Djúpivogur
A A

Aðalvefur

Bókasafnið lokað í kvöld

Bókasafnið verður lokað í kvöld.

Bókasafnsvörður.

Keppnisdagar 2014 - dagur 3 (Öskudagssprell)

Síðasti dagur keppnisdaga fór fram í dag. Sýndu hóparnir sín atriði í hæfileikakeppninni fyrir fullu íþróttahúsi. Eldri nemendur kusu yngri sigurvegara og öfugt. Í hverri grein sem keppt var í þessa þrjá daga eru gefin keppnisstig og að auki háttvísistig. Halldóra sá um að veita viðurkenningar og verðlaun. Þau lið sem unnu háttvísiverðlaun fengu ísveislu Við Voginn. Þeir sem unnu keppnisgreinarnar í yngri hóp fengu reglustikur en eldri herynatól.

Þegar verðlaunaafhendingu lauk tók Berglind við stjórninni og allir dönsuðu hópdansa eins og sjá má á þeim fjölda mynda sem teknar voru í íþróttahúsinu.

Þegar þessi orð eru rituð eru börn á gangi, syngjandi fyrir fólk og fyrirtæki fyrir gott í poka.

Í kvöld frá 5 - 7 verður diskótek á Hótel Framtíð sem er öllum nemendum opið í boði Foreldrafélagsins.

LDB

Öskudagur 2014

Öskudagur í leikskólanum er alltaf fjörugur dagur en þá mæta börnin í búningum og slá köttinn úr tunnunni.  Búningarnir voru með fjölbreyttu sniði en þar leyndust ofurhetjur eins og spiderman, superman og batman en líka prinsessur eins og Mjallhvít og Fríða eins mátti sjá Norn, Senjórítu, Skellibjöllu, lækni, síma, sjóræningja og  Bubbi byggir.  Þegar búið var að slá köttinn úr tunnunni fóru elstu nemendurnir upp í íþróttahús til að sjá lokasýningu keppnisdaganna en þau sem eftir voru horfðu á DVD mynd. 

Spiderman

Barbie prinsessa

Prinsessa

Senjóríta

Sjóræningi

Eðla

Fleiri myndir eru hér

ÞS

Sundæfingabúðir og sundnámskeið

Helgina 8-9 mars verður Guðmunda Bára með sundæfingarbúðir fyrir krakka á aldrinum 8-16 ára.

Einnig verður boðið uppá sundnámskeið fyrir yngstu börnin 6-7 ára.
Vinsamlegast skráið börnin ykkar á gbemilsdottir@gmail.com fyrir miðvikudagskvöld.

Nákvæmar tímasetningar verða auglýstar á fimmtudaginn og verða námskeiðin í boði Neista.

 

Stjórn Neista

 

 

Gamlar myndir - Merki og Efri-hjáleiga

Myndasafn okkar hjá heimasíðu Djúpavogshrepps vex og dafnar með hverjum deginum. Nú síðast kom Svandís Kristinsdóttir í Borgargarði færandi hendi með þrjár gamlar myndir sem hún á í fórum sínum og var tilbúin að deila með okkur.  Hér er sannarlega um merkilegar myndir að ræða en líklega er hvergi annars staðar að finna myndir af bænum Merki sem stóð í túnfætinum sunnan undir Hálsum við svokölluð Hálsamót.  Um er að ræða tvær myndir af bænum, önnur myndin eldri þar sem móðir Svandísar situr framan við bæinn ásamt þremur börnum og síðan er um yngri mynd að ræða þar sem búið er að byggja við bæinn.  Þá er þarna til viðbótar stórmerk mynd af bænum í Efri-hjáleigu (nýja Kambshjáleiga eins og stendur aftan á myndinni) þar sem kona að nafni Elín Stefánsdóttir bjó, kölluð Ella en hún lést árið 1959 þegar þetta litla kot brann þarna sem það stóð undir kletti í Efri-hjáleigunni. 

Við þökkum Svandísi kærlega fyrir þessar frábæru myndir.  

                                                                        Samant. Andrés Skúlason

 

 

 

 

g

Gamli bærinn í Merki - á mynd húsmóðirinn Guðný Sigurborg Sigurðardóttir, Sigurður Wilhelm Kristinsson (Sissi)

Valur Kristinsson og Helga Þórarinsdóttir 

 


Bærinn í Merki - búið að byggja við hann til vesturs


Bærinn í Efri hjáleigu sem brann 

 

 

 

 

04.03.2014

Aðalfundur UMF Neista

Aðalfundur Umf. Neista

 

Stjórn umf. Neista boðar til aðalfundar í félaginu. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 20. mars kl. 18:00 í Löngubúð

Dagskrá

  1. Venjuleg aðalfundarstörf.
  2. Önnur mál.

Allir félagar eru hvattir til að mæta og nýjir félagar eru velkomnir. Nýtt fólk vantar í aðalstjórn Neista. Þeir sem vilja gefa kost á sér til starfa en komast ekki á fundinn geta látið vita af sér hjá Sveini í síma 8671477 eða í neisti@djúpivogur.is

Iðkendur Neista eru boðnir velkomnir í Löngubúð kl. 17 þar sem verðlaun fyrir þá sem þóttu standa sig best og þá sem voru með bestu ástundun á síðasta ári.

Veitingar verða í boði.

Stjórn Umf. Neista

SÞÞ

04.03.2014

Hótel Framtíð framúrskarandi fyrirtæki

Fyrir skemmstu hlaut Hótel Framtíð á Djúpavogi frábæra viðurkenningu sem eigendur geta sannarlega verið stoltir af.  

Hótel Framtíð hefur hlotið þann heiður að vera valið úr 1% fyrirtækja á Íslandi fyrir árið 2013 sem staðist hefur styrkleikamat Creditinfo. Þetta er annað árið í röð sem Hótel Framtíð fær þessa viðurkenningu. Til að standast styrkleikamat Creditinfo þarf að uppfylla ströng skilyrði sem lögð eru til grundvallar við greiningu á framúrskarandi fyrirtækjum. Af 33.000 fyrirtækjum á Íslandi uppfylla aðeins 462 skilyrði Creditinfo um styrk og stöðugleika. 

Sjá að öðru leyti viðurkenninguna hér meðfylgjandi og hvaða skilyrði eru lögð til grundvallar.

Djúpavogshreppur vill leyfa sér hér fyrir hönd íbúa sveitarfélagsins að óska eigendum Hótels Framtíðar þeim Þóri Stefánssyni og Guðrúnu Önnu Eðvaldsdóttir ásamt fjölskyldu innilega til hamingju með þennan frábæra árangur í rekstri Hótelsins á þeim 25 árum sem þau hafa verið við stjórn fyrirtækisins. Húrra fyrir þeim.
 
Það sérstaklega ánægjulegt fyrir sveitarfélagið hafa á að skipa fyrirtæki innan Djúpavogshrepps sem hefur getið sér jafn gott orð og hér um ræðir.  

                                                                                       Andrés Skúlason
                                                                                             oddviti

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Framtíðin árið 1906

 

 

 

 

 

 

03.03.2014

Öskudagssprell

Minnum á árlegt öskudagssprell í íþróttahúsinu á öskudaginn.  Það hefst klukkan 10:30 með hæfileikakeppni grunnskólabarna og síðan verður húllumhæ, dans og söngur.

HDH

 

Keppnisdagar í Íþróttamiðstöðinni í dag og morgun

Nú standa yfir hinir árlegu keppnisdagar af hálfu Djúpavogs- og Breiðdalsskóla og verður mikið líf og fjör í Íþróttamiðstöðinni bæði í sundlauginni og íþróttasalnum frá kl 09:00 - 13:00 bæði í dag og á morgun.
                                                                                                                           Forstöðum. ÍÞMD  

03.03.2014

Hafliði og Guðný Gréta verðlaunuð

Á Búnaðarþingi sem sett var við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag veitti Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs –og landbúnaðarráðherra landbúnaðarverðlaun 2014 sem í þetta sinn komu í hlut ábúenda í Fossárdal í Berufirði, ábúenda í Friðheimum í Bláskógabyggð og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins í Reykjavík. 

Í frétt á vef Bændablaðsins segir eftirfarandi. 
Í Fossárdal reka þau Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson sauðfjárbú með á sjötta hundrað vetrarfóðraðar kindur, ferðaþjónustu og skógrækt auk annarra starfa. Fengu þau verðlaunin fyrir fyrirmyndarbúskap í Fossárdal.

Sjá einnig á vef RÚV.

Undirritaður vill í ljósi þessarar frábæru fréttar leyfa sér hér á heimasíðunni að senda þeim Hafliða og Guðný Grétu innilegar hamingjuóskir frá íbúum sveitarfélagsins með þennan frábæra árangur og við segjum auðvitað bara ferfalt húrra fyrir þeim. 

                                                                                                                                              Andrés Skúlason

                                                                                                                                                   Oddviti                            

 

01.03.2014

Samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Djúpavogshrepps

Um síðustu helgi var fjölbreyttur og skemmtilegur hópur staddur hér á Djúpavogi, en þar voru á ferð háskólanemar til helminga innlendir og erlendir og kennarar þeirra í heimildarleit um það helsta er varðar menningarmál hér í sveitarfélaginu. Ástæða þessa er að við Háskóla Íslands er nú hægt að taka sérstakan áfanga, vettvangsnámskeið um safnaskipulag og menningarmál og möguleika Djúpavogshrepps í þeim málum.

Verkefnið er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og Háskóla Íslands og er þetta í fyrsta skipti sem slíku samstarfi er komið á hér á landi milli sveitarfélags og háskólasamfélagsins, en viðlíka samvinna er þekkt erlendis við góðan orðstýr.
Gauti Jóhannesson sveitarstjóri hafði milligöngu af hálfu Djúpavogshrepps að koma verkefninu á fót í nánu samstarfi við Sigurjón Hafsteinsson prófessor við HÍ. Verkefnið er styrkt af Menningaráði Austurlands. 

Skemmst er frá því að segja að heimsókn þessi var afar ánægjuleg í alla staði en hópurinn dvaldi hér á Djúpavogi frá föstudagskvöldi fram á miðjan mánudag. Tíminn var vel nýttur frá morgni til kvölds meðan á heimsókninni stóð og var allur laugardagurinn og sunnudagurinn einnig undir í kynningu af hálfu heimamanna á menningarlandslaginu hér í Djúpavogshreppi. Heilmikið kynningarefni var í boði af hálfu heimamanna og voru m.a. settar upp glærukynningar á Hótel Framtíð, Löngubúð og á Teigarhorni en um kynningar sáu Andrés Skúlason, Gauti Jóhannesson og Kristján Ingimarsson.  Þá fór hópurinn einnig að Berufirði þar sem Hrönn Jónsdóttir var með skemmtilega og fræðandi kynningu.  Þá tóku Berfirðingar á móti hópnum með frábærum veitingum í gamla bænum og voru einnig með góða leiðsögn um Nönnusafn.  Farið var líka í heimsókn á Steinasafn Auja og er óhætt að segja að sú heimsókn bæði leiðsögnin og steinarnir sjálfir hafi vakið mikla hrifningu meðal nemenda og hið sama má segja um heimsóknina í safnið hjá Vilmundi í Hvarfi.  Þá var farið með hópinn í skemmtilega vettvangsferð um gamla Hálsþorpið við Hamarsfjörð þar sem Kristján Ingimarsson var með mjög svo fræðandi leiðsögn. Þá tók Ágústa Arnardóttir á móti hópnum í Löngubúð og var þar með aldeilis flotta kynningu á fyrirtæki sínu Arfleifð sem vakti verðskuldaða athygli. Farið var yfir safnamál í Löngubúð og gömlu húsin og húsverndin og stefna í aðalskipulagi kynnt í þeim efnum.  
Komið var einnig við í félagsmiðstöð eldri borgara í  Tryggvabúð, þar sem dýrindis vöfflukaffi var á boðstólnum.  
Þá var listaverkið Eggin við Gleðivík einnig skoðað og vakti það sömuleiðis mikla hrifningu.   

Að lokinni nokkuð viðamikilli yfirferð á stöðu mála í sveitarfélaginu með glærukynningum og vettvangsferðum völdu nemendur sér endanlega viðfangsefni og skiptu sér upp í nokkra verkefnahópa sem munu svo hver um sig skila niðurstöðu í skýrsluformi við Háskólanum í lok áfangans í vor og verður óneitanlega gaman að sjá afraksturinn.                                  

Markmið Djúpavogshrepps með þessu metnaðarfulla samstarfsverkefni við Háskólasamfélagið er að horfa til þess að hægt verði að nýta afrakstur þessarar vinnu við áframhaldandi uppbyggingu í málaflokknum á svæðinu.

Til gamans má geta þess að svo mikil eftirsókn var við þennan áfanga við háskólann að loka þurfti fyrir skráningu þegar nemendur voru orðnir ríflega þrjátíu.  

Hér fylgja með nokkrar myndir frá þessari skemmtilegu heimsókn.

AS 

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

01.03.2014