Djúpivogur
A A

Föstudagsgátan

Föstudagsgátan

Föstudagsgátan

skrifaði 18.09.2009 - 08:09

Sl. föstudag birtum við gátu eftir Baldur Gunnlaugsson. Gátan sú vakti mikla athygli og sendu 11 manns inn svar.

Hún hljóðaði svona:

Finnst á gólfi fótum troðin
færir yl í kroppinn þér.
Í góðri veislu gestum boðin,
gefur verk í fingur mér.

BG

Svarið var nafnorð í kvenkyni og var það að finna í öllum línunum. Þeir sem sendu inn svar eru:

Stefán Bragason
Maríus Þór Jónasson
Guðný Svavarsdóttir
Aðalsteinn Aðalsteinsson
Hrafnhildur Kristjánsdóttir
"Gömlu hjónin í Sæbakka" (Hrönn og Guðmundur)
Unnur Finnsdóttir,
Tinna Rún Ragnarsdóttir
Snæbjörn Sigurðarson
Hallgrímur Gíslason
Gunnar Þór Guðmundsson

Öll höfðu þau rétt svar, en það er orðið flís. Sum þeirra vildu þó bæta um betur og svara í gátu, sem er skemmtilegur siður.

"Gömlu hjónin" í Sæbakka ortu svo:

Gjörð úr leir á gólfi og veggjum.
Góð er flík úr efni því.
Skorin oft af læri og leggjum.
Leynist málmi og timbri í.

Snæbjörn Sigurðarson sendi þetta svar:

Á fínum gólfum flísar liggja,
fleece í kroppinn sendir yl.
Býð væna flís af feitum þiggja.
Hér flísatöng ég legði til.

Gólfflís - Flíspeysa - Kjötflís - Tré eða málmflís.

Við þökkum þeim sem tóku þátt og þökkum að sjálfsögðu Baldri fyrir afnotin af vísunni. Vonandi kemur hann til með að lána okkur fleiri í framtíðinni.

Hér að neðan er ný vísnagáta.


Ingimar Sveinsson kom askvaðandi hér á skrifstofuna í vikunni, vopnaður þessari fínu vísnagátu:

Maður einn heitir hey í röðum
og húsdýrin mörgu borða úr.
Þar gott fann ég kál með grænum blöðum,
góðmeti fékk í hverjum túr.
IS

Eins og Ingimar orðaði það þá "þarf lausnarorðið ekkert endilega að vera í hverri línu".

Svar sendist á djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 25. september.

ÓB