Djúpivogur
A A

Aðeins af Prins Póló

Aðeins af Prins Póló

Aðeins af Prins Póló

skrifaði 19.12.2014 - 17:12

Við höfum áður fjallað um velgengni Karlsstaðabóndans Svavars Péturs Eysteinsson, en eins og flestir vita semur hann tónlist undir nafninu Prins Póló. Í vor, stuttu eftir að hann flutti með fjölskyldu sinni að Karlsstöðum í Berufirði, gaf hann út sína aðra hljóðversplötu, Sorrí, sem hefur fengið frábærar viðtökur og lög á borð við Tipp topp, Hamstra sjarma og Bragðarefir notið mikilla vinsælda. Í sumar kom svo út lagið París norðursins úr samnefndri kvikmynd sem frumsýnd var í byrjun september, en óhætt er að fullyrða að það sé eitt af vinsælustu lögum ársins. Í lok sumars varð svo til vísir að "útihátíð" á Karlsstöðum þegar Prinsinn og frú efndu til Bulsudiskós sem heppnaðist sérstaklega vel. Hver veit nema það verði að árlegum viðburði?

Eins og áður sagði hefur Sorrí fengið frábæra dóma hjá poppskríbentum og meðal annars valdi Dr. Gunni hana nýverið plötu ársins. Tónlistin úr París norðursins rataði einnig á þann lista og lenti í 20. sæti. Þá var titilinn Sorrí valinn sá besti af álitsgjöfum Fréttablaðsins.

Í byrjun desember gáfu Prins Póló og Baggalútur síðan út jólalag sem fékk nafnið Kalt á toppnum og hefur notið mikilla vinsælda. Í tilefni þess tók Prinsinn lagið með þeim á nokkrum tónleikum í hinni rómuðu jólatónleikaröð Baggalúts.

Það hefur semsagt verið mikið að gera hjá Prinsinum í desember og í kvöld fara fram tónleikar í Iðnó undir yfirskriftinni Prins Póló og vinir (hafa einnig verið kynntir sem Jólamessa Prins Póló). Það má sjálfsagt treysta því að stemmningin verði gífurleg í henni Reykjavík í kvöld. 

Við látum svo fylgja með hér að neðan upptöku KEXP frá tónleikum Prins Póló sem fóru fram á Kex Hostel og voru liður í Iceland Airwaves.

Einnig er hér ítarlegt viðtal við Prinsinn sem Ólafur Páll Gunnarsson tók við hann í fyrradag í Popplandi á Rás 2.

Við óskum Svavari til hamingju með velgengnina.

ÓB