Djúpivogur
A A

Föstudagsgátan

Föstudagsgátan

Föstudagsgátan

skrifaði 11.09.2009 - 06:09

Þann 12. júní sl. birtum við vísnagátu eftir Ingimar Sveinsson og finnst undirrituðum ekki úr vegi að fara að birta svarið við henni.

Vísnagátan var sannarlega í erfiðari kantinum en þrátt fyrir það bárust inn tvö svör og voru bæði rétt.

Gátan var svona:

Ég ók frá Höfn og austur í Lönd,
er æði skrýtið vopn ég sá.
Það blasti við mér á hægri hönd,
en huldi að nokkru þoka grá.

IS

Ingimar spurði: Hvert var ég að fara og hvað sá ég?
Til að koma lesendum á sporið fannst okkur rétt að upplýsa að Ingimar var að keyra frá Höfn í Hornafirði austur í Lönd í Stöðvarfirði og spyr um örnefni á hægri hönd.

Bj. Hafþór Guðmundsson reyndi einnig að koma fólki á sporið með að semja vísu um svarið og hver veit nema það hafi hjálpað þeim sem sendu inn rétt svar. Vísa sveitarstjórans um svarið var svona:

Eyjar nafnið mun einatt það,
eystra og vestra þess finnur stað.
Spakir nefna það spjót og sverð
spegilpússað af bestu gerð.

BHG

Þeir sem sendu inn rétt svar voru Guðný Svavarsdóttir og Baldur Gunnlaugsson en svarið er Vigur. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.


Hér fyrir neðan er ný vísnagáta, einmitt eftir áðurnefndan Baldur Gunnlaugsson.

Finnst á gólfi fótum troðin
færir yl í kroppinn þér.
Í góðri veizlu gestum boðin,
gefur verk í fingur mér.

BG

Svarið er nafnorð í kvenkyni og er það að finna í öllum línunum.

Svör sendist á djupivogur@djupivogur.is

ÓB