Djúpivogur
A A

Fjórði í Hammond 2012

Fjórði í Hammond 2012

Fjórði í Hammond 2012

skrifaði 23.04.2012 - 09:04

Og þá er nú Hammondhátíð Djúpavogs árið 2012 lokið í þetta sinn.

Fjórði starfsdagur hátíðarinnar fór fram í Djúpavogskirkju og var athöfnin þar vissulega heilög í samræmi við boðskap kristinna fræða um að menn skuli halda hvíldardaginn heilagan. Annálsritari er verulega efins um að fólk hafi gengið glaðara og þakklátara í hjarta úr kirkju sinni þennan dag, en þeir, sem komu á tónleika Egils Ólafssonar og Jónasar Þóris, sem þarna fóru fram. Og víst er um það að betri predikun hefur tæpast verið haldin í nokkru guðshúsi þennan daginn en sú, sem Egill flutti smám saman með föðurlegum tón og í miklum innileik, eftir fyrstu verkin á efnisskránni höfðu litið dagsins ljós. Þar kom Jónas í byrjun við sögu með verkum úr smiðju Bach og Grieg. Að því búnu tók við „Oh what a morning“ (söngur úr guðspjöllunum) og því næst slagari úr Stuðmanna katalóknum, „Energí og trú“.

Og það átti svo sannarlega vel við að hljóðfærið, Hammond orgelið, sem nýtt hefur verið við trúarsamkomur af ýmsu tagi úti um allan heim, einkum hinn vestræna frá okkur séð, væri í aðalhlutverki hjá hinum fingrafima og ljúfa undirleikara, Jónasi Þóri, sem reyndar tók flygilinn til kostanna í alla vega 2 lögum. Það var ekki amalegt að hlusta á Egil flytja við hugljúfan undirleik sálm, eigið lag og texta, sem hann kallaði veraldlegan, af því að hvergi í honum væri minnst á guð, en samt fjallað um hið góða í manninum. Hann er númer 9; „Þó himnarnir hrynji...“  úr 18 laga safni veraldlegra sálma eftir listamanninn.

Egill tileinkaði mörg verk á efnisskránni konum, sem hann kvað, án mótmæla úr kirkjubekkjum, vera fallegri hluta mannkyns. Flutti hann síðan „Summertime“ eftir þá Gerswin bræður og í framhaldi af því „Night & Day“ eftir Cole Porter. Samhliða því upplýsti hann annálsritara og líklega flesta kirkjugesti um að hin íslenzka myndlistarkona, Nína Sæmundsson, hafi verið einn helzti tónlistargagnrýnandi Porter og jafnvel haft líf verka hans í höndum sér. Hann mun hafa leitað álits hennar á ýmsum verkum sínum og annað hvort gaf hún þeim gæðastimpil og þar með líf, eða ráðlagði tónskáldinu að leggja þau snarlega til hliðar. Þetta var sannarlega áhugavert og kemur þarna í ljóst, eins og Egill ályktaði, að rætur Íslendingsins liggja víða.

Í predikunum sínum (kynningum á milli verka) lagði söngvarinn m.a. út frá því að ekkert væri sjálfgefið í lífinu, eins og mönnum hætti til að halda. Hann minntist á stórhug og framsýni Svavars Sigurðssonar, upphafsmanns hátíðarinnar og þeirra, sem sterkast hafa staðið við bakið á honum við að halda úti menningu með þeim stimpli, sem hátíðin hefði fengið á sig. Vissulega væri það alþekkt að menn ynnu að því að halda uppi menningu, m.a. úti um hinar dreifðu byggðir, þar sem að maður væri manns gaman. Hins vegar væri flóknara að búa til nýja menningu af því tagi sem hér hefði verið gert. Hann vék orðum sínum að hinni eðlu íþrótt, borðtennis (Ping Pong) og útskýrði, að ef bara pingið væri til staðar, vantaði öll samskipti í tjáningu manna í milli. Þeir félagar sýndu síðan á táknrænan hátt mikilvægi undirleikarans og söngvarans fyrir hvorn annan og hvernig Ping Pongið virkar í tónlistarflutningi.

Á einum stað í efnisskránni lék Jónas Þórir af fingrum fram „Vorið er komið og grundirnar gróa“ í djassaðri útsetningu. Á meðan var Egill að byrja að hita upp forláta trommu (sjá mynd), sem hann kvað eiga árþúsunda gamlan uppruna og hefði í raun og veru verið GSM sími þeirra tíma og langt fram á vorar aldir. Reyndar fullkomnara tæki en öll slík í nútímanum, því að með þessum GSM síma hefðu menn náð að vera í sambandi við framliðna. Reyndi hann síðan „að ná í“ við Jón Arason, sem dó um miðja 16. öld og var eitt helzta skáld þeirra tíma. Við eigin undirleik á trommuna flutti hann því næst veraldlegan sálm Jóns, sem byrjar á þessum orðum; „Hnigna tekr heimsins magn“.

Að því búnu fengu viðstaddir að heyra útgáfu Egils á trúarjátningunni og var sú bæði virðuleg og vel flutt, reyndar í töluðu máli en ekki sungnu. Svo kom sungið atriði „It ain´t necessarily so“, og í framhaldi af því upplýsingar um að Egill hefði dvalið sumarlangt á Djúpavogi fyrir 42 árum við mælingar á stæðum fyrir raflínur. Dvölina taldi hann hugsanlega hafa verið tímasóun, þar sem að hann virtist hafa vissar efasemdir um að sjónmengunin frá raflínunum, sem hann óbeint er ábyrgur fyrir, væri réttlætanleg. Að öðru leyti hugsaði hann greinilega hlýtt til staðarins.

Lokalagið fyrir uppklapp var eigin texti Egils á þekktum slagara Ninu Simon, „My Baby Just Cares For me“.

Að lokum tóku þeir félagar, þó með Egil í verulegu aðalhlutverki, lagið, en þó ekki síður textann „Ofboðslega frægur“ og var hrein unun að hlýða á flutninginn og sjá hina líflegu notkun Egils á því sem kallað er líkamstjáning. Þar fara fáir í fötin hans, og reyndar er útgeislun hans gífurleg á öllum sviðum við tækifæri sem þetta. Stóðu viðstaddir tónleikagestir upp fyrir þeim félögum og klöppuðu þeim lof í lófa svo sem vera bar.

Lokaorð.

Að loknum framangreindum tónleikum flutti Hlíf B. Herbjörnsdóttir, einn af máttarstólpum hátíðarinnar öll árin, sem hún hefur verið haldin (2006 – 2012), listamönnunum þakkarorð og lagði út frá orðum Egils Ólafssonar um að ekki væri allt sjálfgefið í lífinu. Hún tilkynnti um handverkssýningu, sem eldri borgarar á Djúpavogi stæðu fyrir síðar í dag. Bað hún síðan höfuðpaur Hammondhátíðar Djúpavogs frá upphafi, Svavar Sigurðsson að koma upp og þiggja verðskuldað klapp frá viðstöddum. Þriðji helzti máttarstólpi hátíðarinnar frá upphafi hefur verið Þórir Stefánsson á Hótel Framtíð. Framlag þeirra þriggja verður seint fullþakkað. Aðrir með þeim í stjórn, ýmist allan tímann eða stóran hluta hans hafa verið Hrönn Jónsdóttir og Kristján Ingimarsson og gildir hið sama um þau. Annálsritari hefur verið viðloðandi stjórnunarstörf, en aðallega séð um myndatökur og verið nokkuð virkur í misgáfulegum skrifum um hátíðina, sem – sé alla vega hinu torskilda efni sleppt – hafa sögulegt gildi, ekki sízt myndirnar, sem hann og aðrir, einkum Andrés Skúlason hafa tekið.

Ljóst er að breytingar eru framundan hvað varðar stjórn og undirbúning Hammond hátíðar Djúpavogs. Öll framangreind hafa ákveðið að draga sig í hlé úr framvarðarsveitinni og eru fyrir því ýmsar ástæður, m.a. brottflutningur Svavars frá landinu. Hlíf og hennar maki eru að flytja á Stöðvarfjörð í haust og þeim og öðrum finnst rétt að hleypa nýju blóði í æðar þessa mikilvæga slagverks, en allir eru tilbúnir að aðstoða við atriði, sem kunna þarf skil á og þurfa að geta gengið upp svo vel sé til framtíðar litið. Megi þeim, er við taka, m.a. öðlast að tryggja viðvarandi trú þeirra sem úthluta styrkum til menningarmála til hátíðar af þessu tagi, að ekki sé talað um þá fjölmörgu, sem styrkt hafa hana undanfarin ár. Það er ekki sjálfgefið að reka svona hátíð í lengd og bráð „réttu megin við núllið og vel það“, en það hefur aldrei verið tap á henni þessi ár, þótt fyrsta árið þyrfti reyndar til að koma fjármagn í formi styrkjar frá nokkrum velunnurum hennar svo endar næðu saman. Þessi árangur hefur náðst m.a. á grundvelli eftirtalinna staðreynda:

a)      Svavar Sigurðsson þekkir marga afburða tónlistarmenn eða hefur haft aðgang að þeim með vinskap í gegnum Halldór Bragason (verið einn af Vinum Dóra). Ljóst er að menn hafa náð stórgóðum tónlistarmönnum hingað í gegnum þessi sambönd og nánast alltaf gegn mjög sanngjörnum greiðslum. Svo er komið að það er mörgum háklassa tónlistarmönnum keppikefli að „fá“ að spila á Hammondhátíð Djúpavogs. Svavar á því mikinn heiður af því að hrinda úr vör og laða að sér góða samstarfsmenn.

b)      Eigendur Hótels Framtíðar hafa alla tíð styrkt hátíðina með gistingu og fæði fyrir alla listamennina, án nokkurrar greiðslu. Í því sambandi er vert að þakka þeim Þóri og Guðrúnu Önnu fyrir mikinn metnað og var annálsritari mjög stoltur af því að sjá hve vel var staðið að framreiðslu og öllum aðbúnaði nú, ekki síður en undanfarin ár.

c)       Hátíðin var svo heppin að fá strax að fjármálunum Hlíf B. Herbjörnsdóttur, sem að öðrum ólöstuðum hefur haldið afburða vel á þeim þætti og nýtur mikillar virðingar hjá flytjendum og öðrum, sem að verkefninu hafa komið. Hefur allt staðið sem stafur á bók í þeim efnum og hátíðin þar með fengið það orðspor að ekki þurfi að bíða eftir greiðslum í óvissu. Þessi árangur hefur náðst á þann hátt að nánast öll vinna við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar hefur verið í sjálfboðavinnu. Fórnfýsi og sjálfboðavinna hefur því raun verið „master lykillinn“ að velgengninni.

d)      Jón Ægir Ingimundarson, sem féll frá s.l. haust, og félagar hans í hljómsveitinni hér á staðnum hafa stutt hátíðina tryggilega, m.a. með því að lána hljóðfæri og spara þar með heil mikinn flutningskostnað. Auk þess annaðist Jón Ægir tæknistjórn fyrstu árin. Hans þáttar í verkefninu voru gerð ágæt skil í minningarorðum, sem flutt voru í upphafi hátíðarinnar nú.

e)      Eftir því sem hátíðinni hefur vaxið fiskur um hrygg fjárhagslega hefur verið leitað dýrari og þar með flottari lausna til að tryggja sem beztan hljómflutning og lýsingu. Bæði nú og fyrr hafa verið þar sannir fagmenn á ferð og er þeirra bæði getið við umfjöllun um 1. kvöldið nú og eins í umfjöllun vegna einstakra ára á sérstakri heimasíðu hátíðarinnar.

f)       Djúpavogshreppur studdi strax í upphafi vel við hátíðina og gerir enn. Þáttur Bryndísar Reynisdóttur og Ólafs Björnssonar er þó sýnu mestur í því sambandi.

g)      Fyrirtæki á staðnum og reyndar víðar, hafa stutt hátíðina á ýmsan hátt, ýmist með því að veita umtalsverða afslætti eða með beinum fjárframlögum.

h)      Og síðast, en ekki sízt hafið þið, sem þetta kunnið að lesa, alla vega mörg ykkar, að sjálfsögðu lagt ykkar af mörkum með því að mæta og veita þannig hátíðinni sjálfri og flytjendum hverju sinni byr undir báða vængi.

En fyrir alla, sem þetta kunna að lesa og hafa metnað fyrir hönd hátíðarinnar, set ég hér í lokin brýningu frá vini mínum, Stefáni Bragasyni á Egilsstöðum, sem ég bað um að meitla í 4 línur það sem að ég held að við getum öll verið sammála um að sé samasemmerkið á milli byggðarlagsins og tónlistarhátíðarinnar. Djúpivogur hefur vissulega fóstrað hana og nafn byggðarlagsins kemur að sama skapi oftar upp í huga fjölmargra góðra gesta okkar sem áhugaverður menningarstaður í tilverunni. Stefán, eins og margir aðrir, hefur tekið ástfóstri við staðinn og verið tíður gestur á undanförnum hátíðum og mætti að sjálfsögðu einnig á þá sjöundu. Hann orðar þetta svona:

Enn í hlustum ómurinn
er frá brimsins sogi.
Hammond orgelhljómurinn
hæfir Djúpavogi.

Megi orðspor Hammondhátíðar Djúpavogs halda áfram að aukast.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG
Myndir: AS