Djúpivogur
A A

Fyrsti í Hammond 2011

Fyrsti í Hammond 2011

Fyrsti í Hammond 2011

skrifaði 13.05.2011 - 13:05

Mýflugurnar eru ekki vaknaðar til lífsins í Mývatnssveit en engu að síður hröðuðu Svavar og Silvía sér þaðan líkt og mýflugnager væri á hælum þeirra. Erindið var þó að ná í tæka tíð á upphaf sjöttu Hammondhátíðar á Djúpavogi m.a. til þess að geta flutt setningarávarpið á réttum tíma, sem tókst og vel það. Eftir stutt innlegg í töluðu máli flutti Svavar einn af sálmum Jóhanns Sebastían Bach á Hammond orgel Kidda í Hjálmum, sem er heiðurshljóðfæri hátíðarinnar. Því hefur verið haldið fram að Bach hafi hugsað í kössum (jössum), enda hentar tónlist hans ákaflega vel fyrir jassara og t.d. mun betur en margt af því sem Grieg, Tjækofskí og Sveinbjörn Sveinbjörnsson létu eftir sig. Eftir setningarsálminn fór síðan allt í gang.

HETJUR Í EINN DAG ??

Þar af leiðandi steig Tónleikafélag Djúpavogs á svið og ég beið eftir því, hvort þeim tækist að sýna fram á að þeir gætu orðið hetjur í meira en einn dag. Tilvísunin er í eitt af þekktustu lögum David Bowie, sem heitir Heroes og í textanum segir "We can be heroes, just for one day", sem útleggst "við getum sko alveg verið hetjur, alla vega í einn dag". Mín skoðun er sú að með framgöngu sinni hafi þeir Tónleikafélagar stimplað sig þannig inn í hjörtu fjölmargra áheyrenda (u.þ.b. 100) að þeir verði taldir hetjur hér um slóðir í meira en einn dag. Hetjur þurfa jú gjarnan að vera djarfar og til þurfti ákveðna dirfsku að velja efnisskrá eingöngu úr smiðju David Bowie, eða Davíðs Bogasonar, eins og hinn „svali“ söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar, Kristján Ingimarsson, kallaði hann í kynningum sínum.

Það verður að segjast eins og er að tónlist David Bowie er líklega ekki mjög þekkt meðal þeirra sem nýlega voru horfnir úr hópi þeirra, er mega mæta á samkomu sem þessa án foreldra. Við sem eldri erum þekkjum að sjálfsögðu mörg laga David Bowie og vissulega hefur hann markað djúp spor í tónlistarsögunni. Hann má ekki beint kalla arftaka Bítlanna, enda allt önnur týpa, þrátt fyrir samhljóm með rödd hans og John Lennon á ákveðnu tímabili. Þvert á móti er hann sá sem kom í staðinn fyrir þá, án þess að menn áttuðu sig á því fyrr en löngu seinna. Salurinn var þó strax með á nótunum og í loftinu lá að það yrði meira gaman á Hótel Framtíð, en að hanga fyrir framan „imbann“ og horfa á Moldavíu komast í úrslit í Júgravísunum.

Þetta kvöld var Tónleikafélagið frekar fámennt á sviðinu eins og „Stjáni svali“ tók fram í upphafi kynningarinnar og t.d. engar söngdívur eins og stundum hefur verið. Eins vantaði ýmsa gítarleikara í hópinn, sbr. fjarveru Ýmis. Það var því ekki öfundsvert hlutskipti Stjána að þurfa að bregða sér í margra þeirra kvikinda líki sem David Bowie hefur skapað, án þess að hafa nokkurt bakland í söngnum. Í flestum tilfellum kom það ekki að sök og lögin komust prýðilega til skila á þann hátt sem þau voru framsett. Flutningurinn var þéttur og þar vóg þungt aðkoma hljóðmannsins, Guðjóns Birgis Jóhannssonar hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands. Hann hafði unnið vinnuna sína vel, er greinilega vel tækjum búinn og virðist kunna sitt fag þannig að fyllilega verður óþarft að sækja vatnið yfir brúna eða undir lækinn meðan Austfirðingar eiga aðgang slíkri þjónustu í eða nálægt heimabyggð.

Um frammistöðu einstakra tónlistarmanna í hljómsveitinni þarf ekki að hafa mörg orð vegna þess að þeir komu fram sem heild. Bítið í þeim lögum David Bowie, sem urðu fyrir valinu í gær er þannig að taktvissir menn eiga auðvelt með að elta ólar við það og af þeim sökum gekk Hammond-, bassa-, og gítarleikaranum vel að elta Ólaf við trommusettið, sem er taktfastur með afbrigðum líkt og grjóthrun í Njarðvíkurskriðum. Nægir að vitna í vin minn Stefán Bragason í því sambandi, en hann var einn fárra sem nýtti sér Axarveginn þetta kvöld í þessu sambandi og þakkaði fyrir sig á þennan hátt:

Hvað get ég orðlaus svo sem sagt,
þó sæmir að fyrir þakki.
Ég hlýddi á Óla trommu takt
og táraðist eins og krakki.

Í mörgum lögum Bowie ægir saman hljómum en Ægir var með þá á hreinu. Hann og Guðmundur Hjálmar báru Ægishjálm yfir hljómaganginn og þekktir gítareffektar úr lögum Bowie skiluðu sér til enda. Guðmundur góði er einfaldlega afburðabassaleikari og þarna má segja að hann hafi klifið eitt hið hæsta Heiðnaberg á ferli sínum.

Af mörgum þeim furðuskepnum sem David Bowie hefur breytt sér í valdi Kristján, af meðfæddri hógværð, eina af þeim „persónum“ sem láta glimmerdósir og hársprey eiga sig, áður en stigið er á svið. Hann og félagar hans komu á framfæri eins og að framan greinir mörgum þekktustu lögum kappans, svo sem China girl, sem Bowie samdi með Iggy pop 1975, Changes, Modern love, Rebel Rebel o.fl. Uppklappslögin voru All the young dudes og Ziggy Stardust, en sjálfur hefði ég viljað fá að heyra aftur Heroes.

Það var sannarlega þakkarvert fyrir okkur sem höfum látið plöturnar hans Bowie rykfalla örlítið í hillunum að fá hann þarna aftur beint í æð. Framganga Tónleikafélagsins var líklega þeirra besta frá upphafi (og þetta segi ég minnugur Pink Floyd tónleikanna þeirra hér um árið).

Kærar þakkir fyrir mig.

bhg

ASA TRÍÓ STÍGUR Á STOKK


Djassararnir í ASA tríói stigu á stokk eftir hlé og var enginn sérstakur asi á þeim í byrjun í hinum suðræna takti Þeloníusar Monk. Hljómsveitina skipuðu þetta kvöld Agnar Már Magnússon, hljómborðsleikari, Andrés Þór Gunnlaugsson, Gretsch-gítarleikari og Einar Valur Scheving, trommuleikari. Hljómsveitin heitir ASA tríó út af upphafsstöfum Agnars, Scott McLemore og Andrésar, en getur átt við með Einar Val við trommurnar, sem er schelfing góður á sínu sviði og var ekki að sjá og heyra að hann væri í afleysingatúr.

Í raun er ósanngjarnt að tala um tríó í þessu sambandi því afburða bassalína Agnars Más á forláta Roland-skemmtara Tónlistarskólans, sem aldrei hefur munað fífil sinn fegurri, virkaði þannig að í raun virtist kominn fullgildur (aukameð)limur í tróíið. Í stuttu máli sagt eru þeir félagar allir háklassaspilarar og í raun er okkur til efs, hvort „band“ færari tónlistarmanna hafi spilað á Hammondhátíð. Auk þess var spilagleðin í góðu lagi og sérstaklega var ánægjulegt að horfa á Andrés Þór, sem spilaði ekki bara með andlitinu, heldur gjörsamlega  frá hvirfli til ilja, sem yljaði auðvitað mörgum viðstöddum. Efnisvalið var margbreytilegt og m.a. brugðu þeir sér yfir í angurvært lag úr smiðju John Lennon (Beautiful boy) sem salurinn taldi greinilega einn af hápunkuntum flutnings þeirra félaga. Skömmu eftir kom þriggja hljóma melódía frá Ray Charles (I got a woman). Flest lögin voru þannig uppbyggð, eins og gjarnan er matreitt í djasstónlist, að gítar og eftir atvikum Hammondorgel kynntu til sögunnar stef, sem spunnið var út frá á þann hátt að allir hljóðfæraleikarar fengu að njóta sín.  Sjaldan hafa verið tekin jafn mörg trommusóló á Hammondhátíð eins og hér var gert og var aðdáunarvert að sjá og heyra hve auðveldlega Einar Valur renndi sér í þau og hve auðvelt þeir félagar hans gerðu honum að fíla þau í botn með innskotum á viðeigandi stöðum.  Jafnvel fígúra annars undirritaðs á trommusettinu virtist leggja við hlustir og gott ef ekki undir flatt. Tónleikunum lauk kl. 11:38, eftir uppklappslag og þá var það enginn annar en Jimi Hendrix, sem varð þess heiðurs aðnjótandi að vera teflt fram af hinu vel spilandi bandi.

Um leið og við þökkum þeim félögum kærlega fyrir okkur leyfum við okkur að halda því fram, að ef þetta kvöld er vísbending um það sem koma skal þá er ljóst að Hammondhátíð Djúpavogs 2011 mun skrá nafn sitt á spjald hennar í heild sem viðburðurinn, er enginn hefði viljað missa af. Gildir það ekki sízt um þá fjölmörgu námsmenn frá Djúpavogi, sem nú sitja sveittir yfir prófum eða undirbúningi þeirra, en hefðu mikið fremur viljað geta blandað geði við félaga sína og vini heima fyrir eins og þeir hafa dyggilega gert undanfarin ár.

Í kvöld stígur Landsliðið á stokk með Pál Rósinkranz í broddi fylkingar. Eitt er víst að alltaf verður // ákaflega gaman þá.

Myndir frá fyrsta kvöldinu tóku Andrés Skúlason og Birgir Th. Ágústsson.

ób / bhg