Djúpivogur
A A

Djúpavogshreppur fær málverk eftir Finn Jónsson að gjöf

Djúpavogshreppur fær málverk eftir Finn Jónsson að gjöf

Djúpavogshreppur fær málverk eftir Finn Jónsson að gjöf

skrifaði 31.08.2010 - 12:08

Síðastliðinn föstudag fékk Djúpavogshreppur höfðinglega gjöf frá ættingjum Þórhalls Sigtryggsonar en um er að ræða málverk eftir listamanninn Finn Jónsson frá Strýtu. Málverkið er hið glæsilegasta og sýnir Búlandstindinn, Löngubúð, Faktorshúsið og önnur hús við höfnina sem nú eru horfin. Það voru dætur Þórhalls, Hulda og Nanna Þórhallsdætur, sem afhentu sveitarstjóranum málverkið.

Þórhallur Sigtryggsson var ráðinn fyrsti kaupfélagsstjóri Kaupfélags Berufjarðar árið 1920  en þar áður hafði hann verið verslunarstjóri hjá Ørum & Wulff og hafði starfað þar frá árinu 1913. Þórhallur var auk þess oddviti Geithellnahrepps um árabil. Þórhallur var fæddur 4.janúar 1885 á Vestdalseyri við Seyðisfjörð. Foreldar hans voru Sigtryggur Sigtryggsson verkamaður og kona hans Anna Vigfúsdóttir. Kona Þórhalls var Kristbjörg Sveinsdóttir frá Fagradal í Vopnafirði. Þórhallur flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Djúpavogi árið 1937 á Húsavík til þess að taka við starfi kaupfélagsstjóra hjá Kaupfélagi Þingeyinga.

Við færum aðstandendum Þórhalls okkar bestu þakkir fyrir þessa dýrmætu gjöf en þetta er fyrsta listaverkið sem Djúpavogshreppur eignast eftir hinn merka listamann Finn Jónsson.


Listaverkið kemur til með að prýða fundarherbergi Geysis og eru íbúar velkomnir þangað til þess að skoða.


Meðfylgjandi eru myndir frá því þegar sveitarstjóri veitti gjöfinni formlega viðtöku.

 

Garðar Garðarsson barnabarn Þórhalls Sigtryggsonar

Gauti sveitarstjóri tekur við málverkinu frá dætrum Þórhalls Sigtryggsonar

Sveitarstjóri ásamt dætrum Þórhalls

 

BR