Djúpivogur
A A

Fyrirlestrar um staðbundið veðurfar á Suðausturlandi

Fyrirlestrar um staðbundið veðurfar á Suðausturlandi

Fyrirlestrar um staðbundið veðurfar á Suðausturlandi

skrifaði 29.04.2013 - 10:04

Dagana 29. og 30. apríl mun Austurbrú standa fyrir erindum um staðbundið veðurfar á Suðausturlandi. Fyrirlesari er Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur, en hún hefur unnið sem veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands síðastliðin 12 ár.

Fyrri fyrirlesturinn verður haldinn í Nýheimum á Hornafirði. Þar verður farið í einkenni veðurlags á Suðausturlandi og einkum við Hornafjörð. Rakið hver áhrif fjalla og jökla eru á hita, vind, úrkomu og snjóalög. Auk þess verður skoðað hversu mikil áhrif sjórinn og sjávarhitinn hefur á veðurfar. Síðast en ekki síst verður fjallað um hvaða gagn má hafa af veðurspám og hvernig þekking fólks á staðbundnu veðri getur aukið gagnsemi þeirra.

Seinni fyrirlesturinn verður í Löngubúð á Djúpavogi. Efnistök verða svipuð en sjónum þá meira beint að veðri nærri Djúpavogi.

Sem fyrr segir er það Austurbrú sem stendur fyrir heimsókn Kristínar en verkefnið er styrkt af Skinney-Þinganesi, Félagi smábátaeigenda á Austurlandi og AFLi Starfsgreinafélagi.
Staður og tími:

•    Höfn Hornafirði - Nýheimar, 29. apríl (mánudagur) frá 20:00 til 22:00.
•    Djúpivogur – Langabúð, 30. apríl (þriðjudagur) frá 20:00 til 22:00.  

Ókeypis er á báða fyrirlestra.