Djúpavogshreppur
A A

Aðalvefur

Unnið úr trjáberki

Krakkarnir í 3. og 4. bekk hafa verið að vinna tálguverkefni í skólanum.  Ekki má uppljóstra hvað þau voru að búa til en í dag voru þau að leika sér með afganga, trjábörk og ýmislegt fleira.  Margt skemmtilegt og sniðugt kom út úr þeirri vinnu.  Myndir eru hér.  HDH

Jólaleikur - Piparkökuhús 2013

Nýr Jólaleikur, Piparkökuhús 2013, hefst á Djúpavogi 5. desember 2013 og eru allir hvattir til að taka þátt. Húsunum, merktum höfundi er skilað inn til starfsfólks í versluninni Við Voginn á milli 5. og 22. desember.

Leiknum er ætlað að stuðla að listrænum hæfileikum hjá börnum, foreldrum, pörum og einstaklingum og koma öllum í jólaskap.

Allir sem taka þátt fara í pottinn hennar Grýlu og Leppalúði dregur út heppinn vinningshafa á Þorláksmessu. Kertasníkir kemur svo vinningnum til skila á aðfangadag.

Hérastubbur bakari
Hálsaskógi

05.12.2013

Frá félagi eldri borgara

Fundur verður haldinn í félagi eldri borgara föstudaginn 6. desember kl. 14:00 í félagsmiðstöð eldri borgara, Markarlandi 2.

Nýir félagar velkomnir.

Stjórnin

05.12.2013

Súmba fellur niður í dag

Súmba fellur niður í dag vegna jólaföndurs foreldrafélagsins.

ÓB

05.12.2013

Jólaföndur foreldrafélagsins

Foreldrafélag Djúpavogsskóla stendur fyrir jólaföndri í grunnskólanum á morgun, fimmtudaginn 5. desember.  Föndrað verður frá 17:00 - 19:00.  Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir, hvort sem þeir eiga börn eða ekki í Djúpavogsskóla.
Föndrarar eru beðnir að hafa með sér liti, skæri, lím, heftara og pening til að versla föndurvörur af foreldrafélaginu.

Nemendur í 8. og 9. bekk verða með kaffihús þar sem margar girnilegar kökur verða í boði.

Engin skylda er að föndra.  Þeir sem vilja mega koma og rölta um húsið, spjalla við fólk og hlusta á jólalög og setjast síðan inn á kaffihúsið og fá sér eitthvað gott í gogginn.  Vonumst til að sjá sem flesta. 

HDH og foreldrafélagið

Íþróttamiðstöðin verður lokuð á laugardaginn

Íþróttamiðstöðin verður lokuð laugardaginn 7.des.

                                                    Starfsfólk. ÍÞMD

04.12.2013

Frá Djúpavogskirkju

Aðventuhátíð 2. sunnudag í aðventu, 8. desember kl. 17.00.

Fjölbreytt dagskrá.

Kirkjukór, karlakórinn Trausti og barnakór flytja aðventu-og jólalög.

Helgileikir fermingarbarna og grunnskólabarna.

Eigum saman góða aðventu- og hátíðarstund,
allir velkomnir, sóknarprestur

03.12.2013

Árshátíðardiskurinn til sölu

Nú ætlum við að fara að selja árshátíðardiskinn okkar, "Footloose."  Þeir sem hafa áhuga eru beðnir að leggja inn pöntun á skolastjori@djupivogur.is Einnig er hægt að hringja í grunnskólann og panta þar í síma:  478-8836
Verð á diskinum eru kr. 1.500.-

Skólastjóri

Tendrun jólatrésins 2013

Djúpavogsbúar tendruðu ljósin á jólatré sínu þann 1. desember.

Veður var ákjósanlegt, þó það hafi kannski ekki verið sérstaklega jólalegt - sunnanátt og 5 stiga hiti.

Það var Ríkey Elísdóttir sem kveikti á jólatrénu, jólasveinarnir kíktu í heimsókn og fullorðnir og börn dönsuðu í kringum jólatréð.

Myndir má sjá með því að smella hér.

ÓB

02.12.2013

Auglýst eftir myndum af Austurlandi til markaðssetningar

Markaðssvið Austurbrúar auglýsir eftir myndum af Austurlandi til markaðssetingar hérlendis sem erlendis, sem og til framleiðslu á póstkortum.

Markaðsvið Austurbrúar auglýsir eftir myndum af Austurlandi sem nota mætti til markaðssetingar sem og prentunar á póstkortum. Myndir sem falla vel að verkefninu munu verða valdar af sérstakri dómnefnd.
Keyptar verða myndir til markaðssetningar og prentunar á póstkort. Greitt verður kr. 5.000 fyrir hverja mynd og samið við hvern og einn um notkun hennar.

Óskað er eftir að áhugasamir sendi inn að hámarki 2 myndir í hverjum flokki, alls hámark 16 myndir frá hverjum ljósmyndara, miðað við eftirtalda flokka. Einnig má senda inn myndir í einstaka flokka:

1 Þéttbýli á Austurlandi: „Bærinn minn“
2 Söfn, setur og sögufrægir staðir
3 Áhugaverðir staðir í náttúrunni
4 Áhugaverð flóra á Austurlandi
5 Dýralíf á Austurlandi
6 Menningarlíf á Austurlandi
7 Fólkið á Austurlandi
8 Árstíðir Austurlands
9 Austurland í öðru ljósi

Æskilegt er að myndirnar endurpegli Austurland, samspil manns dýra og náttúru, séð með augum íbúa.

Leiðbeiningar:
Myndum ber að skila rafrænt í smárri upplausn (max. 800x600px) fyrir dómnefnd og er miðað við að ljósmyndarar eigi höfundarréttinn á myndunum sem hann/hún sendir inn. Hver mynd þarf að vera merkt höfundi í smáu letri hægra neðra horns. Tilgreina þarf fullt nafn ljósmyndara, netfang og kennitölu við innsendingu mynda. Koma þarf fram í hvaða flokk myndin telst, hvar hún sé tekin, hvenær og af hverju hún sé.

Þær myndir sem valdar verða þurfa að vera til í hárri upplaust fyrir prentun.

Skila ber myndum á tölvupóstfangið info@east.is fyrir 15. desember næstkomandi.

02.12.2013

Frá Löngubúð

Opið verður í Löngubúð laugardaginn 30 .nóvember frá kl. 14 - 18.

Hvetjum alla til að mæta á hinn árlega jólabasar kvenfélagsins Vöku.

Kökur og kaffi og ýmisslegt annað gott.

Eigum notalega stund saman.

Starfsfólk Löngubúðar

30.11.2013

Frá Djúpavogskirkju

Fjölskylduguðsþjónusta 1. sunnudag í aðventu, 1. des. kl. 14.00.

Börn tendra ljós á fyrsta kertinu á aðventukransinum og fermingarbörn lesa ritningarlestra.

Nemendur Tónskólans spila forspil og eftirspil, þær Laura Kira Kiss og Hafrún Alexía Ægisdóttir.

Piparkökur, kaffi og djús eftir messu.

Hefjum undirbúning hátíðar með bæn og lofgjörð í hjarta.

Verum öll hjartanlega velkomnin

Sóknarnefnd vekur athygli á, að rafmagn verður tengt í Djúpavogskirkjugarði 1. des. og slökkt 11. janúar 2014. Vinsamlega greiðið gjald kr. 1000.- inn á reikning: 1147-05-401066 kt. 690408-0230.

Sóknarnefnd og sóknarprestur

29.11.2013

Frá Bakkabúð

Bakkabúð verður opin fimmtudaginn 28. nóv. frá kl. 16:00 - 18:00 og laugardaginn 30. nóv. frá kl. 14:00 - 18:00.

Verið velkomin,

Bakkabúð

28.11.2013

Steinunn Björg með flotta sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur

Steinunn Björg Helgadóttir sem íbúar á Djúpavogi þekkja betur undir nafninu, Björg í Sólhól, hefur vakið verðskuldaða athygli að undanförnu með listvefnað sinn á sýningu sem staðið hefur yfir í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Viðtökur voru vonum framar að sögn Bjargar og seldist vel.  Hér meðfylgjandi má sjá myndir af hinum glæsilega vefnaði í  bás sem Björg var með á sýningunni.  Í hverju verki liggur gríðarlega mikil vinna og er virkilega gaman að sjá hve Björg hefur afkastað miklu á þessu sviði.   Við óskum Björgu að sjálfsögðu til hamingju með þessa glæsilegu frammistöðu. 

 

 

 

 

 

 

 

28.11.2013

Jólablað Bóndavörðunnar

Jólablað Bóndavörðu kemur út fimmtudaginn 12. des. nk. og því er frestur til þess að skila inn efni fimmtudaginn 5. des. nk.

Áhugasamir eru hvattir til að senda inn pistla, vísur eða hvað annað sem menn telja að eigi heima í blaðinu.

Einnig býðst fyrirtækjum og félagasamtökum að kaupa auglýsingu í blaðinu.

Verðskráin er sem hér segir:
Heil síða 10.000.
-Hálf síða 5.000.
-1/4 síða 2.500.-

Innsent efni skal sendast á netfangið bondavardan@djupivogur.is eigi síðar en 5. desember, eins og áður sagði.

Ferða- og menningarmálafulltrúi

27.11.2013

Jólabasar í Löngubúð

Kvenfélagið Vaka stendur fyrir jólabasar í Löngubúð, laugardaginn 30. nóvember frá kl. 14:00.

Þeir sem hafa áhuga á því að selja á basarnum geta haft samband við Hólmfríði í síma 478-8895 og 892-8895.

Kvenfélagið Vaka

27.11.2013

Jólabingó Neista

Hið árlega Jólabingó Neista verður sunnudaginn 1. desember á Hótel Framtíð og að venju verða glæsilegir vinningar í boði.

Barnabingóið hefst kl:12 og fullorðins-bingóið (miðað við fermingu) hefst kl:20:00.

SÞÞ

27.11.2013

Jólatré Djúpavogsbúa

Jólatré Djúpavogsbúa verður tendrað sunnudaginn 1. desember kl. 17:00. Að venju verður sungið og gengið í kringum tréð. Einnig er von á jólasveinum í heimsókn. Eins og undanfarin ár er það Skógræktarfélag Djúpavogs sem gefur íbúum sveitarfélagsins jólatréð.

Allir velkomnir.

Ferða - og menningarmálafulltrúi

26.11.2013

Í nóvember

Við höfum gert ýmislegt í nóvember hér í leikskólanum.  Við héldum upp á daga myrkurs þar sem við tókum fyrir himinngeiminn og veðrið.  Börnin á Kríudeild unnu verkefni með hnettina og norðurljósin en börnin á Krummadeild unnu verkefni með veðrið, rigningu og snjó.   Þessi verkefni voru svo til sýnis í gestavikunni. 

 

Hnettir í geimnum

Norðurljósin

Snjókornin

Rigningin

Áður höfðu börnin á Kríudeild unnið verkefni tengd hafinu og voru þau líka til sýnis á Kríudeild og kom einn afinn færandi hendi með hluti úr hafinu. 

 

Kórall og skeljar

Fiskar í hafinu

Dagur íslenskrar tungu var á laugardegi og héldum við upp á hann á föstudeginum.  Búið var að kjósa fallegasta orð íslenskrar tungu: Ljósmóðir og ákváðu börnin á Kríudeild að kynna sér það betur.  Þau teiknuðu svo myndir af ljósmóður. 

Myndir af ljósmæðrum og fingraþulan

 Ljósmóðir

Börnin á Krummadeild höfðu hins vegar verið að æfa fingraþuluna og elstu börnin teiknuðu myndir tengdar henni.

Fingraþulan

Síðan kom snjór og höfum við verið dugleg að fara út af renna í brekkunni hjá leikskólanum. 

út að renna

Kíkið í myndaalbúmið okkar sem er fullt af nýjum myndum úr starfi leikskólans

ÞS

 

Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2013/2014

Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2013/2014 sbr. reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 665, 10. júlí 2013

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir:

Tálknafjörður
Bolungarvík
Seyðisfjörður
Djúpavogshreppur

Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 1006/2013 í Stjórnartíðindum

Árborg (Stokkseyri og Eyrarbakki)
Sveitarfélagið Ölfus (Þorlákshöfn)
Sveitarfélagið Garður
Sveitarfélagið Vogar
Stykkishólmsbær
Vesturbyggð (Patreksfjörður og Bíldudalur)
Árneshreppur
Blönduósbær
Sveitarfélagið Skagaströnd
Akureyrarkaupstaður (Hrísey)
Dalvíkurbyggð (Dalvík, Árskógssandur og Hauganes)
Fjarðabyggð (Mjóifjörður og Stöðvarfjörður)

Umsóknum skal skilað til Fiskistofu ásamt samningi við vinnsluaðila, á eyðublöðum sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar (fiskistofa.is), og þar eru ofangreindar reglur einnig aðgengilegar. Umsóknarfrestur er til og með 2. desember 2013.

Fiskistofa, 15. nóvember 2013.

 

21.11.2013

Haustfagnaður eldri borgara

Haustfagnaður eldri borgara á Djúpavogi verður haldinn í Markarlandi 2, laugardaginn 23. nóvember kl. 18:00.

Allir 60 ára og eldri velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Aðgangseyrir 2.500 kr.

Miðar seldir í Markarlandi 2 frá mánudeginum 18. nóvember til fimmtudagsins 21. nóvember kl. 13:00-17:00.

Nefndin

21.11.2013

Bækur fást gefins - framlengd opnun

Fólki hefur gefist kostur á því síðustu daga að hirða bækur og tímarit sem stendur til að henda. Markaðurinn er staðsettur inni í bræðslu (löndunarhúsi).

Nú hefur verið ákveðið að framlengja opnunartímann til 24. nóvember.

Það kennir ýmissa grasa þarna og lestrarþyrstir eru því hvattir til að renna inneftir milli 8-17 virka daga og athuga hvort þeir finni ekki eitthvað við sitt hæfi.

Einnig verður opið helgina 23.-.24. nóvember frá 10-19.

 

ÓB

 

 

 

20.11.2013

Sögustund í Löngubúð

Berglind Ósk Agnarsdóttir, sagnaþulur ætla að segja okkur skemmtilegar sögur fimmtudaginn 21. nóvember kl. 17:00

Kósý stund í kuldanum fyrir börn og fullorðna - kökur, kakó og kaffi og annað gott.

Sjáumst!
Langabúð

20.11.2013

Viðvera menningarfulltrúa

Menningarsvið Austurbrúar auglýsir viðveru í sveitarfélögum á Austurlandi vegna umsókna um stofn- og rekstrarstyrki og verkefnastyrki fyrir árið 2014. 

Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi verður á Djúpavogi miðvikudaginn 27. nóvember, á bæjarskrifstofunni frá kl. 14:00 - 17:00.

Viðtalstímar menningarfulltrúa, Signýjar Ormarsdóttur, verða sem hér segir:

Fljótsdalshérað
18. nóvember kl. 13.00 - 16.00 Skrifstofu Austurbrúar Miðvangi 2-4 Egilsstöðum
Borgarfjörður
20. nóvember kl. 13.00 - 15.00 Hreppsstofa
Seyðisfjörður
25. nóvember kl. 13.00 - 17.00 Hafnargata 28, (Silfurhöllin) húsnæði Austurbrúar
Djúpivogur
27. nóvember kl. 14.00 - 17.00 Hreppsskrifstofa Bakki 1
Breiðdalsvík
28. nóvember kl. 10.00 - 12.00 Hreppsskrifstofa, grunnskólanum
Fjarðabyggð
28. nóvember kl. 13.00 - 15.00 Grunnskólinn á Stöðvarfirði
28. nóvember kl. 15.30 - 17.00 Kaffi Sumarlína, Fáskrúðsfirði
Fjarðabyggð
2. desember kl. 10.00 - 13.00 Kreml húsnæði Austurbrúar Egilsbraut 11, Neskaupstað
2. desember kl. 14.00 - 16.00 Kirkju- og menningarmiðst. Eskifirði
Fljótsdalshreppur
3. desember kl. 14.00 - 16.00 Végarði
Fjarðabyggð
4. desember kl. 10.00 - 12.00 Fróðleiks molanum, Reyðarfirði
Vopnafjörður
5. desember kl. 11.00 - 14.00 Kaupvangi
Fljótsdalshérað
6. desember kl. 10.00 - 15.00 Skrifstofu Austurbrúar Miðvangi 2-4 Egilsstöðum

Einnig er hægt að óska eftir viðtölum á öðrum tímum. Skrifstofa menningarfulltrúa er að Miðvangi 2-4, 3. hæð, Egilsstöðum. Sími 470-3800 og 860-2983.

20.11.2013

Stofn og rekstrarstyrkir til menningarstarfsemi

Austurbrú ses auglýsir stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála (styrkir sem Alþingi veitti áður).
Tilgangur styrkjanna er að stuðla að því að efla starfsemi á sviði lista, safna og menningararfs. Styrkveitingarnar miðast við árið 2014. Umsóknarfrestur rennur út fimmtudaginn 12. desember 2013 og umsóknum ásamt fylgiskjölum skal skila rafrænt á umsoknir@austurbru.is.

Menningarfulltrúi Austurbrúar verður með viðveru víða um Austurland áður en umsóknarfrestur rennur út. Umsóknareyðublað og úthlutunarreglur er að finna á heimasíðu Austurbrúar www.austurbru.is.

Nánari upplýsingar er hægt að fá á netfanginu menning@austurbru.is eða hjámenningarfulltrúa Signýju Ormarsdóttur í síma: 470-3800 og 860-2983.

20.11.2013

Verkefnastyrkir til menningarstarfs á Austurlandi árið 2014

Austurbrú ses. auglýsir eftir umsóknum um styrki á grunni samnings sveitarfélaga á Austurlandi, mennta-og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um menningarmál. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarfsemi og menningartengda ferðaþjónustu á Austurlandi.

Áherslur Menningarráðs Austurlands fyrir árið 2014 eru:
• Verkefni sem hvetja til samstarfs milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina. Einnig verkefni sem hvetja til samstarfs milli samstarfssvæða Menningarráðs Austurlands sem eru Vesterålen í Noregi og Donegal á Írlandi.
• Verkefni sem efla atvinnustarfsemi á sviði menningar, lista og menningartengdrar ferðaþjónustu.
• Verkefni sem stuðla að samvinnu atvinnumanna í listum, listnema og leikmanna.
• Verkefni sem miða að því að listnemar og ungir listamenn frá Austurlandi komi í auknum mæli að listsköpun og menningarstarfi í fjórðungnum.
• Undirbúningsstyrkir fyrir stærri samstarfsverkefni til að auðvelda aðilum undirbúning, kanna forsendur og búa til tengslanet. Umsókn þarf að fylgja staðfesting þátttakenda í verkefninu og lýsing á hlutverki hvers og eins þeirra.

Umsóknarfrestur er til og með fimmtudeginum 12. desember 2013 og fer úthlutun fram í upphafi árs 2014.

Með umsókninni verður að fylgja greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur. Mikilvægt er að umsóknir séu rétt útfylltar og öllum skilyrðum fylgt, að öðrum kosti verður umsókn hafnað.

Umsóknum skal skilað til menningarsviðs Austurbrúar ses. á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á heimasíðunni. www.austurbru.is. Þar er einnig að finna stefnu sveitarfélaga á Austurlandi í menningarmálum, nýjar úthlutunarreglur og aðrar upplýsingar fyrir umsækjendur.

Styrkþegar frá árinu 2013 verða að hafa skilað inn greinargerð skv. samningi til þess að þeir geti sótt um fyrir árið 2014.

Allar nánari upplýsingar er hægt að fá með því að senda tölvupóst á menning@austurbru.is og hjá Signýju Ormarsdóttur, menningarfulltrúa Austurbrúar, í síma 470-3800, 860-2983.

Umsóknir skal senda í tölvupósti á umsokn@austurbru.is og í átta eintökum í ábyrgðarpósti, til Menningarráðs Austurlands, pósthólf 123, 700 Egilsstaðir.

 

20.11.2013

Frá Bakkabúð

Bakkabúð verður opin miðvikudaginn 20. nóvember frá kl.16:00 - 18:00 og fimmtudag frá kl. 15:00 - 16:30.

Verið velkomin!!

Bakkabúð

20.11.2013