Föstudagsgátan - svar og ný gáta

Föstudagsgátan - svar og ný gáta
skrifaði 18.12.2009 - 11:12Fyrir nokkru birtum við vísu eftir Ingimar Sveinsson. Lausnarorðið kom fyrir í tveimur línum í vísunni.
Þar sem allir fiskinn fá
fleygði ég litlu blaði.
Ég var ekkert í að spá
hvort af því hlytist skaði.
IS
Okkur barst einungis eitt svar, en það var frá Aðalsteini Aðalsteinssyni. Hann vildi meina að lausnarorðið væri "mið" og var það samþykkt af höfundi.
Við þökkum Ingimar fyrir vísuna og Aðalsteini fyrir svarið. Ný gáta er hér fyrir neðan.
Föstudagsgátan að þessu sinni er stór og mikil, en hana fengum við senda alla leið frá Noregi, n.t.t. frá Ingþóri Sigurðarsyni. Ekki fylgdi sendingunni hver væri höfundurinn. Þetta er semsagt nafnagáta og kemur eitt karlmannsnafn fyrir í hverri línu. Ætli sé ekki best að gefa lesendum jólahátíðina til að ráða gátuna og því setjum við frestinn á föstudaginn 8. janúar 2010. Svör sendist á netfangið djupivogur@djupivogur.is.
Einn í dufti ávallt skríður
annar skort á mörgu líður
oft hinn þriðja eykir draga
auga úr kind vill fjórði naga
Er sá fimmti aðkomandi
ætli ég sjötti i veggjum standi
sjöundi gamall alltaf er
áttunda a hverri nál þú sérð
Níundi múgur nefnist manns
nafn ber tíundi skaparans
ellefti verður aldrei beinn
á þeim tólfta er saur ei neinn
Sá þrettándi byrjar viku hverja
dauðinn mun ei a þann fjórtanda herja
sá fimmtándi hirðir mest um slátt
með þeim sextánda næ ég andanum brátt
ÓB