Djúpivogur
A A

Föstudagsgátan - svar og ný gáta

Föstudagsgátan - svar og ný gáta

Föstudagsgátan - svar og ný gáta

skrifaði 30.10.2009 - 15:10

Fyrir tveimur vikum birtum við þessa gátu eftir Hrönn og Guðmund í Sæbakka:

Lúrði rykið rekka hjá
rösku grjóti kenndur.
Bærinn háu bergi hjá
og bústofn þangað sendur

HJ/GG

Svarið var mannsnafn í fyrstu línu, nafn föður í annarri línu og bæjarnafn í þriðju og fjórðu línu.

Þau sem sendu inn svar voru:

Aðalsteinn Aðalsteinsson
Kristján Ingimarsson
Vilborg Gunnlaugsdóttir
Guðríður Gunnlaugsdóttir
Baldur Gunnlaugsson

Öll voru þau sammála um að sá sem um ræddi í vísunni væri:

Svavar Þorbergsson
Hamarsseli

.. sem er að sjálfsögðu rétt. Sumir bættu þó um betur og svöruðu vísunni með annarri vísu.

Þannig orti Vilborg Gunnlaugsdóttir:

Í Hamarsseli hálfa öld
hefur karlinn setið.
Syni tvo og systrafjöld
með sinni konu getið.

Guðríður Gunnlaugsdóttir svaraði eitthvað á þessa leið:

Sonur Þorbergs, Svavar heitir
sá í Hamarsseli býr.
Fjárbóndinn hann fer í leitir
en fráleitt hefur nokkrar kýr.

Það er alltaf gaman að fá svona ráðningar á vísnagátum.

Við þökkum þeim sem tóku þátt sem og Hrönn og Guðmundi fyrir vísuna en næsta vísnagáta er hér fyrir neðan.


Vísnagáta þessarar viku er eftir Ingimar Sveinsson:

Þar sem allir fiskinn fá
fleygði ég litlu blaði.
Ég var ekkert í að spá
hvort af því hlytist skaði.
IS

Sama orðið kemur fyrir í tveimur línum í vísunni.

Svar sendist á djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 6. nóvember.

ÓB