Djúpavogshreppur
A A

Fjórði í Hammond 2011

Fjórði í Hammond 2011

Fjórði í Hammond 2011

skrifaði 17.05.2011 - 14:05

Í BLJÚGRI BÆN ÞÖKKUM VÉR HÁTÍÐARSTUNDINA Í DJÚPAVOGSKIRKJU

Tónlistaratburðir þeirra ára, sem hluti af Hammond hátíðinni hefur farið fram í kirkjunni okkar á Djúpavogi hafa orðið mörgum minnisstæðir og aðsókn jafnan góð. Um 140 manns voru í kirkjunni þennan sunnudag og fjöldi aðkomufólks. Verður samt hér og nú sérstaklega að þakka Hornfirðingum dugnað þeirra við að sækja einstaka atburði hátíðarinnar, en einnig mátti sjá mörg kunnugleg andlit og m.a. árvissa vorboða frá Akranesi og víðar að.
Það var vel til fundið að ljúka hátíð ársins 2011 á ljúfum nótum í Djúpavogskirkju, en þar er hljómburðurinn frábær, einn sá bezti hér eystra og jafnvel þótt víðar væri leitað.
Ekki var heldur kastað til höndum í vali flytjenda eins og nú greinir frá:
Fyrri hluti tónleikanna var á vegum „heimamanna“, þar sem að Jószef Bela Kiss og eiginkona hans, Andrea eru starfandi tónlistarkennarar á Djúpavogi. Þau eru að ljúka sínu 3ja starfsári hér . Með þeim í för var Guðlaug Hestnes frá Hornafirði, en þessa geðþekku og fáguðu tónlistarkonu má alveg telja með heimamönnum hér m.a. vegna hins góða og vaxandi samstarfs sem hún og Jószef hafa komið á. Hann er hámenntaður söngvari og var vissulega mest áberandi í tónlistaratriðum þeirra (bæði á velli og með hvellandi söng).

Fyrst á efnisskránni var Largo úr óperunni Xerxes eftir Händel. Þar lék Andrea ofurblítt undir á fiðlu (eina lagið sem hún tók þátt í að þessu sinni), ásamt Guðlaugu, sem fór fimum fingrum um píanóið.
Að því búnu fylgdi arían Pieta Signore eftir Stradella, sem Jószef flutti af „svölum“ kirkjunnar við undirleik Guðlaugar.
Því næst kom Santa Lucia, Neapolitanskt sönglag (frá Ítalíu) og má segja að salurinn hafi sprungið af hrifningu þegar söngvarinn renndi sér fyrirhafnarlaust upp undir á háa C-ið. Síðan kom Sumarkveðja eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson við texta Páls Ólafssonar. Var það eina íslenzka lagið að þessu sinni og er ótrúlegt hve góðum framburði söngvarinn er búinn að ná. Uppklappslagið var Aría Alfreds úr óperunni La Traviata eftir Verdi og var greinilegt að salurinn vildi fá að heyra meira, en því miður gekk það ekki eftir.

Í stuttu máli má segja, að framganga „tríósins“ hafi verið slík að hún ein og sér réttlætti fyllilega mætingu á atburðinn, sem þó hefði talizt í styttra lagi hefði ekki meira fylgt á eftir. Undirstrika verður hve það er sérhverju byggðarlagi mikilvægt að hafa af að státa jafn góðu og fórnfúsu tónlistarfólki og hin framangreind eru öll þrjú.  T.d. verður framlag Guðlaugar Hestnes til tónlistarlífs á Suð-Austurlandi seint fullþakkað, en hún hefur starfað að tónlistarmálum í sinni heimabyggð í áratugi.

En þetta var bara byrjunin.

Nú stigu á pall hjónin Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson, sem bæði eru landsþekktir tónlistarmenn. Og hvílík framganga, bæði í söng, undirleik, látlausum og umfram allt einlægum kynningum beggja, einkum þó Ellenar. Má jafnvel segja að hún hafi virkað sem þaulvanur predikari og sýnt jákvæðni á flestum sviðum, þótt örlítið bæri á að henni eins og fleirum tónlistarmönnum væri í nöp við Tónlistarhúsið Hörpu. Lögin komu á færibandi, flest blíð og ljúf og hentuðu svo einkar vel stað og stund, sem var glögg sönnun þess, hvílíkur heimsviðburður uppfinning Hammond orgelsins var og hver guðsgjöf það er og hefur verið fyrir söfnuði víða um lönd, sem ekki hafa pláss eða peninga fyrir pípuorgelunum (með allri virðingu fyrir þeim). Píanóið var þó á sínum stað og færði Eyþór sig á milli hljóðfæra og notaði jafnvel þau bæði í tilfellum í einu og sama laginu.

Fyrsta lagið var „Ómissandi fólk“ eftir Magnús Eiríksson, þann mikla snilling. Síðar á efnisskránni komu lög ME; „Lifði og dó í Reykjavík“ og „Elska þig“ (en í þeim spilaði Eyþór undir á píanóið með bravúr). Snemma á efnisskránni var sálmurinn „Heyr himnasmiður“ við texta Hallgríms Péturssonar og síðar kom annar  sálmur við texta sálmaskáldsins. Ellen flutti tvö lög eftir sig og hið fyrra af diskinum „Let me be there“, mjög áheyrilegt og henni tókst að fá salinn til að raula undir hið angurblíða viðlag. Síðar kom „Draumey“ – lag hennar við texta Sjón, ákaflega gott og vel flutt. Jón Múli átti sinn sess í dagskránni og m.a. „djassaði“  Eyþór á píanóið þekktasta verk Múlans, Vikivaki, sem maður fær aldrei skilið af hverju hefur ekki hlotið þann eilífa tónlistarlega sess sem því ber á heimsvísu – svo frábært sem það er. Ekki skemmdi flutningurinn fyrir, þótt ákveðinn galsi væri yfir hinum geðþekka tónlistarmanni, sem reyndar var klæddur eins og enskur sjentilmaður á refaveiðum í skozku hálöndunum (eða klipptur út úr „brezkum blúnduþætti í sjónvarpinu“ með sögusviði kringum miðja nítjándu öld). Tvö lög þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona fylgdu á eftir og ekki má gleyma lagi bróður Ellenar, KK, Angel (I think of Angels), sem flutt var af miklum virðuleik, sem því hæfir. Ellen er dökkhærð en flutningur hennar á lagi Emils Thoroddsen við texta Jóns Thoroddsen „Litfríð og ljóshærð“ gæti eins átt við um hana sjálfa, hæfilega handsmáa en þó einkum hýreyga.
Eins og margir sem hingað koma virðast þau hafa fallið fyrir Djúpavogi og Ellen kvaðst í kynningum sínum vel getað hugsað sér að eiga hús á staðnum. Vonandi gengur það eftir en eitt er víst að þeirra bíður tónlistarhús hérna og tryggir aðdáendur, því öruggt má telja að tónleikar með þeim myndu laða að sér enn fleiri áheyrendur en þarna voru.
Hafi þau og allir sem stóðu að framangreindum tónleikum kæra þökk fyrir.

Um kl. 15:45 flutti uppfinningamaðurinn Svavar Sigurðsson lokáavarp vegna sjöttu Hammondhátíðar Djúpavogs og þakkaði öllum þeim, sem komu henni á laggirnar og hafa stutt frá upphafi. Nefndi hann sérstaklega Menningarráð Austurlands í því sambandi, að ógleymdum þeim fjölmörgu, sem hátíðina sækja og skapa því í raun endanlegan grunn undir hana. Einnig þakkaði hann Tónleikafélagi Djúpavogs fyrir ómetanlegt framlag, bæði í formi spilamennsku, lán á hljóðfærum og aðstoð fjölmarga þætti hátíðarinnar. Þá þakkaði stjórn Tónlistarfélags Djúpavogs, sem hefur verið bakland hátíðarinnar frá upphafi og gat sérstaklega aðhaldssemi gjaldkera félagsins, Hlífar Herbjörnsdóttur, sem hann taldi ómetanlega. Að lokum gaf Svavar sterklega í skyn að fyrir næstu hátíð yrði búið að kaupa notað Hammond  orgel (framleiðslu þeirra er fyrir löngu hætt) og ekki yrði ráðist á garðinn þar sem hann væri lægstur, því stefnan hefði verið sett á B3 gerðina af hljóðfærinu. Vonum við svo sannarlega að þetta gangi eftir.

Að þessu búnu bauð hann gestum til kaffisamsætis, á vegum Kvenfélagsins Vöku, sem var framlag þess til hátíðarinnar og munar um minna.

bhg

Við annálsritarar þökkum engum fyrir nema tónlistarmönnunum – það er okkar hlutverk að fylgjast með framgöngu þeirra og þeir ullu okkur svo sannarlega ekki vonbrigðum í maí 2011.

Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason.

ób / bhg

Í bljúgri bæn þökkum vér hátíðarstundina í Djúpavogskirkju.

 

Tónlistaratburðir þeirra ára, sem hluti af Hammond hátíðinni hefur farið fram í kirkjunni okkar á Djúpavogi hafa orðið mörgum minnisstæðir og aðsókn jafnan góð. Um 140 manns voru í kirkjunni þennan sunnudag og fjöldi aðkomufólks. Verður samt hér og nú sérstaklega að þakka Hornfirðingum dugnað þeirra við að sækja einstaka atburði hátíðarinnar, en einnig mátti sjá mörg kunnugleg andlit og m.a. árvissa vorboða frá Akranesi og víðar að.

Það var vel til fundið að ljúka hátíð ársins 2011 á ljúfum nótum í Djúpavogskirkju, en þar er hljómburðurinn frábær, einn sá bezti hér eystra og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Ekki var heldur kastað til höndum í vali flytjenda eins og nú greinir frá:

Fyrri hluti tónleikanna var á vegum „heimamanna“, þar sem að Jószef Bela Kiss og eiginkona hans, Andrea eru starfandi tónlistarkennarar á Djúpavogi. Þau eru að ljúka sínu 3ja starfsári hér . Með þeim í för var Guðlaug Hestnes frá Hornafirði, en þessa geðþekku og fáguðu tónlistarkonu má alveg telja með heimamönnum hér m.a. vegna hins góða og vaxandi samstarfs sem hún og Jószef hafa komið á. Hann er hámenntaður söngvari og var vissulega mest áberandi í tónlistaratriðum þeirra (bæði á velli og með hvellandi söng).

Fyrst á efnisskránni var Largo úr óperunni Xerxes eftir Händel. Þar lék Andrea ofurblítt undir á fiðlu (eina lagið sem hún tók þátt í að þessu sinni), ásamt Guðlaugu, sem fór fimum fingrum um píanóið.

Að því búnu fylgdi arían Pieta Signore eftir Stradella, sem Jószef flutti af „svölum“ kirkjunnar við undirleik Guðlaugar.

Því næst kom Santa Lucia, Neapolitanskt sönglag (frá Ítalíu) og má segja að salurinn hafi sprungið af hrifningu þegar söngvarinn renndi sér fyrirhafnarlaust upp undir á háa C-ið.

Síðan kom Sumarkveðja eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson við texta Páls Ólafssonar. Var það eina íslenzka lagið að þessu sinni og er ótrúlegt hve góðum framburði söngvarinn er búinn að ná.

Uppklappslagið var Aría Alfreds úr óperunni La Traviata eftir Verdi og var greinilegt að salurinn vildi fá að heyra meira, en því miður gekk það ekki eftir.

Í stuttu máli má segja, að framganga „tríósins“ hafi verið slík að hún ein og sér réttlætti fyllilega mætingu á atburðinn, sem þó hefði talizt í styttra lagi hefði ekki meira fylgt á eftir. Undirstrika verður hve það er sérhverju byggðarlagi mikilvægt að hafa af að státa jafn góðu og fórnfúsu tónlistarfólki og hin framangreind eru öll þrjú.  T.d. verður framlag Guðlaugar Hestnes til tónlistarlífs á Suð-Austurlandi seint fullþakkað, en hún hefur starfað að tónlistarmálum í sinni heimabyggð í áratugi.

 

En þetta var bara byrjunin.

Nú stigu á pall hjónin Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson, sem bæði eru landsþekktir tónlistarmenn. Og hvílík framganga, bæði í söng, undirleik, látlausum og umfram allt einlægum kynningum beggja, einkum þó Ellenar. Má jafnvel segja að hún hafi virkað sem þaulvanur predikari og sýnt jákvæðni á flestum sviðum, þótt örlítið bæri á að henni eins og fleirum tónlistarmönnum væri í nöp við Tónlistarhúsið Hörpu. Lögin komu á færibandi, flest blíð og ljúf og hentuðu svo einkar vel stað og stund, sem var glögg sönnun þess, hvílíkur heimsviðburður uppfinning Hammond orgelsins var og hver guðsgjöf það er og hefur verið fyrir söfnuði víða um lönd, sem ekki hafa pláss eða peninga fyrir pípuorgelunum (með allri virðingu fyrir þeim). Píanóið var þó á sínum stað og færði Eyþór sig á milli hljóðfæra og notaði jafnvel þau bæði í tilfellum í einu og sama laginu.

Fyrsta lagið var „Ómissandi fólk“ eftir Magnús Eiríksson, þann mikla snilling. Síðar á efnisskránni komu lög ME; „Lifði og dó í Reykjavík“ og „Elska þig“ (en í þeim spilaði Eyþór undir á píanóið með bravúr). Snemma á efnisskránni var sálmurinn „Heyr himnasmiður“ við texta Hallgríms Péturssonar og síðar kom annar  sálmur við texta sálmaskáldsins. Ellen flutti tvö lög eftir sig og hið fyrra af diskinum „Let me be there“, mjög áheyrilegt og henni tókst að fá salinn til að raula undir hið angurblíða viðlag. Síðar kom „Draumey“ – lag hennar við texta Sjón, ákaflega gott og vel flutt. Jón Múli átti sinn sess í dagskránni og m.a. „djassaði“  Eyþór á píanóið þekktasta verk Múlans, Vikivaki, sem maður fær aldrei skilið af hverju hefur ekki hlotið þann eilífa tónlistarlega sess sem því ber á heimsvísu – svo frábært sem það er. Ekki skemmdi flutningurinn fyrir, þótt ákveðinn galsi væri yfir hinum geðþekka tónlistarmanni, sem reyndar var klæddur eins og enskur sjentilmaður á refaveiðum í skozku hálöndunum (eða klipptur út úr „brezkum blúnduþætti í sjónvarpinu“ með sögusviði kringum miðja nítjándu öld). Tvö lög þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona fylgdu á eftir og ekki má gleyma lagi bróður Ellenar, KK, Angel (I think of Angels), sem flutt var af miklum virðuleik, sem því hæfir. Ellen er dökkhærð en flutningur hennar á lagi Emils Thoroddsen við texta Jóns Thoroddsen „Litfríð og ljóshærð“ gæti eins átt við um hana sjálfa, hæfilega handsmáa en þó einkum hýreyga.

Eins og margir sem hingað koma virðast þau hafa fallið fyrir Djúpavogi og Ellen kvaðst í kynningum sínum vel getað hugsað sér að eiga hús á staðnum. Vonandi gengur það eftir en eitt er víst að þeirra bíður tónlistarhús hérna og tryggir aðdáendur, því öruggt má telja að tónleikar með þeim myndu laða að sér enn fleiri áheyrendur en þarna voru.

Hafi þau og allir sem stóðu að framangreindum tónleikum kæra þökk fyrir.

 

Um kl. 15:45 flutti uppfinningamaðurinn Svavar Sigurðsson lokáavarp vegna sjöttu Hammondhátíðar Djúpavogs og þakkaði öllum þeim, sem komu henni á laggirnar og hafa stutt frá upphafi. Nefndi hann sérstaklega Menningarráð Austurlands í því sambandi, að ógleymdum þeim fjölmörgu, sem hátíðina sækja og skapa því í raun endanlegan grunn undir hana. Einnig þakkaði hann Tónleikafélagi Djúpavogs fyrir ómetanlegt framlag, bæði í formi spilamennsku, lán á hljóðfærum og aðstoð fjölmarga þætti hátíðarinnar. Þá þakkaði stjórn Tónlistarfélags Djúpavogs, sem hefur verið bakland hátíðarinnar frá upphafi og gat sérstaklega aðhaldssemi gjaldkera félagsins, Hlífar Herbjörnsdóttur, sem hann taldi ómetanlega. Að lokum gaf Svavar sterklega í skyn að fyrir næstu hátíð yrði búið að kaupa notað Hammond  orgel (framleiðslu þeirra er fyrir löngu hætt) og ekki yrði ráðist á garðinn þar sem hann væri lægstur, því stefnan hefði verið sett á B3 gerðina af hljóðfærinu. Vonum við svo sannarlega að þetta gangi eftir.

 

Að þessu búnu bauð hann gestum til kaffisamsætis, á vegum Kvenfélagsins Vöku, sem var framlag þess til hátíðarinnar og munar um minna.

 

 

bhg

 

Við annálsritarar þökkum engum fyrir nema tónlistarmönnunum – það er okkar hlutverk að fylgjast með framgöngu þeirra og þeir ullu okkur svo sannarlega ekki vonbrigðum í maí 2011.

 

ób / bhg