Djúpivogur
A A

Að lokinni frumsýningu - heimildarmynd Hans Jónatan

Að lokinni frumsýningu - heimildarmynd Hans Jónatan

Að lokinni frumsýningu - heimildarmynd Hans Jónatan

skrifaði 20.04.2017 - 21:04

Í gærkvöldi var frumsýnd heimildamynd um Hans Jónatan í viðburðasal Havarí á Berufjarðarströnd.  Myndin er byggð á bók Gísla Pálssonar " Maðurinn sem stal sjálfum sér" og fjallar sem kunnugt er um sögu hins þeldökka þræls sem lauk mjög svo viðburðaríku lífshlaupi sínu hér á Djúpavogi. Hans Jónatan hvílir hér í Hálskirkjugarði og er minnisvarði / bautasteinn þar sem honum var reistur til heiðurs af afkomendum á síðasta ári.  Skemmst er  frá að segja að heimildamyndin hlaut einróma lof viðstaddra en hún er unnin af Valdimar Leifssyni og konu hans Bryndísi Kristjánsdóttur af einstakri næmni fyrir viðfangsefninu.  Valdimar og Bryndís voru að sjálfsögðu viðstödd frumsýninguna ásamt höfundi bókarinnar Gísla Pálssyni sem hefur af öðrum ólöstuðum lagt mest af mörkum með útgáfu sinni og margra ára rannsóknarvinnu. Þá var einnig með í för Helgi Már Reynisson einn af afkomendum Hans Jónatan en Helgi hefur reynst heilladrjúgur í stuðningi við þetta verkefni. Sýningin var vel sótt, eða um 80 gestir og þar af voru mættir afkomendur Hans Jónatan bæði héðan frá Djúpavogi, Stöðvarfirði og Seyðisfirði.  Að lokinni sýningu voru Gísli, Valdimar, Bryndís og Helgi heiðruð með sérstökum hætti undir dúndrandi lófaklappi. Þá að því loknu voru allir afkomendur Hans Jónatan sem mættir voru til að njóta þessarar merku heimildarmyndar kallaðir á svið og hópurinn myndaður sem sjá má hér meðfylgjandi með umfjöllun.

Við þessi tímamót að lokinni frumsýningu á þessari einstöku heimildarmynd er full ástæða til að þakka sérstaklega framangreindum aðilum sem hafa endurvakið nafn Hans Jónatans með jafn áhrifaríkum hætti og raun ber vitni. Ljóst er að sagan af Hans Jónatan hefur nú verið römmuð svo vel inn að hún mun standa hér ljóslifandi á Djúpavogi um ókomna framtíð og er sagan í máli og myndum sannarlega kærkomin viðbót við þann mikla menningarf sem við höfum á að byggja.  

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                      Samantekt AS  

 

 

 

 

 

 

 

              Heiðruð að lokinni sýningu -  Gísli Pálsson - Valdimar Leifsson - Bryndís Kristjánsdóttir og Helgi Már Reynisson 

 

  Með afkomendum Hans Jónatan sem mættu á sýninguna 

 

Helgi Már Reynisson 

Valdimar Leifsson 

 

 Gísli Pálsson 

Valdimar og Bryndís