Djúpivogur
A A

Föstudagsgátan - svar og ný gáta

Föstudagsgátan - svar og ný gáta

Föstudagsgátan - svar og ný gáta

skrifaði 08.01.2010 - 06:01

Föstudaginn 18. desember sl. birtum við nafnagátu sem Ingþór Sigurðarson sendi okkur. Eru lesendur því búnir að hafa góðan tíma til að ráða gátuna, enda var hún stór og mikil.

Fjórir sendu inn svar og auðvitað er það alltaf matsatriði að öll svörin hjá hverjum lesanda hafi verið rétt, enda í sumum tilfellum fleiri en eitt nafn sem á við. Þeir sem svöruðu voru allavega allir ansi nærri því að hafa allt rétt. Helst voru menn að flaska á nafninu Elliði. Þeir sem svöruðu voru:

Stefán Bragason
Hjördís Björg Kristinsdóttir
Skúli Heiðar Benediktsson
Magnhildur Pétursdóttir
Ingibjörg Jónasdóttir (og aðrir á Runná)

Hér að neðan birtum við gátuna og þau svör sem henni fylgdu upphaflega:

Einn í dufti ávallt skríður (Ormur)
annar skort á mörgu líður (Eiríkur)
oft hinn þriðja eykir draga (Vagn)
auga úr kind vill fjórði naga (Hrafn)
 
Er sá fimmti aðkomandi (Gestur)
ætli ég sjötti i veggjum standi (Steinn)
sjöundi gamall alltaf er (Elliði)
áttunda a hverri nál þú sérð (Oddur)
 
Níundi múgur nefnist manns (Lýður)
nafn ber tíundi skaparans (Guðmundur)
ellefti verður aldrei beinn (Bogi)
á þeim tólfta er saur ei neinn (Hreinn)
 
Sá þrettándi byrjar viku hverja (Máni)
dauðinn mun ei a þann fjórtanda herja (Ófeigur)
sá fimmtándi hirðir mest um slátt (Barði - Garðar)
með þeim sextánda næ ég andanum brátt (Loftur)

Við þökkum þeim sem tóku þátt, en vísnagáta er hér fyrir neðan.

 


 

Gáta þessarar viku er eftir Ingimar Sveinsson:

Í fiskvinnslunni fékk sér starf,
fjórtán kassa vaska þarf.
Sá gamli mættur, mín er trú
að mjúka koju bæli nú.
IS 

Eitt þriggja stafa orð er að finna í 2. og 4. línu.

Svör sendist á netfangið djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 15. janúar.