Djúpavogshreppur
A A

Gjafir til safns Ríkarðs Jónssonar

Gjafir til safns Ríkarðs Jónssonar
Cittaslow

Gjafir til safns Ríkarðs Jónssonar

Greta Mjöll Samúelsdóttir skrifaði 17.07.2020 - 15:07

Nýverið færði Garðar Garðarsson Djúpavogshreppi gjöf í safn Ríkarðs Jónssonar. Gjöfin er lágmynd af Þórhalli Sigryggsyni en einnig færði Garðar safninu ljósmynd af þeim hjónum Þórhalli og Kristbjörgu Sveinsdóttur. Garðar færði gjafirnar Djúpavogshreppi fyrir hönd afkomenda þeirra hjóna Þórhalls og Kristbjargar. Henni fylgdi einnig skemmtileg samantekt um Þórhall og ævi hans tekin saman af Arnþóri Óla Arasyni. Þórhallur fæddist 4. janúar 1885 á Vestdalseyri við Seyðisfjörð. 16 ára gamall hóf Þórhallur hálfrar aldar feril við verslunarstörf er hann fékk starf við verslun Ørum & Wulffs á Djúpavogi. 1905 flutti Þórhallur frá Djúpavogi á Vopnafjörð og kynntist þar eiginkonu sinni Kristbjörgu. Árið 1913 fluttust þau hjónin á Djúpavog og var hann verslunarstjóri hjá verslun Ørum & Wulffs 28 ára gamall. Í samantekt Arnþórs Óla Arasonar segir að að margur eigi góðar minningar um gestrisni þeirra hjóna. Fyrirrennarar þeirra höfðu verið gestrisið og gott fólk og mátti segja að það tilheyrði arfi þeirra. Hjá þeim var stöðugur straumur gesta bæði úr nærsveitum og lengra að. Samtíðarmönnum Þórhalls ber saman um að hann hafi verið prúðmenni í framkomu, samviskusamur í störfum sínum og lagt við þau mikla alúð. Ríkarður Jónsson gerði lágmyndina af Þórhalli árið 1957 en tveimur árum seinna lést Þórhallur í Reykjavík, þá 74 ára gamall.

Safn Ríkarðs Jónssonar og Djúpavogshreppur færir afkomendum Þórhalls og Kristbjargar bestu þakkir fyrir þessar höfðinglegu gjöf til safnsins.


Ljósmynd af hjónunum Þórhalli og Kristbjörgu

Lágmyndin af Þórhalli