Aðalvefur
Grafít 1 árs starfsafmæli
Í dag bauð fyrirtækið Grafít http://www.grafit.is/is/index.html til afmælisteitis á vinnustað sínum að Mörk 2 á Djúpavogi en þar hafa þær systur Rán Freysdóttir og Alfa Freysdóttir gert sér virkilega flotta vinnuaðstöðu. Fjöldi fólks heimsóttu starfsstöð Grafít í dag og þáðu veitingar og kynntu sér starfsemi fyrirtækisins en þær systur sem eru innanhússarkitektar hafa verið að vinna að mörgum og fjölbreyttum verkefnum síðan fyrirtækið tók til starfa og hafa nóg að gera um þessar mundir sem sýnir sannarlega dugnað þeirra systra við að koma sér á framfæri. Við óskum þeim systrum því innilega til hamingju með daginn og erum þess fullviss að fyrirtæki þeirra eigi eftir að vaxa og dafna hér á næstu árum.
Sjá meðfylgjandi myndir frá afmælisfagnaði Grafít í dag.
Samantekt og myndir Andrés S
Alfa Freysdóttir og Rán Freysdóttir eigendur Grafit fagna eins árs starfsafmæli fyrirtækisins.
Gömul mynd frá Ágústi Guðjónssyni
Ágúst Guðjónsson kom með alveg hreint frábæra mynd til okkar nú í vikunni. Hún sýnir nokkra unga drengi, flestaða ættaða héðan úr sveitarfélaginu, á góðri stund um borð í Ljósfaranum í Norðursjó. Þeir hafa um hönd eitthvað sem Ágúst var viss um að væri einhvers konar "orkudrykkur". Myndin er líklega tekin 1968 eða 1969.
Mennirnir á myndinni eru: efstir Rafn Karlsson og Freyr Steingrímsson, þar fyrir neðan Sveinn Elísson frá Starmýri og Sigurður Gunnlaugsson. Fremstur er síðan Eggert Jóhannsson, sem síðar varð þekktur undir nafninu Eggert feldskeri.
Við þökkum Ágústi kærlega fyrir þessa frábæru mynd, sem við efumst ekki um að muni ylja mörgum um hjartarætur.
ÓB
Félagsvist í Löngubúð
Næstu þrjá föstudaga ætlum við að spila vist í Löngubúð.
Föstudaginn 30. janúar
Föstudaginn 6. febrúar
Föstudaginn 13. febrúar
Byrjað verður að spila 20:30 öll kvöld. Allir velkomnir.
Félag eldri borgara
Viðvera byggingarfulltrúa Djúpavogshrepps
Þórhallur Pálsson, byggingarfulltrúi Djúpavogshrepps, verður með fasta viðveru á bæjarskrifstofu 1. og 3. þriðjudag í hverjum mánuði. Hægt er að panta viðtalstíma hjá Þórhalli í síma 471-2490 eða á byggingarfulltrui@djupivogur.is
Sveitarstjóri
Djúpavogshreppur - skipulagsmál - Teigarhorn
Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt lýsing að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 vegna breyttrar landnotkunar á jörðinni Teigarhorni.
Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt lýsing á deiliskipulagi fyrir jörðina Teigarhorn í Djúpavogshreppi.
Ofangreindar lýsingar liggja frammi til kynningar á skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1, Djúpavogi frá 27. janúar til 5. febrúar 2015.
Einnig munu lýsingarnar vera aðgengilegar hér á heimasíðunni undir liðnum Aðalskipulag.
Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér lýsingarnar. Ábendingum við lýsingarnar skal skila skriflega til sveitarstjóra Djúpavogshrepps, Bakka 1, 765 Djúpavogi eða á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is, eigi síðar en 5. febrúar 2015. Vinsamlegast gefið upp nafn, kennitölu og heimilisfang sendanda innsendra ábendinga.
Sveitarstjóri
Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta
Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2014/2015 sbr. reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 652, 4. júlí 2014
Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir:
Djúpavog
Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 37/2015 í Stjórnartíðindum
Ísafjarðarbær (Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Hnífsdalur)
Umsóknum skal skilað til Fiskistofu ásamt samningi við vinnsluaðila, á eyðublöðum sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar (fiskistofa.is), og þar eru ofangreindar reglur einnig aðgengilegar. Umsóknarfrestur er til og með 9. febrúar 2015.
Fiskistofa, 23. janúar 2015.
Lyftaranámskeið á Djúpavogi
Lyftaranámskeið verður haldið á Djúpavogi 5. og 6. febrúar 2015, hefst kl. 09:00 báða dagana.
Námskeiðið er I, J, námskeið fyrir lyftara, traktora og minni jarðvinnuvélar.
Námskeiðið verður haldið á Kaffistofu Búlandstinds á Djúpavogi, þátttökugjald kr. 28.200.-
Nánari upplýsingar hjá Vinnueftirlitinu í síma 550 4670 og Magnúsi í síma 895 3331.
Bæjarlífið október-desember 2014
Nú er komið að síðasta bæjarlífspakka ársins 2014. Þar með getum við sagt skilið við árið og um leið rifjað upp hvað gerðist þessa síðustu þrjá mánuði. Í þessum veglega pakka kemur ýmislegt við sögu, s.s. jólaföndur, litla sviðamessan, ýmis konar leynimakk, jólastemmningin, áramótin og svo margt margt fleira. Með aðalhlutverk að þessu sinni fara m.a. Stefán Kjartansson, Gunnar Sigvaldason og Stefán Gunnarsson auk þess sem Sigurbjörn Heiðdal á eftirminnilegan leik í lok syrpunnar.
Komið ykkur vel fyrir, setjið Bowie á fóninn og njótið síðustu bæjarlífssyrpu ársins 2014.
ÓB
Kynningarfundur vegna skipulagsmála á Teigarhorni
Kynningarfundur vegna skipulagsmála á Teigarhorni verður í Löngubúð kl 14:00 laugardaginn 24.jan.
Kynnt verður lýsing á breytingu á aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 – 2020 í landi Teigarhorns sbr.30. gr. skipulagslaga nr. 123/ 2010 svo og kynnt lýsing á deiliskipulagi á Teigarhorni sbr 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Fulltrúi Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur FAÍ mun fara yfir stöðu og framvindu mála á fundinum og svara fyrirspurnum ásamt fulltrúum sveitarfélagsins í tengslum við skipulagsgerðina.
Allir velkomnir
Skipulags - framkvæmda- og umhverfisnefnd Dpv.
Fréttir af Kvenfélaginu Vöku
Okkur Vökukonum langar að segja ykkur frá starfsemi félagsins.
Starfsárið okkar er frá október og fram í maí, fundir haldnir fyrsta þriðjudag í mánuði nema aðalfundur sem alltaf er haldinn 9. desember, en þann dag árið 1928 var félagið stofnað.
Í dag eru 19 konur í félaginu og mikið væri það nú gaman ef það myndi fjölga á árinu, en þetta er mjög skemmtilegur félagsskapur.
Fastir liðir hjá félaginu eru sala á blómum fyrir bóndadaginn, bollusala fyrir bolludaginn, bingó , sala á sumarblómum, kertasala og jólamarkaður.
Allur peningur sem við söfnum rennur til íbúa í sveitarfélaginu, en á árinu 2014 styrktum við m.a. þessi verkefni:
500.000 til kaupa á Ipad fyrir Grunnskólann.
250.000 við komu Rúdolfs Adolfssonar sálfræðings.
170.000 runnu til íþróttamiðstöðvar til kaupa á ýmsu sem nýtist yngstu notendunum.
28.000 til kaupa á gólflömpum í Tryggvabúð.
Einnig styrktum við tvær fjölskyldur um samtals 140.000.
Á árinu 2014 tókum við þátt í Cittaslow-deginum sem er haldinn 28. september ár hvert.
Þá sáum við um hluta af veitingum á opnunardegi listasýningarinnar Rúllandi snjóbolti 5 og á útgáfudegi bókarinnar Maðurinn sem stal sjálfum sér.
Gestafundur verður í félaginu þriðjudaginn 3. febrúar á Hótel Framtið kl. 20:30 og hlökkum við til að sjá mörg ný andlit þar.
Þökkum öllum sem tóku vel á móti okkur á árinu.
Vökukonur.
Nám í vélaverði
Verið er að kanna möguleikann á námskeiði í vélaverði hér á Djúpavogi.
Námið veitir réttindi til að vera vélavörður á skipi með 750 kW vél og minni og 12 m og styttra að skráningarlengd. Leiðbeinandi yrði Magnús Hreinsson.
Um er að ræða bóklegt og verklegt nám. Verklegi þátturinn felst í almennri vélstjórn og bilanagreiningu og skal tilsvara 16 kennslustundum.
Farið verður í álagskeyrslu véla, dísilvélina + kerfi, forhleðslu, rafmagn, eldsneyti + kerfi, afgas + kerfi, varahluti og vetrargeymslu, reglur, kælikerfi (freon!), vökvakerfi og frágang véla.
Áhugasamir geta haft samband við Sævar Þór Rafnsson í síma 777-0005.
ÓB
Mest lesnu fréttir ársins 2014
Líkt og venjan er birtum við hér yfirlit yfir mest lesnu fréttir nýliðins árs.
Sem fyrr eru auglýsingar og tilkynningar ekki gjaldgengar á þennan lista. Upptalningin sýnir glögglega að fréttir tengdar brotthvarfi Vísis voru fyrirferðamiklar á árinu 2014. Mest lesna fréttin var í algerum sérflokki þegar kemur að fjölda lestra. Hún er enda næst mest lesna frétt síðunnar frá upphafi. Sama átti við um fréttina í 2. sæti, hún var í hálfgerðum sérflokki þar sem hún var helmingi oftar lesin en fréttin í 3. sæti. Minna bar hins vegar í milli á fréttunum sem á eftir koma í listanum.
Af öðru sem mikið fór fyrir í fréttaflutningi á árinu má nefnda Rúllandi snjóbolta 5, sem tókst fádæma vel og nýja ábúendur á Karlsstöðum sem létu mikið að sér kveða, bæði hér heima og ekki síður á landsvísu. Hans Jónatan heiðraði okkur síðan með nærveru sinni með eftirminnilegum hætti.
ÓB
1. Vísis-vesen
2. Rossi vakti mikla athygli
3. Hans Jónatan fékk uppreisn æru á árinu 2014
4. Vísis-vesen
5. Það er kalt á toppnum
6. Rigningarvesen
7. Vísis-vesen
8. Nagli
9. Hammond
10. Rúllandi
11. Djúpið
12. Gamlar myndir vekja alltaf athygli og þessar sérstaka
13. Rúllandi
14. Fyrstu fréttir af Hans Jónatan
15. Höfðingleg gjöf
16. Vísir að nýrri útihátíð?
17. Markaðsmál í sinni skemmtilegustu mynd
18. Heiður þeim sem heiður ber
19. Burt þú leiða Vísis-vesen - áfram Búlandstindur!
20. Vel heppnað samstarfsverkefni
21. Landslag yrði lítils virði ef það héti ekki neitt
22. Sá sem vinnur slaginn lætur alltaf út, það vita nú allir Íslendingar
23. Ár Prinsins
24. Stjáni heimsótti Simma útaf Vísis-veseninu
25. Met
Sjá einnig:
Mest lesnu fréttir ársins 2013
Mest lesnu fréttir ársins 2012
Mest lesnu fréttir ársins 2011
Mest lesnu fréttir ársins 2010
Mest lesna fréttin frá upphafi
ÓB
Síðbúnar myndir frá formlegri opnun Djúpsins
Einhverra hluta vegna hefur það algerlega farist fyrir að setja inn myndir frá opnun Djúpsins. Við getum lítið annað en beðist afsökunar á því og reyna að bæta úr því hér með.
Í vor undirrituðu Austurbrú ses., Afl starfsgreinafélag og Djúpavogshreppur viljayfirlýsingu um stofnun frumkvöðlaseturs á Djúpavogi. Tilgangur setursins er að styðja frumkvöðla við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og skapa ný atvinnutækifæri á Djúpavogi og víðar í landshlutanum. Setrið sem er staðsett í Sambúð hlaut nafnið Djúpið.
Að kvöldi 3. nóvember var Djúpið síðan formlega opnað. Gestum gafst kostur á að skoða aðstöðuna og njóta veglegra veitinga. Á þessari opnun tóku til máls Gauti Jóhannesson sveitarstjóri og Lára Vilbergsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, auk Ölfu Freysdóttur verkefnastjóra Djúpsins.
Fyrr um daginn var haldið námskeiðið Sköpunarkjarkur í Djúpinu en þar kenndi Karl Guðmundsson, ráðgjafi í vöruþróun og markaðsmálum, á einföld verkfæri sem nýst get til að virkja sköpunarkraftinn. Námskeiðið var mjög vel sótt.
Myndir frá ofantöldu má sjá með því að smella hér.
ÓB
Skýjafar og sólargangur í desember
Það var einmunablíða hér á Djúpavogi um hátíðarnar og skýjafar og sólarupprás- og lag fádæma glæsilegt. Undirritaður man hreinlega ekki eftir sambærilegri fjölbreytni því hver dagur var öðrum ólíkur á sinn einstaka hátt.
Hér fylgir safn mynda sem undirritaður tók á 10 daga tímabili í lok desember og sýnir glögglega hversu ótrúlegt þetta sjónarspil var, dag eftir dag.
ÓB
Myndir frá Þrettándagleði 2015
Djúpavogsbúar kvöddu jólin með hefðbundnum hætti á þrettándanum og létu ekki örlitla slagveðursrigningu stöðva sig.
Sem fyrr var gengið frá Sparisjóðnum sem leið liggur að blánni þar sem brennan hefur verið haldin síðustu ár. SVD Bára stóð fyrir flottri flugeldasýningu, jólasveinar komu til að kveðja en fljótlega eftir flugeldasýningunni lauk fór fólk að tínast til síns heima enda flestir orðnir býsna blautir eftir rigingaráhlaupið.
Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason.
ÓB
Myndasýning í Tryggvabúð
Í gær var efnt til myndasýningar í Tryggvabúð, félagsaðstöðu eldri borgara á Djúpavogi. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að merkja það mikla magn sem til er af gömlum myndum í vörslu sveitarfélagsins. Þar að auki er þetta hin besta skemmtun og þau voru ansi mörg andlitin sem ljómuðu í gær, þegar myndirnar tóku marga af viðstöddum mörg ár aftur í tímann, hvað eftir annað.
Óhætt er því að segja að vel hafi tekist til á þessari fyrstu sýningu, en til stendur að endurtaka þetta nokkrum sinnum því nóg er til af myndum.
Rúmlega 20 manns mættu og spáðu og spekúleruðu í þeim myndum sem birtar voru. Eftir einn og hálfan tíma lágu um 40 myndir í valnum og hafði tekist að merkja langstærstan hluta þeirra, bæði fólk og firnindi, hús og tilefni og svo auðvitað ártöl.
Afrakstur þessara myndasýninga, þ.e. merkingar þeirra, mun birtast hér á heimasíðunni á næstunni enda er mjög stór hluti þeirra mynda, sem sýndar verða, nú þegar á heimasíðunni. Við bætist svo að samkomur sem þessar gera það oftar en ekki að verkum að fólk fer að tína til gamlar myndir heima hjá sér og koma til okkar. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til þess.
Fyrirhugað er að næsta sýning verði þegar nær dregur mánaðarmótum, en hún verður auglýst hér á heimasíðunni þegar þar að kemur.
Myndir frá gærdeginum má sjá með því að smella hér.
Texti: ÓB
Myndir: AS/ÓB
Þingmenn Framsóknarflokksins með súpufund
Miðvikudaginn 14. janúar nk. verða þingmenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi með súpufund á Hótel Framtíð, Djúpavogi kl. 12:00.
Allir velkomnir.
Framsóknarflokkurinn
Flóðataflan aftur orðin virk
Okkur er það mikil ánægja að tilkynna að flóðataflan hér hægra megin á síðunni er nú loksins aftur orðin virk. Hún uppfærist alltaf á miðnætti og sýnir hæstu og lægstu gildin næsta sólarhringinn.
Við vitum að margir hafa saknað þess að taflan hafi ekki verið sýnileg og því sérlega ánægjulegt að geta virkjað þessa þjónustu að nýju, enda við hæfi hér á þessu svæði - þar sem mesti munur á flóði og fjöru getur orðið allt að 2.5 metrar.
Af þessu tilefni er við hæfi að rifja upp frétt frá árinu 2011, þegar svokallað ofurtungl gladdi áhugamenn um þessi fræði með tilheyrandi flóði - og fjöru.
ÓB
Sveitarstjórn: Fundargerð 08.01.2015
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Myndasýning í Tryggvabúð
Andrés Skúlason verður með myndasýningu í Tryggvabúð n.k þriðjudag, 13. janúar kl. 17:00. Sýndar verða gamlar myndir úr hreppnum sem borist hafa úr ýmsum áttum á síðustu árum. Ólafur Björnsson og Magnús Kristjánsson verða á staðnum og ætla m.a. að merkja þær myndir sem hægt er.
Allir velkomnir
Tryggvabúð.
Fundur í félagi eldri borgara
Fundur í félagi eldri borgara verður haldinn í Tryggvabúð föstudaginn 9. janúar. kl 14:00
Allir velkomnir
Stjórnin