Djúpavogshreppur
A A

Aðalvefur

Tvær nýjar heimasíður fyrirtækja á Djúpavogi úr smiðju Arctic Websites

Nú á dögunum hafa tvær nýjar heimasíður fyrirtækja í Djúpavogshreppi litið dagsins ljós, en hönnuður þeirra beggja er heimamaðurinn Skúli Andrésson. Fyrirtæki hans og Sigurðar Más Davíðssonar, sem einnig er heimamaður, Arctic Project, fór nýverið að taka að sér heimasíðugerð undir nafninu Arctic Websites.

Nú hafa Hótel Framtíð og Fiskmarkaður Djúpavogs nýtt sér þjónustu þeirra og er útkoman í báðum tilfellum mjög glæsileg.

Framleiðslufyrirtækið Arctic Project, sem er eins og áður sagði í eigu Sigga og Skúla, hefur verið að gera það mjög gott og meðal annars tekið að sér verkefni í stórmyndum á borð við Noah, Oblivion og Secret life of Walter Mitty.

Við hvetjum lesendur til að skoða nýju heimasíðurnar og kynna sér starfsemi Arctic Project og Arctic Websites, með því að smella á viðeigandi tengla hér að ofan. Við getum svo sannarlega verið stolt af því að eiga svona hæfileikaríka og frambærilega einstaklinga í okkar heimabyggð.

ÓB

 

Sigurður M'ar Davíðsson og Skúli Andrésson, eigendur Arctic Project
Sigurður Már Davíðsson og Skúli Andrésson

03.07.2015

Tónleikar á Karlsstöðum - Teitur Magnússon og Woodpigeon

Tónleikar og Bulsuveisla á Karlsstöðum. Fram koma Woodpigeon (CA) og Teitur Magnússon (IS). Skemmtunin fer fram á Karlsstöðum í Berufirði sunnudagskvöldið 5. júlí klukkan 20.00.

Kanadíski tónlistarmaðurinn Mark Hamilton spilar undir nafninu Woodpigeon. Mark kemur reglulega til Íslands og heldur tónleika. Hann hefur m.a. spilað á Iceland Airwaves hátíðinni, í Mengi og á Dalvík. Einnig er hann höfuðpaurinn í íslensk/kanadísku sveitinni Embassy Lights þar sem Svavar Pétur Eysteinsson og Benedikt Hermann Hermannsson spila einnig. Mark hefur verið á Evróputúr og ætlar að enda hann með stæl í hlöðunni á Karlsstöðum.

Teit Magnússon, söngvara og gítarleikara reggí sveitarinnar Ojba Rasta, þarf vart að kynna. Hann gaf út sína fyrstu sólóplötu, 27, á dögunum sem snert hefur mörg hjörtu. Lagið Munaðarhóf er í talsverðri spilun á Rás 2 og situr á vinsældarlistanum. Teitur er á flakki um sveitir landsins með gítarinn og stoppar að sjálfsögðu við á Karlsstöðum.

Miðaverð 1.500 kr
500 kr fyrir börn yngri en 12 ára.

Fréttatilkynning frá Havarí

https://www.facebook.com/events/1644440922458639/ 

https://www.facebook.com/teitur.magnusson.9?fref=ts

http://www.woodpigeon-songbook.com/

http://www.havari.is

03.07.2015

Viðburðadagatal

Viðburðadagatalið á heimasíðu Djúpavogshrepps hefur verið verið virkjað að nýju.

 

Endilega sendið tölvupóst á annað hvort netfangið hér að neðan til að fá settan inn viðburð í sveitarfélaginu:

oli@djupivogur.is

erla@djupivogur.is

 

 

ED 

02.07.2015

Söfnunarstaður fyrir gras - til endurnýtingar

Eins og íbúum er kunnugt þá er losunarsvæði okkar íbúana fyrir garðarúrgang hér í næsta nágrenni undir svokölluðum Grænhraunum http://www.djupivogur.is/adalvefur/?pageid=3064.

Til að endurnýta þann úrgang sem fellur að hluta til á þessu svæði þ.e. það gras sem fellur til úr görðum íbúa og frá opnum svæðum sveitarfélagsins viljum við nú safna öllu þessu grasi saman í einn haug í stað þess að urða það og  blanda því saman með trjágreinum og öðrum jarðefnum sem tilgreind eru þarna til losunar á svæðinu inn á Endurvinnslukortinu okkar.  

Við höfum því sett upp sérstakt skilti við veginn að Grænhraunum rétt ofan við núverandi losunarsvæði á mjög aðgengilegum stað þar sem íbúum er nú bent á að losa gras úr görðum og fyrst og síðast viljum við minna á að skilja ekkert annað eftir en gras og fyrir alla muni enga plastpoka inn á þetta svæði. Lítillega hefur borið á því að fólk skilur eftir gras í plastpokum en slíkt er stranglega bannað enda tekur það áhundruði fyrir plast að eyðast upp í umhverfinu, meðan gras brotnar niður á 3 - 4 árum við þessar aðstæður og verður eftir það að endurnýtanlegri mold sem markmiðið er með þessu.   

Stefnan er því sett á að það verði hægt að endurnýta þessa grashauga innan nokkra ára sem þarna munu myndast og brotna jafnt niður. Við munum svo merkja þennan haug fyrir árið 2015 og svo setja svo annan haug hliðina á þessum á næsta ári og þannig koll af kolli þannig að hver haugur brotni niður á sama tíma og verði þá tilbúin til endurnýtingar fyrir íbúa á sama tíma.
Við munum svo eftir atvikum nota vélar frá þjónustumiðstöð Dpv til að moka haugunum betur upp  

Það leiðbeinandi skilti sem þegar hefur verið sett upp við veginn niður í Grænhraun er mjög áberandi og þarf því ekki um að villast hvar þetta nýja viðkomandi svæði er.  

Við treystum því svo auðvitað að umgengni við þetta svæði verði sem áður til fyrirmyndar þannig að við getum náð þessu markmiði okkar að endurnýta að stórum hluta það gras sem fellur hér til árlega í stað þess að urða það eins og gert hefur verið.

Að þessu tilefni og að síðustu er full ástæða til að þakka íbúunum hér á Djúpavogi alveg sérstaklega fyrir almennt mjög góða umgengni við svæðið undir Grænhraunum. Þessi góða umgengni hefur gert okkur kleift að hafa svæðið opið allan sólarhringinn án eftirlits sem er afar mikils virði. Þau fáu frávik sem hafa komið upp þarna á svæðinu þar sem menn hafa m.a. verið að henda t.d. plasti / plastpokum í minniháttar tilvikum með grasi eru sem betur fer í algjörum minnihluta og væntum við að því linni með öllu frá þessum tíma. 

                       Með áframhaldandi góðri samvinnu og samstarfskveðjum

                      Umhverfisnefnd Djúpavogshrepps /Þjónustumiðstöð Djúpavogshrepps

 

 

 

 

 

 

02.07.2015

Bjørgvin Guitar Quartet

Laugardaginn 4. júlí kl. 17:00 mun Bjørgvin Guitar Quartet leika í Djúpavogskirkju.

 

Almennt verð: 1500 kr

Eldri borgarar, stúdentar & öryrkjar: 1000 kr

 ATH ENGINN POSI

 

Bjørgvin Guitar Quartet skipa: Morten André Larsen, Thomas Schoofs Melheim, Øystein Magnus Gjerde og Dag Håheim.

Þeir hafa spilað saman síðan haustið 2013 og komið fram á tónlistarhátíðum eins og Festspillene í Bergen. Þeir hafa einnig skipulagt tónleika á minni stöðum í Vestur-Noregi, og fóru í tónleikaferðalag um svæðið veturinn 2014.

 

01.07.2015

Breytt lega Hringvegar um Berufjarðarbotn - veglína Z

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt lýsing á breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 vegna breyttrar legu Hringvegar um Berufjarðarbotn - veglína Z.

Ofangreind lýsing liggur frammi til kynningar á skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1, Djúpavogi frá og með 1. júlí til og með 10. júlí 2015.

Einnig mun lýsingin vera aðgengileg hér á heimasíðunni.

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér lýsinguna.

Ábendingum við lýsinguna skal skila skriflega til sveitarstjóra Djúpavogshrepps, Bakka 1, 765 Djúpavogi eða á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is, eigi síðar en 10. júlí 2015.

Vinsamlegast gefið upp nafn, kennitölu og heimilisfang sendanda innsendra ábendinga.

Sveitarstjóri

01.07.2015