Djúpivogur
A A

Grákráka á Djúpavogi

Grákráka á Djúpavogi
Cittaslow

Grákráka á Djúpavogi

Ólafur Björnsson skrifaði 04.03.2020 - 09:03

Aðsend frétt frá Unni Malmquist Jónsdóttur.

Laugardaginn 22. febrúar síðastliðinn sá ég grákráku (Corvus corone cornix) í garðinum mínum við Dali á Djúpavogi og smellti myndum af henni í gegnum eldhúsgluggann. Í framhaldinu fór ég að forvitnast um þennan áhugaverða fugl og komst að því að hann er sjaldséður á Íslandi enda tilheyrir hann ekki íslensku fuglafánunni.

Grákráka er af hröfnungaætt og er því náinn ættingi hrafnsins. Hún er mun minni en hrafninn en annars mjög lík honum í vexti. Grákrákan er auðgreind á öskugráum kviði og baki en blásvörtum og gljáfandi fjöðrum á höfði, hálsi, vængjum og stéli. Nef og fætur krákunnar eru einnig svört. Kynin eru eins í útliti fyrir utan það að kvenfuglinn er aðeins minni en karlfuglinn. Krákur para sig fyrir lífstíð og sagt er að kvenkyns kráka sem missir maka sinn pari sig aldrei aftur. Grákrákur eru alætur eins og Krummi frændi þeirra.

Ég svipaðist um eftir þjóðtrú í tengslum við grákrákur og rakst á frásögn frá Færeyjum. Þar þekktist sá siður á kyndilmessu (þegar veturinn er hálfnaður) að ógiftar konur gátu farið út að morgni dags og kastað steini, beini og torfi í áttina að grákráku og ef krákan flaug yfir haf átti konan að eignast erlendan mann, ef hún lenti á bóndabæ eða húsi átti konan að giftast manni þaðan en ef krákan flaug ekki og hélt kyrru fyrir átti konan að vera ógift áfram.

Til gamans set ég hér slóð á þekktasta lagið um grákrákuna en það ber heitið „Jack Frost and the hooded crow“ með bresku rokk-hljómsveitinni Jethro Tull.

Með kveðju
Unnur í Dölum