Djúpivogur
A A

Djúpavogsdagurinn 2015

Djúpavogsdagurinn 2015

Djúpavogsdagurinn 2015

skrifaði 30.03.2015 - 14:03

Síðastliðinn laugardag var haldið upp á það í vorsólinni að framtíðin er björt í Djúpavogshreppi, nú þegar ár er liðið frá því að Vísir tilkynnti að fyrirtækið ætlaði að hætta rekstri á Djúpavogi.

Dagurinn var nefndur Djúpavogsdagurinn og haldinn hátíðlegur á Hótel Framtíð, en Djúpavogshreppur bauð öllum íbúum sveitarfélagsins upp á kaffi og með því í tilefni dagsins. Kvenfélagið Vaka og Hótel Framtíð sáu um þessar glæsilegu veitingar.

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri, stýrði stuttri og léttri dagskrá. Fram komu samsöngshópur grunnskólans, sem flutti Austurland með texta eftir Hrönn Jónsdóttur og Frjáls sem fuglinn með texta Björns Hafþórs Guðmundssonar. Þær Alexandra Jónsdóttir og Fanný Dröfn Emilsdóttir sem keppt hafa fyrir hönd grunnskólans í Stóru upplestrarkeppninni lásu upp ljóð og texta sem tengjast vorinu og Djúpavogshreppi. Einnig sýndi Andrés Skúlason, oddviti, brot af myndefni sem keypt var nú á dögunum af Þórarni Hávarðssyni frá ferð út í Papey 1995. Krakkarnir fengu allir blöðrur í litum sveitarfélagsins merktar textanum „Ég ÆTLA að búa á Djúpavogi“, sem tilvitnun í myndbandið sem búið var til og birt í kjölfar tilkynningar Vísis. DJ Dröfn stýrði krakkadiskói í kjallara hótelsins og Þórunn Amanda Þráinsdóttir og Fanný Dröfn sáu um andlitsmálun.

Dagurinn tókst einstaklega vel og mæting var góð.

Djúpavogshreppur þakkar íbúum kærlega fyrir daginn!

 

Myndir frá deginum má sjá með því að smella hér.

Texti: EDV
Myndir: ÓB