Djúpavogshreppur
A A

Djúpivogur 3D

Djúpivogur 3D
Cittaslow

Djúpivogur 3D

Andrés Skúlason skrifaði 15.05.2018 - 21:05

Ánægjulegur íbúafundur um deiliskipulag á miðbæjarsvæði Djúpavogs var haldinn sl. föstudag en verkefnið sem ber heitið „Íbúar í forgrunni“ er farið að taka á sig heildstæða mynd. TGJ sem annast hefur skipulagsmál sveitarfélagsins um langt árabil, hefur haft umsjón með skipulagsgerðinni í samstarfi með form. og fulltrúum skipulagsnefndar Djúpavogshrepps sem og sveitarstjórn. Ljóst að sú nálgun sem sett hefur verið á oddinn er að skila sannfærandi niðurstöðu. Segja má með sanni að almenn ánægja hafi verið meðal fundarmanna / íbúana með þá framtíðarsýn sem dregin var upp á fundinum fyrir miðbæjarsvæðið á Djúpavogi.

Óhætt er að segja að nýstárlegt skref hafi verið stigið í framhaldi af fundinum en þá var kynnt fyrsta útgáfa af Djúpavogi í þrívídd, en um er að ræða tölvulíkan af miðbæjarsvæðinu sem hægt er að upplifa í gagnvirkum, tölvugerðum sýndarveruleika. Djúpavogshreppur er fyrsta sveitarfélagið sem færir sér sýndarveruleika í nyt við þróun skipulags með þessum hætti. Um er að ræða samstarfsverkefni Djúpavogshrepps, Tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík og TGJ, en verkefnið er hluti af stærra rannsóknarverkefni innan HR sem ber heitið „Cities that Sustain Us“.

Um 60 -70 manns prófuðu sýndarveruleikann að loknum íbúafundi og mæltist hann í stuttu máli afar vel fyrir. Ljóst er að fólk upplifir umhverfi í sýndarveruleika mjög sterkt og fær raunsanna tilfinningu fyrir því sem verið er að leggja fram, jafnvel þó ýmislegt sé óunnið í þróun þess umhverfis sem skipulagið nær til. Þessi sýndarveruleikatækni er bylting við gerð skipulags því með henni þarf ekki að einskorða framtíðarhugmyndir við lestur og rýningu korta á blaði, heldur upplifa svæðið eins og viðkomandi væri á staðnum. Með þessu nýja verkfæri skapast miklir möguleikar til rannsókna og úttekta á þeim hugmyndum sem uppi eru, áður en endanleg áform eru samþykkt og þeim fylgt eftir. Þannig er um leið hægt að lágmarka skipulagsmistök sem annars geta reynst mjög dýrkeypt fyrir sveitarfélög.

Páll Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði og fulltrúi TGJ á fundinum á mikinn heiður skilið fyrir framsýni við skipulagsgerð hér á svæðinu í samvinnu við sveitarfélagið og íbúa og þetta nýja verkfæri er sönnun þess hvernig hægt er að hugsa út fyrir kassann þegar kemur að jafn flóknum og viðamiklum málum og skipulagsmálum.

Sjón er sannarlega sögu ríkari í sýndarveruleika.

Meðfylgjandi má sjá myndir af fundinum,úr sýndarveruleika og svo einnig skissur frá ýmsum tímum í vinnuferlinu

Andrés Skúlason form. skipulagsnefndar


Íbúafundur deiliskipulag á miðsvæði Djúpavogs haldinn á Hótel Framtíð - Drög að deiliskipulagstillögunni kynnt

Skissur í skipulagsferlinu - teiknað af Henning Kipper arkitektPáll Jakob Líndal frá skipulagsskrifstofu TGJ fer yfir stöðu deiliskipulags á miðbæjarsvæði á íbúafundinum


Fjölmiðlar áhugasamir um sýndarveruleikann
Drög að tillögu í deiliskipulagi heimfærð í sýndarveruleika - m.a. hús með skírskotun í Suðurkaupsstað svo og upplifunarbryggjupallur framan við Hótelið, nýtt bílastæði Við Voginn og á Bjargstúni - á myndina vantar garð og útivistarreit ofan við Suðurkaupsstað sem tillaga er gerð um á uppdrætti - ath. stærðir / hlutföll mannvirkja skal taka með fyrirvara.


Gaman í sýndarveruleika


Úr sýndarveruleika - horft af Brennukletti


Börnin voru ekki síður mjög áhugasöm að skoða sýndarveruleikann


Hönnuðir sýndarveruleika frá Tölvunardeild Háskólans í ReykjavíkMiðsvæði Djúpavogs - f.v. ráðhúsið Geysir, Langabúð og Faktorshús - skemmtiferðaskip á firðinum