Djúpivogur
A A

Aðalvefur

Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva - fyrri hluti

Í morgun var gerð Eurovision-könnun hjá nemendum í 3. til 10. bekk (40 nemendur alls) í Djúpavogsskóla. Könnunin snérist um það hvaða 10 lög væru líklegust til þess að komast áfram í fyrri undankeppninni í kvöld (þann 10 maí). Nemendur hlýddu á part úr hverju lagi fyrir sig og skráðu hjá sér niðurstöður sínar. Mikil stemmning var í hópnum og sungið hástöfum með laginu hennar Grétu Salóme.

Eftirfarandi lög telja nemendur að muni komast áfram í keppninni í kvöld. Það verður gaman að sjá hversu sannspá við erum í Djúpavogsskóla.

Síðast en ekki síst:
Áfram Ísland!!!

 

Ísland (Hlaut 28 stig)

Azerbaijan (Hlaut 28 stig)

Rússland (Hlaut 28 stig)

Cyprus (Hlaut 26 stig)

Moldova (Hlaut 24 stig)

Finland (Hlaut 23 stig)

Malta (Hlaut 23 stig)

Armenia (Hlaut 18 stig)

Hungary (Hlaut 17 stig)

Croatia (Hlaut 15 stig)

 

 

 

UMJ

Auglýst eftir starfsmanni í afleysingar á upplýsingamiðstöð

Starfið felst í meginatriðum í afgreiðslu á upplýsingamiðstöð, þ.e. að leiðbeina og svara spurningum ferðamanna sem sækja Djúpavogshrepp heim 1-2 daga í viku eftir samkomulagi. Þrif upplýsingamiðstöðvar kæmu einnig í hluta starfsmanna þá daga sem og önnur tilfallandi verkefni.

Ráðningartími er 15. maí – 15. september.

Upplýsingamiðstöðin verður opin kl. 9:00-17:00 alla virka daga og 10:00-16:00 um helgar.

Umsækjandi þarf að vera 18 ára eða eldri, geta talað og lesið ensku og þekkja Djúpavogshrepp, eða vera tilbúinn til að kynna sér staðhætti og annað til að geta leiðbeint ferðamönnum.

 

Umsóknir berist á skrifstofu sveitarfélagsins eða á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is

 

Nánari upplýsingar í síma 470-8701.

Gauti Jóhannesson

Sveitarstjóri

10.05.2016

Sveitarstjórn: Fundarboð 12.05.2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 12.05.2016

23. fundur 2010-2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 12. maí 2016 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.


Dagskrá:


1. Fjárhagsleg málefni

a) Ársreikningur Djúpavogshrepps 2015 – síðari umræða.
b) Lántökur

2. Fundargerðir

a) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 6. apríl 2016.
b) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 18. apríl 2016.
c) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 18. apríl 2016.
d) Stjórn SSA, dags. 19. apríl 2016.
e) Samráðshópur um Neistavöll, dags. 20. apríl 2016.
f) Landbúnaðarnefnd, dags. 20. apríl 2016.
g) Hafnasamband Íslands, dags. 29. apríl 2016.
h) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags 29. apríl 2016.
i) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 4. maí 2016.
j) Starfshópur um húsnæðismál, dags. 7. maí 2016.

3. Erindi og bréf

a) Forsætisráðuneyti, tjón vegna óveðurs, dags. 18. apríl 2016.
b) Byggðastofnun, Samkomulag um aukna byggðafestu á Djúpavogi - drög, dags. 19. apríl 2016.
c) Hafnasamband Íslands, ársreikningur 2015, dags 19. apríl 2016.
d) Samband ísl. sveitarfélaga, viljayfirlýsing, dags. 19. apríl 2016.
e) Starfa, ársreikningur, dags. 23. apríl 2016.
f) Flugfélag Austurlands, stofnun flugfélags með bækistöðvar á Austurlandi, dags. 26. apríl 2016
g) Kambaklettur ehf., umsókn um nýtt gistileyfi í flokki II, dags. 28. apríl 2016.
h) Kerhamrar ehf., umsókn um nýtt gistileyfi í flokki III, dags. 28. apríl 2016.
i) Samband ísl. sveitarfélaga, Vinna við landsáætlun um uppbyggingu innviða, tengiliður, dags. 2. maí 2016.
j) Vegagerðin, tilkynning um niðurfellingu Starmýrarvegar nr. 9695-01 af vegaskrá, dags. 3. maí 2016.
k) Grafít ehf., styrkbeiðni vegna virknisskoðunar á gæðakerfi, dags. 9. maí 2016.
l) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, ársreikningur, dags 9. maí 2016.

4. Skammtímaleiga íbúðarhúsnæðis á Djúpavogi
5. Umhverfis- og viðhaldsmál í sveitarfélaginu
6. Sala eigna
7. Skýrsla sveitarstjóra

 

Djúpavogi 9. maí 2016
Sveitarstjóri

09.05.2016

Bæjarlífið febrúar 2016

Bæjarlífspakki febrúarmánaðar er klár, aðeins íburðarmeiri en sá í janúar en meðal efnis er snjór og sandur, hús og híbýli auk hefðbundins fíflagangs.

Hægt er að skoða safnið með því að smella hér.

ÓB

09.05.2016

Bæjarlífið janúar 2016

Nú erum við að vinna við að setja inn bæjarlífssyrpur síðustu mánaða.

Hér er janúarmánuður. Kannski ekki margar myndir, enda yfirleitt frekar rólegt fyrir janúarmánuði. Við sjáum þó múltítaskandi afa, kíkjum á Rauðakrossmarkað og stöldrum svolítið við í Berufirði.

Hægt er að skoða myndirnar með því að smella hér.

ÓB

09.05.2016

Þór Vigfússon - myndlistasýning 6. maí - 4. júní 2016

Djúpavogsbúinn Þór Vigfússon myndlistamaður og þúsundþjalasmiður er okkur að góðu kunnur  en hann stendur nú fyrir myndlistasýningu í i8 Gallery.  Tryggvagötu 16 101 Reykjavík.

Myndlist er því eðli og töfrum gædd að geta verið í senn einföld og flókin, öll á yfirborðinu og um leið marglaga í dýpt og tengingum. Hvort sem um er að ræða samsettan symbólisma, flóknar hugmyndalegar eða sögulegar tengingar eða berstrípaðan mínimalisma er það samt alltaf svo að skynjunin fer fram í auga þess sem á horfir. Undir hælinn er lagt hvort orðin sem oft fylgja bæti einhverju við myndlistina eða þvælist bara fyrir.

List Þórs Vigfússonar (f. 1954) er ekki ýkja flókin þó að oft sé tæknileg útfærsla hennar snúin og líflegur litaheimur verkanna láti augað hafa nóg að gera. Myndheimurinn er klipptur og skorinn. Hann er það sem hann er: litir og form. En litir og form eru engin smáatriði í myndlist, heldur sjálfur kjarninn, upphaf og endir alls þess sem við flokkum undir listgreinina. Leitin að samspilinu milli þessara grunnatriða er eilíf og að baki verkum Þórs skynjar maður sterka þrá eftir einhvers konar myndrænni lausn, þó líklega færist sú lausn sífellt fjær þegar listamaðurinn nálgast hana.

Með verkunum kviknar líka tilfinning fyrir handbragði, fyrir möguleikum vélanna sem skera og slípa til verkin eins og listamaðurinn vill hafa þau. Þór kemur af fjölskyldu iðnaðarmanna og er smiðsaugað næmt. Á ferðalögum hans eru það byggingarvöruverslanirnar sem heilla ekki síður en kræsileg gallerí. Þannig dregst listamaðurinn að litaprufum sem hann sankar að sér. Þær prufur eru síðan til stuðnings þegar hann hefur sjálfur blandað rétta litinn og þarf að veita upplýsingar um það hver lokaniðurstaðan á nákvæmlega að vera.

Litir eru flókið fyrirbæri. Þeir eru afstæðir og eiga sér í senn eðlis-, efna-, líf- og sálfræðilegar undrahliðar. Táknfræðileg og menningarbundin skoðun á litum og virkni þeirra opnar síðan enn aðrar lendur sem margir myndlistarmenn hafa verið uppteknir af og nýtt sér í verkum sínum. Í tilviki Þórs skipta slíkar tengingar ekki ýkja miklu og hann leiðir þær hjá sér vitandi vits. Augað veit hins vegar vel hvað það vill og innri virkni verkanna þarf að ganga upp fyrir listamanninum sjálfum.

Frammi fyrir verkum sem teygja sig marglit upp í loft í rýminu leitar hugurinn í átt að tveimur ólíkum öfgum, ef svo má segja, í myndlist Vesturlanda. Annars vegar kallar efnið sjálft, glerplöturnar, fram hugleiðingar um steint gler í gotneskum kirkjum þar sem lóðréttum ásum bygginganna var ætlað að beina hugum til himins og dagsljós að utan brá seiðmagnaðri birtu inn í rýmið. Í verki Þórs erum við hins vegar svipt gegnsæjum eiginleikum þessa töfraefnis, og liturinn er einfaldlega litarins vegna en ekki hugsaður vegna dulrænna tenginga. Hins vegar leitar hugurinn óneitanlega til ýmis konar naumhyggðar í myndlist um og eftir miðja síðustu öld sem birtist með ýmsum hætti í verkum manna á borð við Josef Albers, Barnett Newman og Donalds Judd. Í verkum sínum sver Þór sig í þennan ættbálk myndlistarmanna með sinni vafningalausu og beinskeyttu myndlist.  

Allar frekari upplýsingar veitir Auður Jörundsdóttir: 551 3666 / audur@i8.is

i8 Gallery  |  Tryggvagata 16  |  101 Reykjavík  |  Iceland

http://i8.is/artist/thor-vigfusson-2/selected-work/

 

 

 

 

09.05.2016

Húsnæðismál - fréttabréf frá sveitarstjórn - að gefnu tilefni

Umræða um húsnæðismál og skortur á íbúðarhúsnæði hefur verið ofarlega á baugi hér á Djúpavogi um nokkurt skeið 
og það er full ástæða að taka þau mál alvarlega.  Sveitarstjórn er vel meðvituð um stöðuna og hefur því verið með
húsnæðismálin til skoðunar í sérstökum starfshópi þar sem verið er að leita lausna á mörgum sviðum m.a. er varðar 
nýbyggingar, leigumarkaðinn og nýjar hugmyndir í skipulagi. Í þessum efnum er sérstaklega mikilvægt að huga að 
fjölbreyttum lausnum til framtíðar, ásamt því að reyna að bregðast við því álagi sem þegar er til staðar á 
húsnæðismarkaði.

Flest sveitarfélög í landinu eiga í vanda vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði er varðar nýbyggingar íbúðarhúsa og 
þá ekki síður eru miklir og vaxandi erfiðleikar hjá íbúum á almennum leigumarkaði m.a. vegna skammtímaútleigu 
á íbúðarhúsum til ferðamanna t.d. í gegnum markaðsfyrirtæki á netinu. 

Það má hverjum ljóst vera að hér á Djúpavogi vantar bæði nýbyggingar á íbúðarhúsnæði og þá ekki síður húsnæði 
á almennum leigumarkaði. Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á Djúpavogi er nú orðin viðvarandi allt árið og hún er 
umtalsverð. Óháð vinnu sveitarfélagsins í þessum efnum er full ástæða til að hvetja þá sem eiga þess kost að 
fara í nýbyggingar íbúðarhúsa. Sveitarfélagið vinnur nú að því að móta í hvaða formi ívilnanir frá sveitarfélaginu 
geta hugsanlega komið til varðandi nýbyggingar íbúðarhúsa í þéttbýlinu.  

Sveitarstjórn vill jafnframt leita allra leiða til koma í veg fyrir að íbúðabyggð þróist í átt til þess sem gerst hefur
nú þegar í of mörgum sveitarfélögum, þar sem að hluti skipulagðra íbúðahverfa hafa í raun breyst í
frístundabyggð/sumarhúsabyggð á skammtímaleigumarkaði. Afleiðingarnar af þessum breytingum eru víða að 
koma harkalega niður á þeim sem síst skyldi, fólki sem er sannarlega að leita að húsnæði til að dvelja og starfa 
til lengri tíma, fólki sem tekur þátt í samfélaginu og greiðir skatta og skyldur til þess.  Við þessar aðstæður vill 
sveitarstjórn vinsamlega hvetja þá einnig sem eiga íbúðarhús í þéttbýlinu á Djúpavogi sem ekkert eru nýtt allt árið
um kring að koma þeim í útleigu á almennum markaði í stað þess að láta þau standa tóm allt árið, engum til gagns.     

Nú þegar eru sveitarfélög farin að grípa til aðgerða til að spyrna við fótum svo að koma megi í veg fyrir byggðaröskun 
vegna stöðu á húsnæðismarkaði.  Sveitarstjórnin í Vík í Mýrdal hefur meðal annars tekið skref í átt til þess að verja 
stöðu þeirra sem vilja sannarlega búa á svæðinu. Þessi skref eru á svipuðum nótum og Djúpavoghreppur hefur verið
að huga að á liðnum vikum. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur einnig verið að vinna að breytingum í þessum málum. 
Víða eru nú þegar komin upp stórfelld vandmál og almenn óánægja meðal íbúa vegna útleigu á íbúðarhúsum til 
ferðamanna. Ágallar hafa reynst margir og ólíkir eftir aðstæðum og nægir að nefna að víða eru ekki næg bílastæði í
íbúðahverfum, auk þess hefur  hávaði og annað ónæði sem fylgir umferð gesta á öllum tímum sólarhrings valdið 
óánægju íbúa.  Hafa skal því í huga að í öllum meginatriðum eru íbúðahverfi skipulögð fyrir íbúa.  

Truflandi atvinnustarfsemi er því alls ekki æskileg í íbúðahverfum og það allra síst í Cittaslowbænum Djúpavogi þar
sem lífsgæði íbúana sjálfra eiga að vera sem mest í fyrirrúmi.  Að sama skapi viljum við sýna gestrisni og bjóða 
ferðamenn og aðra gesti velkomna til Djúpavogs til að njóta þeirrar þjónustu sem hér er upp á að bjóða í allri sinni 
mynd og þá er umferðarstýring, skynsamlegar reglur og upplýsingagjöf mikilvægur þáttur til að skapa sem besta 
sátt milli íbúa og þessarar mikilvægu atvinnugreinar sem ferðaþjónustan er, ekki síst hér á svæðinu.    

Varðandi ákvarðanir sem sveitarstjórn í Vík í Mýrdal hefur tekið og hafa verið mikið til umfjöllunar varðandi bann
við skammtímaleigu til gistingar í íbúðarhúsum skal taka fram að breytingar sem þessar þýða breytingar á aðalskipulagi.  
Á næstunni verða að óbreyttu boðaðar breytingar frá sveitarstjórn Djúpavogshrepps á svipuðum nótum og í Vík.
Jafnhliða verði stefnt á að setja ný viðmið er varðar heimagistingu þ.e. er varðar fjölda gesta. Heimagisting er m.a. 
bundin reglum um að þar dvelja gestir inn á heimilum fólks sem er annars eðlis en flokkur um gististaði í flokki II 
samkvæmt reglugerð þar sem heilar íbúðir eru leigðar út í flæðandi ferðamennsku til skemmri tíma.  

Húseigendur í þéttbýli Djúpavogs eru hinsvegar hvattir til að setja frekar íbúðarhúsnæði á almennan húsaleigumarkað 
til fólks sem sannarlega vantar húsnæði og vill hafa aðsetur og starfa á Djúpavogi, eftirspurnin er sannarlega til staðar. 
 Mikilvægt er að samfélagið sé samhent í að takast á við vaxtarverki af því tagi sem hér eru til umfjöllunar. 
Þrátt fyrir margvísleg erfið ytri skilyrði og stöðu sveitarsjóðs um þessar mundir skal að sama skapi fagna sérstaklega 
hve mikil eftirspurn er meðal fólks að flytja til Djúpavogs, það sýnir að við erum á réttri leið með jákvæðan viðsnúning
í íbúaþróun með ungu og kraftmiklu fólki og vöxt í nýjum og fjölbreyttum atvinnugreinum.

                                                  Með upplýstum sumarkveðjum til íbúa
                                                   Sveitarstjórn Djúpavogshrepps

                                                                                                                                                         
Víða er að finna umfjöllun um stöðu húsnæðismála á netinu, sjá hér örlítið sýnishorn til upplýsingar.  

http://www.visir.is/skammtimaleiga-ibudarhusnaedis-ekki-lengur-leyfd-i-vik/article/2016160509594

http://www.visir.is/skammtimaleiga-ibudarhusnaedis-ekki-lengur-leyfd-i-vik/article/2016160509594

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/04/skammtimaleiga_husnaedis_bonnud/

http://www.visir.is/vilja-ekki-folk-i-gamum/article/2016160509494

 


 

08.05.2016

Frá félagi eldri borgara

Fundur verður í félagi eldri borgara föstudaginn 6. maí kl. 14:00 í Tryggvabúð, félagsaðstöðu eldri borgara, Markarlandi 2.

Nýir félagar velkomnir.

Stjórnin

04.05.2016

Frá Djúpavogsskóla

Ég minni foreldra og aðra aðstandendur á að láta skólastjóra vita ef það eru fyrirhugaðar breytingar á skráningu nemenda í skólann á næsta skólaári.  Vinsamlegast hafið samband sem allra fyrst því skipulag vegna næsta skólaárs stendur nú sem hæst.

Skólastjóri

Spilakvöld í Löngubúð

4. maí kl 20:00

Miðvikudaginn 4. maí verður haldið spilakvöld í Löngubúð. Mörg spil verða á boðstólnum sem eiga það öll sameiginlegt að það er nokkuð auðvelt að læra þau, t.d. Ubongo, Sushi Go, Spyfall, Love Letter, Guillotine, Timeline, Ricochet Robots og nokkur fleiri.

Fyrirkomulagið verður þannig að fólk mætir og velur sér spil og byrjar að spila. Ef ekkert spil er valið verður fólki vísað á spil og spilafélaga. Ekki er nauðsyn að kunna þessi spil sem verða á boðstólnum þar sem „kennarar“ verða á staðnum og aðstoða. Barinn verður opinn og fólk getur einnig keypt sér súkkulaði og kaffi.

 

Sævar Þór

02.05.2016

Búið að opna Löngubúð

Sumaropnun Löngubúðar hefst snemma þetta árið, en við opnum í dag 2. maí.

 

Það verður opið kl. 10:00-16:00 alla daga fram að 16. maí, en þá byrjar hin hefðbundni sumaropnunartími.

 

Sumaropnun:

Sunnudaga - fimmtudaga kl. 10:00-18:00

Föstudaga - laugardaga 10:00 - 01:00

 

Verið velkomin

Rán

02.05.2016