Djúpivogur
A A

Hammondhátíð 2009 - Ekki byrjar það amalega

Hammondhátíð 2009 - Ekki byrjar það amalega

Hammondhátíð 2009 - Ekki byrjar það amalega

skrifaði 24.04.2009 - 17:04

Hammondhátíð 2009, sú hin fjórða í röðinni, hófst í gær, á sumardaginn fyrsta.

Herra Hammond sjálfur, Svavar Sigurðsson, steig fyrstur á svið og setti hátíðina.

Fyrstu flytjendur þetta kvöld áttu að vera Hjálparsveit organista á Austurlandi; Kári Þormar, Daníel Arason og Einar Bragi Bragason. Þeirra hlutverk var að hita upp fyrir hina mögnuðu stórsveit Tónleikafélags Djúpavogs. Þegar á reyndi forfallaðist Einar Bragi, en það kom ekki að sök, því Kári og Daníel stóðu undir nafni og fluttu fjölmörgum áheyrendum ýmis kirkjuleg og/eða klassísk orgelverk. Kári kvaðst vera að spila á Hammond í fyrsta sinn á ævinni og Daníel steig báruna við virðulegt  Roland apparat. Þeir félagar fóru hægt af stað, en náðu vel til áheyrenda, enda fengu þeir uppklapp að lokum en það er mjög sjaldgæft hjá organistum í  þeirra aðalstarfi. Um kunnáttu þeirra á þessu sviði þarf sannarlega ekki að orðlengja og skiluðu þeir orgelverkunum glæsilega frá sér. 

Eftir á að hyggja hefði þessi hluti tónleikanna einnig átt vel heima í Djúpavogskirkju, en þar sem kreppan olli því að skera þurfti niður um 1 dag, bitnaði það á hefðbundnum lokatónleikum í kirkjunni.

Að loknu stuttu hléi fóru drengirnir í Tónleikafélaginu að stilla upp og eftir örlitla tæknilega örðugleika sem tengdist magnaravandræðum lagði bandið úr vör. Eingöngu karlpeningur var á sviðinu í fyrsta laginu, en strax að því loknu birtust tvær blómarósir frá Djúpavogi og hækkaði þá fegurðarvísitalan á sviðinu um helming.

Aðalsöngvarinn, Kristján Ingimarsson, þreytti einnig frumraun sína á Hammondorgelið og gerði áhorfendum á skemmtilegan og áheyrilegan hátt grein fyrir efni dagskrárinnar með stuttum brotum úr sögu Pink Floyd, en tónlistin var eingöngu ættuð frá þeim félögum. Fór Kristján vel yfir þátt Syd Barrett sem hætti snemma í hljómsveitinni sökum veikrar geðheilsu, og hversu mikið textasmíðar Pink Floyd á tímabili tengdust brotthvarfi Syd. T.a.m. kom fram að lagið Shine on you crazy diamond fjallar um Syd og er skírskotun í nafnið hans í titli lagsins, Shine you diamond = SYD.

Fram kom í upphafskynningu að tónlist Pink Floyd væri ekki fyrir byrjendur og vissulega er ekki „sveifla“ í öllum lögum þeirra. hljómagangurinn er oft flókinn en tónlist Pink Floyd hefur heillað gífurlega marga og meðal annars hafa verið settir upp heilu tónleikarnir hér á Íslandi með efni þeirra félaga, samanber Dúndurfréttir sem er talin ein bezta ábreiðuhljómsveit (cover band)  í heimi. Til þess að gera langa sögu stutta vakti dagskráin mikla hrifningu viðstaddra og stóðu flytjendur sig mjög vel í heild. Hrynsveitin (Óli trommari og Guðmundur Hjálmar á bassa) voru pottþéttir og eru báðir afburða hljóðfæraleikarar. Um gítarleik sáu Jón Ægir (nýrakaður), Ýmir Már (Sonny Seagull) og Jón Einar (Johnny Lonesome). Jón Ægir hefur áður tekið mörg góð gítarsólóin og bætti rósum í hnappagat sitt í gær. Ýmir virkar mjög „kúl“ á sviðinu, yfirvegaður og afslappaður en kann svo sannarlega að teygja strengina.  Jón Einar var meira í hljómaganginum en gerði það af stakri prýði.

Kristján kom á óvart sem Hammondleikari og hefur auk þess náð góðum tökum sem söngvari á efni úr smiðju Pink Floyd. Síðast en ekki síst skal nefna söngdívurnar Írisi og Önnu Margréti sem sungu aðallega bakraddir og gerðu það vel en hvor um sig leiddi söng í einu lagi. Að margra mati hefðu þær mátt þenja raddböndin meira sem slíkar.  Svo heppilega vildi  til að hljómsveitin hafði í pokahorninu tvö uppklappslög og ætlaði þá allt um koll að keyra í salnum.

Margir hafa talið upphafskvöld undanfarinna Hammondhátíða eitt af því sem setið hefur eftir, en þá hefur verið lögð áhersla á að nýta heimamenn til flutnings. Aðsóknin hefur jafnan verið góð á þessi kvöld en í gær sló hún öll fyrri met. Áætlað er að í salnum hafi verið um 100 manns og voru það að lang stærstum hluta heimamenn.

Í kvöld mætir Halldór Bragason með Landsliðið og fara þar fremst í flokki hjónakornin Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson. Allt um það á heimasíðu Hammondhátíðar, www.djupivogur.is/hammond.

Vitað er að þónokkuð af aðkomufólki mun sækja Djúpavog heim á föstudags- og laugardagskvöld og erum við sannfærð um að heimamenn muni ekki láta sitt eftir liggja.

Heimasíða Djúpavogshrepps hefur verið iðin við að birta myndir af Hammondhátíðinni undanfarin ár. Í ár verður engin breyting þar á. Sumum finnst ljósmyndarinn ef til vill of nærgöngull en á móti kemur að „fílingurinn“ á að koma betur í ljós en ella. Í kvöld mun reyna á það hvort ástæða verði talin til umfjöllunar í DV um samskipti hirðljósmyndarans og Dóra Braga, en víst er að þeir skildu að fullu sáttir í fyrra.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá með því að smella hér.


Texti BHG/BR
Myndir: BHG