Djúpivogur
A A

Fyrsta heimsóknin í grunnskólann

Fyrsta heimsóknin í grunnskólann

Fyrsta heimsóknin í grunnskólann

skrifaði 15.09.2006 - 00:09

Elstu nemendur leikskólans fóru í sína fyrstu heimsókn í grunnskólann nú á dögunum.  Farið var um morguninn og þegar við mættum á svæðið voru nemendur grunnskólans í frímínútum. Áður en farið var á leiksvæðið, stoppuðum við í smá stund og var þeim sagt að nú væru allir í frímínútum og þá mættu þau leika sér á leiksvæðinu.  Síðan myndi bjalla hringja og þá yrðu allir að hlaupa inn.  Börnin meðtóku þetta og haldið var á leiksvæðið.  Ekki leist þeim nú ofvel á þetta og ríghéldu þau í mig og horfuð á þessa stóru krakkka sem voru að leika sér í leiktækjunum.  En áður en langt um leið hringdi svo bjallan og kom þá þessi skelfingarsvipur á börnin sem greinilega vissu ekki hvað á sig stóð veðrið.  Nemendur grunnskólans þustu af stað og við löbbuðum rólega í sömu átt en ríghéldum í kennarann okkar.  Þegar komið var að andyri grunnskólans voru nemendurnir komnir í röð og gerðum við slíkt hið sama.  Þórunnborg kennari 1. og 2. bekkjar tók á móti okkur.  Þegar við vorum búin að kynna okkur fyrir Þórunnborgu fórum við inn og klæddum okkur úr útifötunum.  Síðan var haldið inn í stofu hjá 1. og 2. bekk.  Þar voru borð og stólar fyrir okkur.  Dóra skólastjóri kom til okkar og heilsaði upp á okkur og bauð okkur velkomin í grunnskólann.  Eftir það fórum við að skoða skólann í fylgd 1. bekkjar en 2. bekkur fékk að fljóta með.  Við byrjuðum á að skoða vinnustofu kennara og þar hittum við Erlu heimilisfræðikennara, Kristrúnu og Unni.  Við sáum kennarastofuna og kíktum inn á skrifstofu skólastjórans.  Þá næst fórum við fram á ganginn og sáum skápa sem eldri nemendur grunnskólans hafa fyrir dótið sitt.  Fyrsta stofan sem við skoðuðum var tölvustofan og þar voru sko 13 tölvur og sögðu krakkarnir okkur að þau mættu fara í allskonar leiki í tölvutímum.  Í næstu stofu voru engir krakkar en líklegast voru þau í íþróttatíma.  Þá skoðuðum við sérkennslustofuna og sagði Þórunnborg okkur að oft kæmi fullorðið fólk hingað til að taka próf og þá væri það í þessari stofu.  Þá fórum við í næstu stofu þar sem var tónmenntakennsla í gangi hjá nokkrum nemendum í 5. bekk.  Þau fóru með þulu fyrir okkur og klöppuðu með en svo tók Svavar upp gítarinn og sungum við tvö lög með þeim.  Þá var haldið inn í myndmenntastofuna þar sem við sáum ýmis listaverk eftir krakkanna í grunnskólanum og alls konar dót sem þau nota til þessa.  Þá fórum við í næstu stofa þar sem Lilja var að kenna nemendum 6. bekkjar um eldfjöll.  Hún náði í víðsjá og leyfði okkur að skoða stein frá Íslandi og skel eða stein frá Namibíu.  Okkur fannst þetta mjög merkilegt.  Þegar við vorum búin að skoða í víðsjánni fengum við að sjá líkan af auga og beinagrind sem heitir Gauti.  Þá héldum við í næstu stofu þar sem 9. og 10. bekkur voru að læra stærðfræði.  Dóra var að kenna þeim og sagði okkur að þau væru að læra pýþagorasarregluna sem við vissum ekkert hvað væri en við lærum það seinna.  Teknar voru myndir af okkur með 9. og 10. bekk í tröppunum og hægt er að sjá þær í myndaalbúmi leikskólans.  Síðasta stofan sem við kíktum í var stofan hjá 3. og 4. bekk en þau voru í lestri hjá Gesti. 

Þá klæddum við okkur í stígvélin og regnjakkanna því okkur langaði svo að sjá smíðastofuna og heimilsfræðistofuna og þangað þurftum við að ganga.  Í smíðastofunni var mikið af smíðadóti og hættulegum vélum eins og sagir og pússvél.  Þá fórum við í Heimilisfræðistofuna en þar læra krakkarnir að elda og setja í þvottavél.  Nú var yfirferðinni lokið og komið að frímínútum aftur.  Við fengum að vera með í frímínútum og vorum heldur betur brattari en í byrjun.  Þar sem við prófuðum öll leiktækin og fórum á sparkvöllin þar sem krakkarnir voru í fótbolta.  Þegar bjallan hringdi vissum við alveg hvað væri að gerast og hlupum beint til kennarans.  Við þökkuðum fyrir okkur og héldum svo á leið í leikskólann.

Þegar þangað var komið voru allir úti að leika sér þannig að við fórum bara inn enda hádegismaturinn alvega að koma.  Settumst við niður og ræddum saman um þessa heimsókn. 

Það sem okkur fannst skemmtilegast í grunnskólanum:

Davíð Örn: Að skoða beinagrindur.

Fanný Dröfn: Sjá Guðmundu, leika við hana úti, gaman að skoða dótið og skoða steininn í víðsjánni.

Ómar Freyr: Leika mér og fara í fótbolta.

Ísak: Mjög skemmtilegt að vega salt.

Það sem okkur fannst skrítnast í grunnskólanum:

Ísak: Rólunar voru svo nálægt.

Fanný Dröfn: Hvað ég fór mjög hátt í rólunum samt er ég 5. ára.

Ómar Freyr: Þurfa að ganga, hér, í smíðastofuna.

Davíð Örn: Að Anton gæti rólað svona hátt upp á skólaþak.

Fanný Dröfn: Skrítið að það var dót í grunnskólanum og maður mátti leika sér þar.

Þegar bjallan hringdi fannst Davíð Erni vera hávaði.  Þau urðu sko ekkert hrædd nema Fanný hún varð hrædd.

Hvað gerir maður í grunnskóla?

Læra, Stærðfræði, Prjóna, Sauma, elda, um beinagrindur og líkamann.

Hvað gerir maður í leikskóla?

Leikur sér, læra um það sem má og má ekki, læra að þegja, læra að vera vinir, læra að vera góð hvert við annað, fara í leiki, læra að þvo sér, læra að taka bara 1. bréf (þegar maður er búinn að þvo sér), púsla, tala einn í einu, rétta upp hönd þegar maður þarf að tala.

Í myndaalbúmi leikskólans (myndir) má sjá myndir af heimsókninni.

Þ.S.