Djúpavogshreppur
A A

Djúpavogsskóli hlýtur veglegan styrk úr Sprotasjóði

Djúpavogsskóli hlýtur veglegan styrk úr Sprotasjóði
Cittaslow

Djúpavogsskóli hlýtur veglegan styrk úr Sprotasjóði

Ólafur Björnsson skrifaði 27.04.2020 - 14:04

Á dögunum barst Djúpavogsskóla bréf frá Sprotasjóði þess efnis að skólinn hefði fengið styrk að upphæð 4.500.000 kr. í verkefnið Heimsmarkmiða Bootcamp smiðjur. Um er að ræða samstarfsverkefni skólanna í nýju sameinuðu sveitarfélagi en Djúpavogsskóli sótti um styrkinn í samvinnu við skólana og Helgu Guðmundsdóttur fræðslustjóra.

Við óskum Djúpavogsskóla og hinum skólunum innilega til hamingju með þennan veglega styrk en hér að neðan má lesa nánar um hvað verkefnið snýst.

--

Heimsmarkmiða „BOOTCAMP“ leiðir nemendur á unglingastigi í gegnum ferli skapandi hugsunar og lausnaleitar í hugmyndavinnu tengdri heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Markmiðið er að nemendur fái tæifæri til þess að koma með hugmyndir um hvernig alþjóðasamfélagið, þeirra nærsamfélag og þau sjálf geti lagt sitt að mörkum til að vinna að þeim heimsmarkmiðum sem tekin eru til umfjöllunar í hverju Heimsmarkmiða “Bootcamp”-i.

Hvað er BOOTCAMP smiðja?

Talað er um BOOTCAMP þegar hópur fólks kemur saman í stuttan tíma til að takast á við krefjandi verkefni til að leysa. Þar sem reynir á samvinnu, útsjónarsemi og úthald.

Gert er ráð fyrir að verklagið í hverri smiðju verði eitthvað á þessa leið:

1. Rannsókn á því hvað felst í umræddu heimsmarkiði og völdum undirmarkmiðum þess.
2. Greina hvernig heimsmarkmiðið tengist alþjóðavettvangi og nærsamfélagi.
3. Greining á því hvert vandamálið er sem þarf að leysa, eða hvað það er sem þarf að efla eða þróa.
4. Mótun hugmynda að lausnum.
5. Kynning á hugmyndum og endurgjöf frá hinum hópunum og aðilum úr samfélaginu sem boðið er á kynningar til að hlusta og gefa góð ráð.
6. Gera drög að áætlun um hvernig þau ætla að vinna í sínu samfélagi til að uppfylla heimsmarkmiðið.

Til hvers er styrkurinn?

Sótt er um styrk til þess að þróa og framkvæma heimsmarkmiða BOOTCAMP fyrir nemendahópa á unglingastigi í 6 skólum í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi sem enn hefur ekki fengið nafn. Sveitarfélagið er lang landmesta sveitarfélag landsins, fjarlægðir á milli skóla miklar og aðstæður á hverjum stað ólíkar. Allir skólarnir hafa með einum eða öðrum hætti í stefnu sinni áherslur sem falla

að einhverju heimsmarkmiðanna, og því er afar nærtækt að styrkja samstarf þeirra í upphafi í verkefni sem byggir með beinum hætti á völdum heimsmarkmiðum. Það er ein af forsendum öflugs samstarfs skóla í svo víðfeðmu sveitarfélagi að þróa markvissa nýtingu upplýsingatækni til samstarfs, bæði meðal starfsfólks og nemenda og verkefnið er liður í þeirri þróun.

Um er að ræða 5 BOOTCAMP smiðjur sem hver fjallar um eitt af eftirtöldum fimm heimsmarkmiðum:

3. Heilsa og vellíðan.
Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.

4. Menntun fyrir alla.
Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi

11. Sjálfbærar borgir og samfélög.
Gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær.

12. Ábyrg neysla og framleiðsla.
Stuðla að því að sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur verði tryggð.

13. Aðgerðir í loftlagsmálum.
Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.

Loka BOOTCAMP smiðjan er samantekt hinna smiðjanna og lokahnykkur í verkefninu, þar sem verðlaun verða veitt fyrir bestu hugmyndirnar.

Unnið verður markvisst að því að tengja aðila í nærsamfélaginu við vinnuna í BOOTCAMP smiðjunum og sérstaklega í lokasmiðjunni.

Hópur kennara frá öllum skólunum tekur að sér að móta heimsmarkmiða BOOTCAMP smiðjurnar og halda utan um skipulag og framkvæmd.

Hver smiðja tekur heilan kennsludag auk ferða til og frá skólum innan sveitarfélagsins. Boðið er upp á mat yfir daginn fyrir þátttakendur og loka partý fyrir nemendur eftir hvert BOOTCAMP, enda félagsleg styrking mikilvægur þáttur í verkefninu.

Verkþættir:

  • Þróun heimsmarkmiða BOOTCAMP smiðja.
  • Tengja námslegt innihald við hæfnviðmið og lykilhæfni í aðalnámskrá grunnskóla
  • Móta matsaðferðir og viðmið
  • Handbók fyrir þá sem stýra smiðjunum
  • Framkvæma sex miðjur á tímabilinu
  • Mat á árangri
  • Skrif lokaskýrslu.

Væntur árangur verkefnis

Verkefnið er mikilvægur liður í þeirri hugarfarsmótun sem nýtt sveitarfélag kallar á. Auk þess gefur verkefnið tækifæri til að þróa og æfa samstarf bæði kennara, stjórnenda og nemenda með aðstoð upplýsingatækninnar. Þannig er gert ráð fyrir að hluti undirbúnings og úrvinnslu bæði kennara og nemenda verði samvinna með stuðningi upplýsingatækninnar og þau fái þar tækifæri til að þjálfa slíka vinnu. Þannig er þess vænst að að nemendur og kennarar fái tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og síðast en ekki síst er gert ráð fyrir að verkefnið efli hæfni nemenda í nýskapandi hugsun í tengslum við raunveruleg verkefni tengd heimsmarkmiðunum. Þar sem um er að ræða ólíka skóla, suma fámenna skapar verkefnið mikilvæg tækifæri fyrir nemendur til þess að stunda félagslíf með jafnöldrum.