeirra framlag föstudagskvöldið það ár. Til að gera langa sögu stutta voru ýmsum tónlistarstefnum, þ.á.m. léttum djassi gerð góð skil af fagmennsku og án þess að reynt væri að gera einfalda hluti of flókna. Vissulega nutu þau fulltingis Hr. Hammond, Svavars Sigurðssonar og reyndist hann þeim betri enginn. Þeir Siggi lögga með lipra fingur bakvið hnúajárnin, Bjartmar garðyrkjumaður með kontrol á stóra bassanum sínum og Eymundur trymbill af ættstofni þeirra Meysalinga leystu hlutverk sín af stakri prýði. Hulda Rós er sífellt í sókn sem söngkona og auk þess hefur hún fílinginn í lagi. Hornfirðingarnir reyndust svo sannarlega aufúsugestir.

Víkjum nú aftur að landsliðinu. Hinn nýi (allavega tímabundni) landsliðsþjálfari, Björgvin Gíslason, tefldi fram liðinu frá því á fyrsta kvöldi, sbr. formálann hér á undan. Í hópinn höfðu bæst efnilegasti tónlistarmaður okkar Íslendinga, Þorleifur Gaukur Davíðsson og hinn geðþekki bassaleikari, Róbert Þórhallsson, sem reyndar gerði garðinn frægan á Hammondhátíð 2009. Þorleifur reyndist svo sannarlega Gaukur í horni og er ljóst að þessi lítilláti og hæfileikaríki piltur á að geta náð mjög langt, miðað við þá fjölhæfni sem hann greinilega býr yfir og sýndi svo eftirminnilega í gær, ekki síst á munnhörpuna. Ekki er hægt að bæta miklu við umfjöllun frá fyrsta kvöldi, en þó er ástæða til að leggja áherslu á hve glæsilega hópurinn gerði margt af fingrum fram og án þess að allir hefðu æft saman sem heild. Þar var eigi hlutur Svavars Sigurðssonar sístur og greinilegt að hinir félagarnir kunnu vel að meta framlag hans.

Sérstaka athygli vakti tvíbössunarsamningurinn, sem Þorleifur Guðjónsson og fyrrnefndur Róbert gerðu með sér og kynntu helstu ákvæði hans í nokkrum lögum. Við verðum auk þess að nefna glæsilega framgöngu Margrétar söngkonu og hljómborðsleikara, sem undirstrikaði frábæra frammistöðu fyrsta kvöldsins og virkaði mun öruggari og meira töff og lék og spilaði eins og hún væri á heimavelli, enda hefur hún tekið ástfóstri við staðinn.

Of langt mál væri að telja upp marga hápunkta kvöldsins og því viljum við einfaldlega í orðleysi okkar segja: Þetta var örugglega skemmtilegasta kvöld hammondhátíðar frá upphafi og í hópi þeirra kvölda sem hæst standa í tónlistarlegu tilliti.

Myndir frá kvöldinu má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG / ÓB
Myndir: BHG