Djúpavogshreppur
A A

Djúpavogshreppur hlýtur 3,8 millj. kr. styrk

Djúpavogshreppur hlýtur 3,8 millj. kr. styrk

Djúpavogshreppur hlýtur 3,8 millj. kr. styrk

skrifaði 31.03.2016 - 11:03

Djúpavogshreppur hlýtur styrk að verðmæti 3,8 milljóna króna úr Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða fyrir eflingu gönguferðamennsku í Djúpavogshreppi.

Þarna kemur sterkt inn að Djúpavogshreppur er í Cittaslow þar sem áhersla er lögð á að bæta aðgengi að náttúru og gera fólki auðveldara fyrir að njóta hennar. Gönguferðamennska er "slow" ferðamennska, umhverfisvæn og þarna gerum við út að fá hingað þá ferðamenn sem við kjósum okkur: fólk sem stalrar lengur við og gefur sér tíma til að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Verkefnið er á höndum Djúpavogshrepps, en unnið í samstarfi við Ferðafélag Djúpavogs, fuglaáhugafélagið birds.is og staðkunnuga dreift um sveitir Djúpavogshrepps. T.d. hefur verið haldinn fundur um endurútgáfu gönguleiðakorts fyrir svæðið og kallað eftir tillögum um breytingar. Einnig hefur verið unnið ötullega að því undanfarið að leiðrétta staðsetningu örnefna á gönguleiðakortinu frá 2008. Þeim sem hafa komið að þeirri vinnu er hér með þakkað kærlega fyrir framlag sitt. Sérstakar þakkir fær Skúli Benediktsson fyrir einstaklega mikla hjálp.

 

Um verkefnið

Ár frá ári eykst gönguferðamennska í Djúpavogshreppi, en nokkur ár eru síðan unnið var markvisst að því að efla göngumenningu í sveitarfélaginu. Nú er svo komið að upplýsingum og þjónustu við þessa ferðamenn er orðið nokkuð ábótavant þar sem kominn er tími á almennt viðhald og endurbætur. Verkefnið snýr því að eftirfarandi þáttum sem allir lúta að því efla á ný gönguferðamennsku í heild á svæðinu:

  • Nauðsynlegt er að fara í nokkrar endurbætur á gönguleiðakorti sem gefið var út 2008. Þá viljum við auka öryggi ferðamannsins enn frekar með því að kynna safetravel.is á kortinu. Hafþór Snjólfur Helgason, landfræðingur og Austfirðingur, sem unnið hefur flest gönguleiðakort á Austurlandi mun taka að sér endurbætur á kortinu.
  • Ráðist verður í það verk að endurstikaða gönguleiðir. Skipta þarf út skemmdum stikum á stikuðum leiðum og stika leiðir sem áður voru óstikaðar. Þetta er mjög mikilvægur hluti verkefnisins, enda leiða stikur göngufólk um örugg vöð yfir ár og stig um klettabelti.
  • Merkingar munu verða settar upp við upphaf/enda gönguleiða göngufólki til upplýsingar. Þær hefur alfarið skort og það valdið óánægju og óöryggi hjá göngufólki. Komið verður fyrir korti af gönguleiðinni sem um ræðir á hverjum stað (tekið upp úr nýja gönguleiðakortinu) ásamt ýmsum upplýsingum um gönguleiðina á íslensku og ensku: áætlaðan tíma sem hún tekur, vegalend og hækkun.
  • Endurbætur verða gerðar á upplýsinga- og fræðsluskiltum sem standa á gönguleiðum sem liggja um fuglaskoðunarsvæðið á Búlandsnesi. Skipta þarf út eldri skiltum auk þess að reisa ný.  Skiltin munu fræða göngufólk um leiðirnar, ýmsar fuglategundir, sögur og sagnir af svæðinu.

Markmið verkefnisins er að styrkja svæðið sem viðkomustað ferðamanna, bæta aðgengi og öryggi þeirra sem ferðast fótgangandi um svæðið, auka upplýsingagjöf til þeirra og þar með ánægju og upplifun.

 

Umsögnin um umsóknina var eftirfarandi:

Vel unnið verkefni sem tengist annari uppbyggingu sjálfbærrar ferðamennsku í Djúpavogshreppi. Auk þess styrkir verkefnið öryggi með stikun og uppsetningu skilta.

 

Fréttin á vef Ferðamálastofu.

 

Ferða- og menningarmálafulltrúi fyrir hönd Ferða- og menningarmálanefndar