Djúpivogur
A A

Hammondhátíð 2009 - Barnsskónum slitið

Hammondhátíð 2009 - Barnsskónum slitið

Hammondhátíð 2009 - Barnsskónum slitið

skrifaði 25.04.2009 - 13:04

Menn skyldu leggja dagsetninguna 24. apríl 2009 á minnið, því sé tekið mið af aðsókninni, undirtektum gesta og frábærum flytjendum, má sannarlega halda því fram að Hammondhátíðin á Djúpavogi hafi endanlega fest sig í sessi í gær.

Sterk vísbending um þetta kom strax fram á fyrsta kvöldinu hjá Tónlistarfélagi Djúpavogs, sem við sögðum ítarlega frá á heimasíðunni í gær.

Í gærkvöldi urðu fjölmargir heimamenn og álitlegur fjöldi aðkomumanna vitni að einu af best spilandi böndum sem á Hammondhátíð hafa komið. Vissulega hafa margir afburða tónlistarmenn, þau fjögur skipti sem hátíðin hefur verið haldin, heiðrað hana með nærveru sinni. Samstillingin, krafturinn og gleðin sem sem skein út úr leik Landsliðsins var þvílík að salurinn varð strax með á nótunum frá fyrsta lagi og í loftinu lá að þarna væri stór viðburður að gerast.

Landsliðið var mætt. Innanborðs var afskaplega lifandi trommari, Birgir „von Slaghammer“ Baldursson sem hélt mönnum við hrunadansinn. Um takfestu auk hans, sá hinn afskaplega geðþekki bassaleikari, Róbert Þórhallsson. Hammondið þandi hinn óviðjafnanlegi Davíð Þór Jónsson og féll þar hver tónn sem flís við rass. Gítarleikarann Guðmund Pétursson þurfa menn helst að sjá á sviði til að skynja hversu brjálæðislegagóður hann er og er það mat undirritaðra að hann sé á pari við þá allra bestu í heimi hér. Dóri Braga bregst aldrei; pottþéttur söngvari og gerir flókna hluti einfalda og er fyllilega maður fyrir sinn hatt.

Biðin eftir hinni frábæru Ragnheiði Gröndal, sem steig á svið eftir hlé, var fullkomlega hennar virði en hún sannaði sig virkilega sem ein af bestu blússöngkonum landsins og líkamstjáningin var svo sannarlega í lagi. Þar að auki sýndi hún góða takta á Hammondorgelið, enda er hún, eins og flestir vita, afburða píanóleikari.

Aðstandendur heimasíðunnar gætu vissulega haft langt mál uppi til að dásama framgöngu hljómsveitarinnar þetta kvöld, en við teljum að myndirnar og ofangreint eigi að sýna og segja meira heldur en mörg orð.

Þegar menn koma á tónleika sem þessa þá er ekki allt sýnilegt sem að baki þeim stendur. Þörf er á góðum flytjendum og þeir þurfa að hafa brúkleg tæki í höndunum til að koma list sinni á framfæri. Flestir koma með afburðatæki í eigin eigu en önnur eru leigð eða lánuð á staðnum. Má þar nefna trommusett, hluta af magnarakerfi, söngkerfi og síðast en ekki síst Hammondorgelið sjálft, sem í þetta skipti er í eigu Kidda í Hjálmum, en hann hefur reyndar lofað að mæta með bandið sitt á næstu hátíð.

Nú liggur fyrir að falt er hljóðfæri af þessari gerð og hefur vaknað áhugi hér á Djúpavogi að standa að kaupum á því. Miðað við hve rætur Hammondorgelsins eru orðnar sterkar hér á Djúpavogi væri vel við hæfi að tryggja staðnum slíkan grip, þar sem ekkert bendir til annars en að Hammondhátíðin sé komin til að vera.

Heimasíðan minnir á þátt Svavars Sigurðssonar, Herra Hammonds, sem fékk Dóra Braga í lið með sér á sínum tíma og þeir tveir hafa í gegnum góð sambönd tryggt hátíðinni háan gæðastuðul frá upphafi. Upplýsingar um þá sem styrkja hátíðina er að finna á heimasíðu hennar en aðal styrkurinn og stuðningurinn kemur þegar upp er staðið frá fólkinu sem ákveður að gera sér glaðan dag og mætir ár eftir ár.

Í kvöld stígur á stokk sjálfur KK með hljómsveit sína. Nánar um það á heimasíðu Hammondhátíðar, www.djupivogur.is/hammond.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG/ÓB
Myndir: BHG