Fræðsluskilti við Djáknadys


Minjastofnun Íslands hefur nú komið upp fræðsluskilti og léttri afmörkun við Djáknadysina í Hamarsfirði en það var eitt af þeim verkefnum sem stofnunin fékk styrk til að vinna af Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Aukinn ferðamannastraumur hefur leitt til aukins ágangs við dysina og þótti því þörf á að miðla upplýsingum til þeirra sem heimsækja staðinn ásamt því að afmarka dysina svo hún yrði ekki fyrir frekara raski.
Austfirðingar kannast margir við sögu staðarins en hún segir að þar hafi djákninn á Hamri og presturinn á Hálsi barist vegna ósættist, þeir hafi báðir látið lífið og annar eða báðir verið dysaðir þarna á staðnum. Sagt er að sú kvöð hvíli á þeim vegfarendum sem fram hjá dysinni fara að þeir verði að kasta steinvölu í dysina til að eiga góða vegferð framundan.
Dysin var friðlýst árið 1964 af þáverandi þjóðminjaverði, Kristjáni Eldjárn. Hún nýtur þar með æðstu verndar minjavörslunnar, en það er eitt af hlutverkum Minjastofnunar Íslands að merkja og miða upplýsingum um friðlýstar fornleifar. Djáknadysin er lifandi minjastaður þar sem fólk hefur tekið þátt í að móta staðinn. Þrátt fyrir vegagerð á svæðinu í gegnum tíðina stendur dysin enn og þar með fær saga hennar að lifa enn þann dag í dag og getur þar með glatt komandi kynslóðir, en það er einn tilgangur minjavörslunar – að skila menningararfi þjóðarinnar óspilltum til komandi kynslóða.
Minjastofnun færir þeim Hreini Guðmundssyni og Rúnari Matthíassyni kærar þakkir fyrir aðstoðina við framkvæmdirnar og Andrési Skúlassyni fyrir myndina á skiltið.
Minjastofun Íslands