Djúpivogur
A A

Að lokinni 5. Hammondhátíð Djúpavogs

Að lokinni 5. Hammondhátíð Djúpavogs

Að lokinni 5. Hammondhátíð Djúpavogs

skrifaði 29.04.2010 - 18:04

Eftifarandi bréf barst okkur frá Stefáni Bragasyni á Egilsstöðum sem er dyggur aðdáandi Hammondhátíðar:

Það verður að teljast frábært framtak hjá ekki fjölmennara samfélagi en er í Djúpavogshreppi, að hafa nú í 5 ár haldið úti öflugri tónlistarhátíð sem staðið hefur í 3 - 4 daga hvert sinn. Frumkvöðlinum Svavari Sigurðssyni, í félagi við Dóra Braga og fleiri,  hefur  tekist að fá til liðs við sig marga helstu blúsara og tónlistarmenn landsins og alltaf er boðið upp á flott atriði.  Einnig er mikilvægt að tónlistarfólk af Austurlandi hefur þarna fengið tækifæri að stíga á stokk og blanda geði og tónum við “sérfræðingana að sunnan”. Heimamenn hafa líka verið duglegir að koma fram og spila og hafa oftar en ekki haldið uppi fjörinu fyrsta kvöldið í Hammond. Þetta er flott tækifæri fyrir áhugasama spilara til að sýna sig og sanna og auka færni og metnað í tónlistarflutningi.

Svona hátíð verður seint haldin nema með samstilltu átaki margra  og mikilli sjálfboðavinnu fleiri eða færri áhugasamra Djúpavogsbúa.  Það þarf ótrúlega útsjónarsemi til að láta enda ná saman fjárhagslega, því ekki kostar svo lítið að flytja tónlistarfólkið á staðinn, greiða því umsamin laun, auk þess að hýsa það og fæða.  Þetta hefur tekist í góðri samvinnu við Þóri vert á Hótel Framtíð og fleira gott fólk.

Hammondhátíðin er líka einn þáttur í öflugu markaðsstarfi í menningar- og ferðamálum, sem vel er unnið að á Djúpavogi og er að skila sér í fjölgun ferðamanna og ýmsu fleiru spennandi.

Aðsóknin hefur farið batnandi og virðist sem nágrannarnir séu farnir að átta sig á hátíðinni og meta hana að verðleikum. Þó mættu þeir vera enn duglegri að mæta og eiga góðar stundir í Framtíðinni.  Ekki ætti verðið að fæla mikið frá, því passinn fyrir þrjú kvöld kostaði 6.500 krónur, sem er svona ígildi einnar flösku af sterku víni.  Áhrifin af tónlistinni þessi þrjú kvöld eru þó mun ánægjulegri, vara lengur og valda litlum sem engum höfuðverk daginn eftir.

Nú þegar er eflaust farið að hugsa um 6. Hammondhátíðina og horfa til skemmtikrafta sem geta þar þanið þetta virta hljóðfæri. Hammond orgelið hefur verið í forgrunni hátíðarinnar og mikill fengur væri fyrir hana að til væri einn slíkur gæðagripur á staðnum. Nú þarf því að safna liði og fjármunum og reyna að finna gott eintak til að bjóða Hammondsjúkum spilurum að taka til kostanna.

Etv. eigum við eftir að sjá þar frægar popphetjur síðustu aldar eins og Jon Lord, Keith Emerson eða Ken Hensley setjast við hljóðfærið og rifja upp gamla takta. Eða þá James Last Orchestra með Hammond A Go Go, eða hvað það nú hét allt saman. Hver veit !
    
Hvort sem af því verður eða ekki, má alla vega hrópa ferfallt húrra fyrir Djúpavogsbúum fyrir þetta ágæta framtak.

Stefán S. Bragason

--

Stefán er hagmæltur með eindæmum og sendi okkur einnig þessa vísu. Í henni baunar hann miskunnarlaust á blókirnar (alla vega tvær þeirra) sem vinna á skrifstofu Djúpavogshrepps.

Hammond er liðinn og Hafþór því ruslar í moðinu.
Hrappurinn Óli, sem ríflega skálaði í boðinu,
byltist nú veikur – bölvandi tónlistargoðinu,
en Bryndís á myndunum aldeilis fín er í roðinu.

SSB

ÓB