Djúpivogur
A A

Hammond 2009 - KK (kosningakvöldið)

Hammond 2009 - KK (kosningakvöldið)

Hammond 2009 - KK (kosningakvöldið)

skrifaði 27.04.2009 - 16:04

Lokakvöld Hammondhátíðar 2009 fór fram á laugardagskvöldið og hófst skömmu áður en fyrstu kosningartölur fóru að berast frá talningarstöðum.

Þeir hörðustu sátu heima og biðu eftir risi eða falli sinna pólitísku stjarna en hinar eiginlegu stjörnur kvöldsins risu á sviðinu á Hótel Framtíð. Mættur var KK með einvala lið; gamlan þjáningabróður sinn, Þorleif Guðjónsson á bassa, stuðboltann Ásgeir Óskarsson á trommur og Jón „óvenjugóða“ Ólafsson á Hammond. Sándið hjá KK er nokkuð auðþekkt en á bakvið það þetta kvöld voru pottþéttir náungar sem gerðu það jafnvel enn betra. KK náði fljótt góðum tökum á salnum og menn voru farnir að panta óskalög löngu fyrir hlé.

Stöðfirska hjartað í nokkrum viðstaddra tók aukakippi þegar leynigestur kvöldsins, Garðar  Harðarson steig á svið. Eins og komið hefur fram í umfjöllun okkar undanfarin ár er Garðar ókrýndur konungur austfirska blúsins og ekki var að sjá annað en að KK kinkaði kolli í viðurkenningarskyni sem og aðrir viðstaddir enda framgangur Garðars honum til mikils sóma.

Óhætt er að segja að tónleikarnir hafi verið vel upp byggðir hjá KK og greinilegt er að hann  er laginn við að byggja upp stemmingu. Eftir hæfilegt hlé og sötrað te mættu þeir félaga tvíefldir til leiks og brátt kom að því að hótelstjórinn fór að sjá eftir því að hafa ekki látið hnykkja alla naglana í þakklæðningunni því þeir vegbúar voru m.a. klappaðir tvisvar upp og sá KK ekki annað í stöðunni í seinna skiptið en að reyna að róa mannskapinn niður með angurværum tónum og um leið sínu allra besta lagi, When I think of angels.

KK og félagar: Hafið heila þökk fyrir komuna og vonandi sjáum við ykkur sem fyrst aftur.

Að öðru leyti vísum við til „væmins“ texta okkar sem tengist kvöldi númer tvö á Hammondhátíð og segjum:

Sjáumst að ári!

Myndir frá laugardagskvöldinu má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG / ÓB
Myndir: BHG