Djúpavogshreppur
A A

Góður Cittaslow sunnudagur 2015

Góður Cittaslow sunnudagur 2015

Góður Cittaslow sunnudagur 2015

skrifaði 06.10.2015 - 11:10

Cittaslow sunnudagurinn var haldinn hátíðlegur í þriðja sinn í Djúpavogshreppi sunnudaginn 27. september, kl. 16:00-17:00, í Löngubúð.

Djúpavogshreppur hefur verið í Cittaslow samtökunum síðan 13. apríl 2013 og það að sveitarfélagið hafi hlotið aðild að samtökunum er einstakur stimpill sem segir öðrum hvernig samfélag er hér, hvaða gildi eru höfð í heiðri og að hér viljum við halda í okkar sérstöðu.

Djúpavogshreppur hefur sett sér mjög metnaðarfulla stefnu um verndun náttúru- og menningarminja, hér er lögð er áhersla á sérstöðu náttúrunnar, t.d. í gegnum verkefnið birds.is, flokkun og endurvinnsla sorps hefur verið innleidd ásamt því sem stór skref hafa verið tekin til fegrunar umhverfis, leitað hefur verið leiða til að finna gömlum byggingum nýtt hlutverk, lögð er áhersla á að tryggja fjölbreytni í atvinnumálum þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki með vistvænan atvinnurekstur eru sérstaklega boðin velkomin, skólarnir starfa undir merkjum Grænfánans, kaffi- og veitingahús leggja sig fram um að bjóða upp á staðbundið hráefni og framreiðslu, horft er til lífræns landbúnaðar og afurða úr sveitum Djúpavogshrepps, áhersla er lögð á á sjávartengdar afurðir og strandmenningu og hvatt er til íþróttaþátttöku og félagslegra samskipta með margvíslegum uppákomum, samkomu- og mótahaldi.

 

Cittaslow sunnudagur er haldinn ár hvert síðasta sunnudag í september í öllum aðildarsveitarfélögum Cittaslow og markmiðið er að kynna staðbundna framleiðslu, menningu og/eða sögu.

Árið 2013 var gestum Cittaslow sunnudagsins í Djúpavogshreppi boðið upp á að bragða afurðir unnar af heimamönnum s.s. sultu, saft, sveppi, líkjöra og hundasúrusúpu.

Árið 2014 var lögð áhersla á sauðkindina og afurðir hennar. Boðið upp á ótrúlegt úrval rétta, bæði hefðbundna og óhefðbundna, allt frá blóðpönnukökum til sviðalappa, og veggir Löngubúðar voru skreyttir með handverki úr ull.

Að þessu sinni var lögð áhersla á göngumenninguna hér í sveitarfélaginu í samstarfi við Ferðafélag Djúpavogs. Tveir meðlimir í Ferðafélaginu, þau Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir og Ólafur Áki Ragnarsson, fjölluðu um gönguleiðir í sveitarfélaginu, sögðu frá Ferðafélaginu og göngum á vegum félagsins og sýndu myndir með.

Anna Sigrún sagði frá strandgöngu Ferðafélags Djúpavogs árin 2009-2011, þegar öll strandlengja sveitarfélagsins eins og hún leggur sig var gengin og ferðin nýtt til að týna rusl úr fjörunum. Einstaklega flott verkefni sem Ferðafélagið á heiður skilið fyrir.

Ólafur Áki sagði frá ótal fallegum gönguleiðum og stöðum í náttúru sveitarfélagsins sem vel er vert að leggja leið sína um og til.

 

Við þökkum gestum Cittaslow sunnudagsins kærlega fyrir komuna og Ferðafélagi Djúpavogs fyrir samvinnuna.

 

Gott er að nýta þetta tækifæri til að kynna að eftirfarandi fyrirtæki hafa gerst Stuðningsaðilar Cittaslow í Djúpavogshreppi og hafa hugmyndafræði samtakanna í heiðri:

  • Arfleifð
  • Adventura
  • Bragðavellir
  • Við Voginn
  • Landsbankinn
  • Hótel Framtíð
  • Havarí
  • Kvenfélagið
  • Langabúð

 

 

Myndir frá Cittaslow sunnudeginum: