Föstudagsgátan - Svar og ný gáta

Það er svosem ekkert nýtt hjá okkur hér á heimasíðunni að það dragist að birta rétt svar við vísnagátum.
Föstudaginn 22. maí birtum við eftirfarandi vísnagátu eftir Hrönn Jónsdóttur í Sæbakka:
Með fimm þú hittir mey og fuglinn fleyga,
með fjórum annað konunafn og bein.
Með þremur er hún búin barn að eiga,
blítt með tveim þá raular stundum ein.
Sannarlega komu svör við þessari gátu og birtum við hér nöfn þeirra sem sendu inn, en allir höfðu rétt svar:
Stefán Bragason
Ingimar Sveinsson
Baldur Gunnlaugsson
Eins og kom fram voru lausnaroðin eru 4, eitt fyrir hverja línu og snérust um að menn kynnu að telja og ríma.
Lausnarorðin voru, í þessari röð:
Svala
Vala
ala
la
Semsagt, eins og sveitarstjórinn orðaði það: "Hrein snilld."
Við þökkum þeim sem tóku þátt og biðjum lesendur að skoða nýja vísnagátu hér fyrir neðan.
Fyrir nokkru kíkti Ingimar Sveinsson til undirritaðs og sveitarstjóra í kaffi. Eftir um hálfan bolla dró Ingimar upp blaðsnepil sem innihélt ansi skemmtilega vísnagátu sem hann var nýbúinn að setja saman. Þær vísnagátur sem hingað berast er sveitarstjórinn yfirleitt ansi fljótur að ráða en þessi vafðist fyrir honum, jafnvel svo mikið að heyrst hefur að hann hafi misst svefn hvað eftir annað og verið algerlega viðþolslaus þar til Ingimar ákvað að létta honum kvölina og segja honum svarið. Það er því ljóst að lausnin er strembin. Það skala taka fram að um kunnáttu undirritaðs við að leysa gátur þarf ekki að fjölyrða, þar sem hann er einstakur amlóði við það og ákvað þess vegna að reyna ekki einu sinni.
Þegar sveitarstjórinn fékk svarið í hendur ákvað hann að setja saman vísu um það, en við vonum að hún geti hjálpað lesendum við ráðninguna.
Vísa Ingimars er svona:
Ég ók frá Höfn og austur í Lönd,
er æði skrýtið vopn ég sá.
Það blasti við mér á hægri hönd,
en huldi að nokkru þoka grá.
IS
Ingimar spyr: Hvert var ég að fara og hvað sá ég?
Til að koma lesendum á sporið er rétt að upplýsa að Ingimar var að keyra frá Höfn í Hornafirði austur í Lönd í Stöðvarfirði og spyr um örnefni á hægri hönd.
Vísa sveitarstjórans um svarið er svona:
Eyjar nafnið mun einatt það,
eystra og vestra þess finnur stað.
Spakir nefna það spjót og sverð
spegilpússað af bestu gerð.
BHG
Svör sendist á djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 19. júní.
ÓB