Djúpivogur
A A

Flest er níræðum fært

Flest er níræðum fært

Flest er níræðum fært

skrifaði 20.05.2016 - 15:05

Í Tryggvabúð er félagsaðstaða eldri borgara í Djúpavogshreppi. Á meðal þess sem þar er stundað er vefnaður, undir leiðsögn listakonunnar Bjargar Helgadóttur. Það er ýmislegt sem rennur undan vefstólunum en í vetur hafa það þó sér í lagi verið mottur af ýmsum stærðum og gerðum. Samkvæmt bókhaldi Bjargar eru þær 13 talsins sem framleiddar hafa verið í vetur. Ein slík var kláruð í gær og það þótti tilefni til að kalla undirritaðan á staðinn til að taka mynd. Og tilefnið var jú ærið.

Guðrún Guðjónsdóttir, sem verður 90 ára þann 24. júlí, var að klára við eina gólfmottuna. Ekki þá fyrstu í vetur, heldur þá þriðju. Þar að auki er hún búin að vefa nokkrar töskur, svona í hjáverkum. Geri aðrir betur. Hún var nú ekki alltof hrifin af því blessunin, að teknar væru myndir, en féllst þó á það og jájáaði, jæjaði og blístraði svolítið á meðan.

Að þessu loknu settist Rúna með spjaldtölvuna og athugaði stöðuna á Facebook, þakkaði svo fyrir sig, settist upp í Súbarúinn sinn og ók sem leið lá heim í Grænuhlíð.

Flest er níræðum fært.

ÓB