Djúpivogur
A A

Berunes hlýtur verðlaunin Kletturinn 2010

Berunes hlýtur verðlaunin Kletturinn 2010

Berunes hlýtur verðlaunin Kletturinn 2010

skrifaði 19.04.2010 - 16:04

Á aðalfundi Markaðsstofu Austurlands sem haldinn var á Gistiheimilinu á Egilsstöðum þann 17. apríl sl. veitti Markaðsstofa Austurlands þeim aðilum verðlaun sem skarað hafa fram úr á liðnu ári. Við erum stolt að segja frá því að Farfuglaheimilið Berunes hlaut í ár verðlaunin KLETTURINN 2010.

Kletturinn er viðurkenning sem  veitt þeim aðilum sem um árabil hafa staðið sem klettur í framlínu ferðaþjónustu á Austurlandi og með ósérhlífni og eljusemi stuðlað að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar.

Ferðaþjónusta er til þess að gera ung atvinnugrein á Íslandi. Hjónin í Berunesi hófu sinn rekstur  árið 1973, árið áður en hringvegurinn opnaði. Uppbyggingin einkenndist af þolinmæði og þrautseigju. Árin liðu og alltaf fjölgaði þeim sem báðust gistingar enda barst orðspor Beruness um víða veröld. Sá orðstír sem fer af staðnum er besta auglýsing sem hugast getur en gestrisni og vingjarnlegt viðmót hjónanna í Berunesi hefur ratað víða.  Árið 2008 fékk Berunes silfursætið á heimslista sem mælir ánægjugesta. Og á síðasta ári var staðurinn í öðru sæti á Evrópulistanum samkvæmt ánægjuvog á internetinu.  Þetta er árangur sem fáir ef nokkrir íslenskir gististaðir geta státað af en grundvallast á eljusemi og gestrisni hjónanna á Berunesi.

Þau hjónin Anna Antoníusdóttir og Ólafur Eggertsson hljóta Klettinn árið 2010 fyrir að reka eitt albesta farfuglaheimili í heimi og fyrir hafa staðið í framlínu ferðaþjónustu í hátt í 40 ár öðrum til fyrirmyndar.

Hér má sjá umfjöllun Markaðsstofu Austurlands og lista yfir fyrri verðlaunahafa og einnig umfjöllun um þann aðila sem hlaut verðlaunin FRUMKVÖÐULINN en í ár féllu verðlaunin í skaut Ferðaþjónustunnar á Skálanesi.

Gaman er að segja frá því að þetta er í annað árið í röð sem ferðaþjónustuaðilar á Djúpavogi hljóta verðlaun á Aðalfundi Markaðsstofu Austurlands en í fyrra fékk verkefnið Birds.is frumkvöðlaverðlaunin.

Við óskum þeim hjónum Ólafi Eggertssyni og Önnu Antoníusdóttur innilega til hamingju með verðlaunin og óskum þeim velfarnaðar á komandi sumri.

BR