DIO heiðurstónleikar í Valaskjálf

Laugardaginn 9. september fara fram heiðurs- og yfirlitstónleikar í Valaskjálf á 75 ára afmælisári Ronnie James Dio. Þar mun hljómsvetin First in leine leika lög Ronnie James Dio ásamt söngvurunum Stefáni Jakobssyni og Matthíasi Matthíassyni. Bassaleikari í hljómsveitinni er Djúpavogsbúinn Jens Albertsson.
Ronnie James Dio fæddist 10. júlí 1942 og dó 16. maí 2010. Hann stofnaði og fór fyrir nokkuð mörgum böndum á sínum ferli, meðal annars Elf, Rainbow, Black Sabbath, Dio og Heaven and hell. Hann var fljótt þekktur fyrir gríðarlega sterka og karaktermikla rödd sína og líflega sviðsframkomu. Dio gerði hin alþjóðlegu rokkhorn að einkenniskveðju allra rokkara.
Rödd hans er mjög einkennandi og auðþekkt. Textar Dio hafa sterka tengingu við ævintýri og fantasíur. Tónlistarferill Dio var mjög langur og farsæll og spannaði 53 ár. Plötur sem Dio söng inn á eru á þriðja tuginn. Við ætlum að heiðra þennan frábæra listamann með tónleikum í Valaskjálf laugardaginn 9. september.
Ágóðinn rennur til styrktar geðheilbrigðismála ungmenna á Austurlandi.
Tónleikarnir verða í tveimur hlutum sá fyrri verður stutt yfirlit yfir ferilinn og eftir hlé verður meistaraverkið Holy Diver flutt í heild sinni. Það er því ljóst að allir unnendur taktfasts rokks geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Tónleikarnir verða sem fyrr segir í flutningi hljómsveitarinnar The First In Line sem skipuð er:
Matthías Matthíasson - söngur
Stefán Jakobsson - söngur
Elísabet Arna Gunnlaugsdóttir - trommur
Pálmi Stefánsson - trommur
Jens Albertsson - bassi
Bergur Hallgrímsson - bassi
Ívar Andri Bjarnason - gítar
Friðrik Jónsson - gítar
Júlíus Óli Jacobsen - hljómborð
Við hvetjum Djúpavogsbúa til að mæta á þennan flotta viðburð, hlýða á frábæra rokkmúsík og styrkja frábært málefni í leiðinni.
ÓB