Djúpivogur
A A

Fulltrúi Djúpavogsskóla á Barnaþingi

Fulltrúi Djúpavogsskóla á Barnaþingi

Fulltrúi Djúpavogsskóla á Barnaþingi

Ólafur Björnsson skrifaði 05.12.2019 - 08:12

Í síðustu viku var Barnaþing haldið í fyrsta sinn á Íslandi. Þar fékk fjölbreyttur hópur barna boð um að mæta og taka þátt. Stærstur hluti barnanna var valinn með slembivali úr þjóðskrá en einnig var séð til þess að börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir ættu fulltrúa á þinginu. Á þinginu fengu krakkarnir að segja sínar skoðanir á þeim málum sem þeim finnst mikilvæg. Þingið var með þjóðfundarsniði og voru um 150 börnum skipt í hópa með einn stjórnanda sem sá um að allar skoðanir kæmust að. Við í Djúpavogsskóla vorum svo heppinn að eiga einn fulltrúa á þinginu en það var hann Björgvin Sigurjónsson í 8. bekk.

Björgvin segir að það hafi verið gaman að taka þátt í þessu verkefni. Hann hafi kynnst mörgum krökkum og hitt alla ráðherra landsins og forsetann, svo hafi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra valið sér sæti við hans borð. Björgvin segir að það hafi verið gaman að heyra skoðanir allra, bæði krakkanna og ráðamanna þjóðarinnar. Hann segir að flestir hafi haft svipaðar skoðanir og hann. Krökkunum var skipt í hópa og á hverju borði var hópur með sjö krökkum sem komu sér saman um eitthvað eitt sem þeim fannst skipta máli. Hópurinn sem Björgvin var í var sammála um að það mætti vera minna heimanám, en á vefsíðu umboðsmanns barna má sjá að skilaboð barnanna voru skýr. Frítt í strætó, hjálpum fjölskyldum í neyð, tökum vel á móti flóttafólki, flokkum rusl og minna plast.

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands er vendari Barnaþings en Vigdís hefur ætíð lagt mikla áherslu á menningu, þar á meðal barnamenningu.

Hér er heimasíða umboðsmanns barna þar sem hægt er að lesa meira um barnaþing.

https://barn.is/frettir/2019/11/barnathing-vel-heppnad/