Cittaslow sunnudagurinn og Cittaslow heimsókn

Cittaslow sunnudagurinn 2017
Langabúð, 24. september, kl. 11:00-14:00.
Cittaslow sunnudagurinn er haldinn ár hvert síðasta sunnudag í september í öllum aðildarsveitarfélögum Cittaslow. Að þessu sinni verður þemað okkar matur og menning úr héraði.
Allir sem gera einhverja rétti að hluta eða öllu leyti úr hráefni héðan úr sveitarfélaginu (t.d. úr fisk, mjólk, sveppum, kjöti, berjum, grösum, rabbarbara eða kartöflum), vinna handverk úr hráefnum sem hér finnast (t.d. ull, steinum, beinum, hornum, skeljum og við), taka ljósmyndir, skrifa, mála eða gera annað með mat- eða menningu sem tengist Djúpavogshreppi, eða hráefnum héðan, eru endilega beðnir um að taka það með sér og deila með öðrum íbúum.
Félagasamtök, sem og fyrirtæki sem starfa í anda Cittaslow, eru auk þess hvött vera með kynningar og flott væri að hafa vöru sem unnin er úr hráefnum úr Djúpavogshreppi til sölu.
Nokkrir punktar sem varða skipulag dagsins:
- Langabúð verður opin frá kl. 10:00 fyrir þá sem vilja mæta fyrr og koma sér fyrir áður en húsið opnar formlega.
- Reiknað er með því að vera með hlaðborð fyrir matvöru en einnig er hægt að fá sér borð. Miðar verða á staðnum þannig að hægt er að merkja hvern rétt. Þá væri gaman að taka með sér nokkur eintök af uppskriftum, sé það eitthvað sem áhugi er fyrir að dreifa til áhugasamra.
- Gaman væri að hafa bæði handverk og handavinnu til sýnis, þ.e. hvort um sig lokaafurðir og verk sem verið væri að vinna á staðnum sem hægt er að sjá og dást að – útskurð, prjón, vefnað eða enn annað.
- Ljósmyndarar eða myndlistarmenn geta bæði sýnt verk sín og verið að vinna að verkum í Löngubúð.
- Stefnt er að því að einhver lifandi dagskrá verði í boði á heila tímanum (kl. 12:00 og 13:00). Þá verður hljóðnemi til taks fyrir þá sem vilja taka í hann, hvort sem er til að taka lagið eða lesa upp sögur, kvæði eða annað.
- Þeir og þær sem eiga íslenska búninga eru hvött til að koma í þeim.
- Veitt verða verðlaun í lok dags til barns í flottasta Cittaslow sniglabúningnum!
Óskað er eftir því að fólk skrái sig hjá Ferða- og menningarmálafulltrúa, Erlu Dóru (s. 859-0345 eða með því að senda póst á erla@djupivogur.is) og taki þá fram hvort þörf sé á vegg, borði, hljóðnema, skjávarpa eða hverju sem er.
Þátttaka er auðvitað ókeypis og öllum opin. Leikurinn er til þess gerður að skemmta okkur saman!
Cittaslow heimsókn
Á sama tíma og Cittaslow sunnudagurinn verður haldinn hátíðlegur hjá okkur verða í heimsókn á Djúpavogi 10 gestir frá Cittaslow bæjarfélögum á Ítalíu og Belgíu vegna samvinnu við innleiðingu Cittaslow (22.-27. sept.) og vegna stofnunar Cittaslow Education (25. sept.). Þessum gestum mun að sjálfsögðu einnig verða boðið að koma á Cittaslow sunnudaginn okkar og það verður gaman að geta boðið þeim upp á mat og menningu af svæðinu meðan við njótum sjálf.
Í tengslum við heimsóknina hefur Nelita Vasconcellos verið svo yndisleg að bjóða íbúum upp á ókeypis, létta og skemmtilega ítölskukennslu í Við Voginn á kvöldin kl. 20:00-21:00 alla virka daga þar til gestir okkar koma, þ.e. 13.-15. september og 18.-21. september.
Íbúar eru hvattir til að skreyta hús sín eða garða í appelsínugulum lit til að halda upp á heimsóknina. Passa þarf þó í haustveðrum að ekki sé um skraut að ræða sem fýkur auðveldlega eða rignir niður, sem og að plast er ef til vill ekki heppilegast í plastlausum september og umhverfisvænu sveitarfélagi.
Gestirnir okkar koma til Djúpavogs seint föstudagskvöldið 22. sept. (líklega milli 22:00 og 24:00 – nákvæm tímasetning verður auglýst sama kvöld á vefsíðu Djúpavogshrepps, þegar vitað er hvenær von er á þeim) og er þá hugmyndin að allir sem vilja taka á móti þeim safnist saman í Löngubúð þar sem þau verða boðin velkomin með léttum veitingum úr héraði áður en þau fara heim með þeim sem hafa verið svo elskulegir að bjóðast til að hýsa þau á meðan heimsókn þeirra stendur yfir.
Við hvetjum íbúa til að bjóða þessa gesti okkar sérstaklega velkomna til Djúpavogshrepps.