Djúpavogshreppur
A A

Dagur leikskólans

Dagur leikskólans

Dagur leikskólans

skrifaði 06.02.2013 - 10:02

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins 6. febrúar ár hvert. Þetta er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemi leikskóla út á við.

Í tilefni dagsins, sem nú verður haldinn í sjötta sinn, mun mennta- og menningarmálaráðherra veita þeim sem þótt hafa skarað fram úr og unnið ötullega í þágu leikskóla og/eða leikskólabarna viðurkenninguna Orðsporið 2013.
Félagsmenn í Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda leikskóla sendu inn tilnefningar til verðlaunanna til sérstakrar valnefndar. Hægt var að tilnefna einstakan leikskólakennara, kennarahóp, verkefni, leikskóla, leikskólastjóra, stefnumótun, skipulag, foreldrasamstarf, sérkennslu, forvarnir, sveitarfélag eða annað sem vel hefur verið gert og er til fyrirmyndar varðandi leikskólastarf og aðkomu að því. Valnefndin er skipuð fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Sambands Íslenskra Sveitarfélaga og Heimilis og skóla.

Allir sem koma að málefnum leikskólans á einn eða annan hátt eru hvattir til að halda degi leikskólans á lofti og fylgjast sérstaklega vel með starfsemi leikskóla þennan dag. Látum dag leikskólans verða okkur hvatning til að kynna okkur það mikilvæga starf sem þar fer fram.

Í verslun Samkaups-Strax á Djúpavogi má nú sjá sýningu af listaverkum sem nemendur hafa unnið að í vetur.  Við hvetjum alla til að leggja leið sína þangað og skoða þessi fallegu og skemmtilegu verkefnin.  Sýningin mun hanga uppi í nokkrar vikur.  HDH