Djúpivogur
A A

Djúpavogsþrautin þyngri

Djúpavogsþrautin þyngri

Djúpavogsþrautin þyngri

skrifaði 22.11.2010 - 07:11

Djúpavogsþrautin þyngri stóð yfir á Dögum myrkurs 2010. Þrautin gekk út á það að svara einni spurningu sem var lögð fyrir á hverjum stað en á blaðinu var einnig vísa sem átti að leiða þátttakendur yfir á næsta stað. Spurningarnar voru á mismunandi stöðum í þorpinu, allt eftir því hvar viðburðir voru haldinn í tengslum við Daga myrkurs.

Fyrsta gátan var afhent á árshátíð grunnskólans á Hótel Framtíð föstudaginn 5. nóvember og sú síðasta afhent í Hagleikssmiðjunni Arfleifð laugardaginn 13. nóvember. Á sunnudeginum 14. nóvember var Djúpavogsþrautin þyngri leyst í Löngubúðinni þar sem þátttakendur fengu afhent sérstakt svarblað og dregið var úr réttum svörum.

Hér fyrir neðan má sjá spurningarnar sem voru lagðar voru fyrir þátttakendur og vísuna frá hverjum stað. Einnig hafa svörin verð sett inn til gamans.

1. Árshátíð Grunnskóla Djúpavogs

Gáta: Nefnið þá tvo menn er sagðir eru hafa numið land í Berufirði?
Svar: Þjóðrekur og Björn Hávi

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Ef vantar fóður, fisk og kjamma
skaltu strax þangað þramma
Þar er mjólk, matur og vín
Garnið grátt og fötin fín


2. Samkaup Strax Djúpavogi

Gáta: Við bæinn Skála í Berufirði er nefndur draugur einn, hvert er nafn hans?
Svar: Skála – Brandur
    
Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Sandormarnir næra leppalúða,
er langar þitt í kakó, sykurpúða.
Hreinan þrömmum við brátt saman sandinn
seint mun fara allt í bál og brandinn.


3. Myrkrafjöruferð


Gáta: Hvað hétu bræðurnir þrír er námu samnefndar eyjar úti fyrir Hamarsfirði?
Svar: Úlfur, Eskill og Hrómundur

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....
    
Eldabuskur þar við puða potta
við pöntun taka, grilla og saman hræra.
Kynjaverur út um góma glotta
og gott af hefðu billjardinn að læra.


4. Við Voginn

Gáta: Hvað hét maður Beru?
Svar: Sóti
    
Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Þar lestu bækur, skoðar margar myndir,
magnaða um drauga og þeirra syndir.
og þegar yfir rennur rökkrið dimma
sig ræskir frú og les úr vofukrimma.


5. Bókasafn Djúpavogs

Gáta:  Tröllskessur tvær eru taldar hafa átt heima í Álftafirði. Nefnið aðra af þeim?
Svar: Fluga og Rannveig

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Þar er hátíð bæði svalls og sviða
svo ef ferðu, þarftu að kaupa miða.
Þarna gengur Siggi Már um sali
og súrsar tunnu í litla og stóra hvali.

6. Hótel Framtíð

Gáta: Hverjir eru sagðir dysjaðir í Hamarsfirði?
Svar: Djákninn á Hamri og Presturinn á Hálsi
    
Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Viltu klæðast brussa sem og bykkja
best er gríma ljót og jafnvel skykkja.
Svo er  Sambúð kjörið í að kjaga
í kjól, með hatt og allt of stóran maga.


7. Sambúð – grímugerð

Gáta: Hvar er skútinn sem Álfheiður faldi sig þegar Tyrkirnir rændu og rupluðu á Djúpavogi?
Svar: Í Hálsaskógi

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Farðu í göngu og enn í afturgöngu
með afturgöngu veifar tré þú röngu.
Ef að kjarkinn flestir fara að missa
Faðirvorið gerir vofur hissa.

8. Hálsaskógur - Faðirvorahlaup

Gáta: Hversu oft fór Stefán Jónsson með faðirvorið á leið sinni frá Teigarhorni út á Djúpavog?
Svar: Þrisvar

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Í kjallaranum heyrast kynleg öskur
kona vinnur skraut þar, föt og töskur.
Köngulærnar kjaga um á skjánun
svo krakkarnir þau læðast bara á tánum.


9. Hagleikssmiðjan Arfleifð

Gáta: Sagan segir okkur frá landnámsmönnum tveimur er námu land á Geithellum í Álftafirði. Nefnið annan af þeim ?
Svar:Ingólfur og Hjörleifur

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Langi þig að hitta löngu dauða ?
labbaðu þá út í húsið rauða.
Herramaður hæðinni á sveimar
sem hefur gleymt að binda á skónum reimar.

10. Djúpavogsþrautin þyngri leyst í Löngubúðinni

Tveir þátttakendur voru dregnir út og hlutu að launum vegleg verðalun.

Alls skiluðu 16 lið inn svörum í pottinn og var fjöldi þátttakenda úr þessum 16 liðum alls 47 manns, sem er hin glæsilegasta þátttaka.

Tveir heppnir þáttakendur voru dregnir út; Bjarni Tristan Vilbergsson og fjölskyda hlutu í verðlaun pizzuveislu á Hótel Framtíð og Íris Antonía og Drífa Ragnarsdóttur hlutu að verðlaun fjölskylduhamborgaratilboð í Við Voginn. Svo skemmtilega vildi til að Íris var valin af handahófi til þess að draga úr pottinum og dró hún sig og ömmu sína út.

Undirrituð vill þakka öllum keppendum fyrir þátttökuna og fagnar því hversu margir tóku þátt.

Hótel Framtíð og Við Voginn fá einnig bestu þakkir fyrir að gefa vinninga í leikinn.

Ferða  - og menningarmálafulltrúi