Djúpavogshreppur
A A

Hafa skal það, er sannara reynist

Hafa skal það, er sannara reynist

Hafa skal það, er sannara reynist

skrifaði 24.01.2007 - 00:01

Leiðrétting á greininni "Landsbankinn á syni sjö"

Í grein undirritaðs, er birtist á heimasíðu Djúpavogshrepps 24. jan. 2007 var því haldið fram að leikskólabörn á Seyðisfirði og Breiðdalsvík hefðu ekki fengið gjöf frá Landsbanka Íslands eins og fram kom í tilvitnaðri frétt í Austurglugganum. Nú hefur komið á daginn að ég fór rangt með varðandi báða þessa staði, en eftir stendur að enginn kannast við sambærilega gjöf til barnanna á Djúpavogi. Þykir mér slæmt að hafa ekki getað treyst þessum fjölmiðli betur en raun ber vitni, en á því kunna þó að vera skýringar, sem blaðið sjálft getur komið á framfæri.

Biðst ég afsökunar á því að hafa ekki leitað eftir því við forsvarsmenn leikskólanna á Seyðisfirði og Breiðdalsvík, hvort rétt væri með farið.

Einnig bið ég forsvarsmenn Landsbankans afsökunar á þessari óvandvirkni og að bankinn skyldi vera hafður fyrir rangri sök hvað þetta varðar. Ég gaf mér að þetta gæti tengzt útibúum hans hér eystra, sem vissulega hefur fækkað, en taldi mig þó vita að enn gæti verið útibú á Seyðisfirði (sem vissulega er raunin).

Einnig er mér bæði ljúft og skylt að upplýsa að ég hef fengið upphringingu frá talsmanni Landsbankans og verið gefnar þær skýringar, að dreifing gjafanna hafi verið bundin svæðisskiptingu útibúa, þannig að Djúpivogur tilheyri Suðurlandi. Jafnframt hefur mér verið gerð grein fyrir því að bankinn muni senda leikskólabörnum á Djúpavogi samskonar gjöf og um ræðir og þar með er tilgangi mínum náð. (Orðrétt er skýring Landsbanka Íslands / Einars K. Jónssonar svo hljóðandi : 

"Sæll Björn Hafþór.

Í samræmi við símtal vil ég taka fram að Landsbankinn gaf leikskólum á Seyðisfirði sem og Breiðdalsvík umrædda bókagjöf þó annað komi fram í grein Austurgluggans.  

Ákvörðun um þessa bókagjöf, sem gefin var í tilefni af 120 ára afmæli Landsbankans, var tekin af útibússtjórum Landsbankans frá Vopnafirði til Stöðvarfjarðar. Ástæðan fyrir því að leikskólinn á Djúpavogi fékk ekki bókagjöfina er vegna markaðssvæðisskiptinu Austurlands innan Landsbankans. Þar heyrði Djúpivogur undir útibúið á Höfn og er því fyrir utan markaðssvæðis þessara útibúa. Leikskólinn á Breiðdalsvík fékk svo jafnframt bókagjöfina þar sem útibú Landsbankans á Breiðdalsvík heyrði undir Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð.

Til að undirstrika að engar aðrar ástæður en þessi markaðsskipting lágu að baki og að það var alls ekki ekki ætlunin að mismuna  byggðarlögum Austurlandi með nokkrum hætti er ég svo heppinn að eiga einn bókapakka eftir sem mig langar, fyrir hönd Landsbankans, að færa leikskólanum á Djúpavogi að gjöf. Um er að ræða 30 barnabækur, þýddar og íslenskar, fyrir börn á öllum aldri.

Bestu kveðjur.
Einar Kristján"  )

Miðað við þær skýringar, sem bankinn gefur er ég alveg maður til að viðurkenna að etv. hef ég kveðið óþarflega fast að orði, en það er þó í eðli mínu að tala frekar tæpitungulaust.

Ég tel batnandi mönnum bezt að lifa og vegna þeirra fljótu viðbragða sem orðið hafa af hálfu bankans verð ég að segja að þarna þekki ég gamla Landsbankaandann og tel mig greina skýran vilja til að meta alla verðandi og núverandi viðskiptavini bankans í Múlasýslum að jöfnu.

Óska ég því öllum hlutaðeigandi hins bezta í framtíðinni og vona að börnin í leikskólunum á Austurlandi megi gleðjast við lestur góðra bóka og að jafnframt megi "bækur" þeirra í bankastofnunum landsins halda áfram að bólgna og þrútna, hvar svo sem þau kjósa að ávaxta sitt pund. "Pund dóttursona minna" verður alla vega áfram ávaxtað í Landsbankanum á Stöðvarfirði.

Djúpavogi 24. jan. 2007;
Bj. Hafþór Guðmundsson.